Við komum frá Sauðárkróki í gærkvöldi. Þangað fórum við á fimmtudaginn á unglingalandsmót UMFÍ. Þetta var fín samkoma. Aðstæður eru náttúrulega eins og þær geta bestar verið á Sauðárkróki. Flott mannvirki og öll innan seilingar hvert frá öðru þannig að ef foreldrar voru með börn sem voru að keppa á mismunandi vígstöðvum þá var stutt að fara á milli. Skagfirðingar kunna að standa að svona mótum svo framkvæmdin var til fyrirmyndar. Þetta er fimmta unglingalandsmótið sem við förum á og alltaf jafn gaman að koma á þau. Veðrið var í lagi. Smá kalt og kaldi á föstudag en þurrt, logn, hlýrra og smá súld á laugardag og svo sól og gott veður á sunnudag. Fólkið var til fyrirmyndar, maður var aldrei var við neinn umgang eða hávaða á tjaldstæðinu eftir miðnætti svo það var allt einnig eins og best var á kosið hvað þessa hlið málsins snerti.
Keppendum fjölgaði verulega frá fyrri mótum eða upp í um 1500. Svo voru 8-9.000 aðstandendur með. Það er ljóst að það er ómögulegt fyrir minni staði að taka á móti svona mótum. Strandabyggð átti að halda mótið á næsta ári en þau eru hætt við það, sem beteur fer. Mótið verður haldið á Grundarfirði á næsta ári en síðan á Egilsstöðum þar sem allar aðstæður eru fyrir hendi. Mér fannst athyglisvert að sjá að Norðurþing hafði sótt um að halda mótið á árinu 2011 á Þórhöfn á Langanesi. Nú vil ég Þórshöfnungum og þeim Norður Þingeyingum alls hins besta eftir nokkra ára ánægjulega búsetu á Raufarhöfn. En það er á hreinu í mínum huga að svona stórt mót er of stórt verkefni fyrir 500 manna samfélag. Sveitarfélagið yrði að leggja í það mikinn kostnað fyrir eina helgi að það væri óverjanlegt án þess að ég útlisti það nánar. Menn byggja ekki upp aðstæður fyrir svona mót í flestum byggðarlögum landsins. Það er á hreinu. Skynsemin verður að ráða.
Landsmótin eru að öðrum toga eins og stórt ættarmót. Þarna hittir maður vini og kunningja sem maður hittir sjaldnast nema einu sinni á ári á þessu móti. Það er eitt af því ánægjulega við þessar samkomur. Þarna koma foreldrar með krakkana sína sem spreyta sig við hinar mismunandi íþróttagreinar. Gaman var að sjá hvað eldri flokkarnir voru fjölmennari en oft áður. Bæði ferðast fólk minna til útlanda yfir hásumarið en áður og einnig eru uppeldisáhrifin af mótunum einnig að koma í ljós. Krökkunum finnst sjálfsagt að fara á landsmótið eins og fyrri ár enda þótt þeir séu orðnir eldri.
Maður heyrði ekki mikið af fréttum yfir helgina en þó gat maður ekki annað en numið þær helstu. Lögbann héraðsdóms Reykjavíkur á fréttir RÚV af lánabók Kaupþings er náttúrulega með slíkum ósköpum að maður hefur varla eða ekki heyrt hliðstæðu þess. Heldur Héraðsdómur Reykjavíkur virkilega að hann geti barið niður umræðu um stöðu mála og vinnubrögð bankamanna fyrir hrunið með þessum vinnubrögðum? Það er mikill misskilningur. Það ríkir ekkert venjulegt ástand í landinu. Bankakerfið er hrunið og það lá við að hagkerfið sigldi í þrot sl. vetur. Það mátti t.d. engu muna að innflutningur olíu og lyfja strandaði eftir bankahrunið vegna gjaldeyrisskorts svo dæmi sé nefnt. Við slíkar aðstæður verur að leggja öll spil á borðið. Að reyna að beita bankaleynd til að koma í veg fyrir upplýsta umræðu um vinnubrögð í bankageiranum í aðdraganda hrunsins er í besta falli hreinn barnaskapur en stutt er yfir í að hömlur á upplýsingar og umræðu sé kríminell þegar tekið er mið af þeim byrðum sem á að leggja á fólkið í landinu. Þegar á að leggja gríðarlegar skuldbindingar á herðar almennings sem hann átti enga aðkomu í að stofna til þá er lágmarkskrafa að sá sami almenningur geti farið í gegnum upplýsta umræðu um aðdraganda og forsendur bankahrunsins.
Eva Joly reit skelegga grein í Mbl og nokkur erlend blöð á helginni. Ég sá ekkert í þeim skrifum sem mér þótti aðfinnsluvert og var í raun og veru ánægður með að hún skyldi tala málstað fólksins í landinu með svo skeleggum hætti. Það er því með miklum firnum að aðstoðarmaður forsætisráðherra vaði opinberlega í Evu með köpuryrðum. Það er ljóst að í öllum alvöru samfélögum þá segir aðstoðarmaður forsætisráðherra ekkert opinberlega nema í samráði og með samþykki yfirboðara síns. Það væri áhugavert að fá nánari umfjöllun um þá hlið málsins.
Fagmenn í PR málum hafa gagnrýnt stjórnvöld fyrir slælega framgöngu við að kynna sjónarmið íslendinga erlendis og þá sérstaklega í þeim löndum sem Icesafe málið vegur þyngst á metunum. Skrifstofustjóri kynningarmála í fjármálaráðuneytinu svaraði gagnrýninni í hádegisútvarpinu. Það hlýtur að vera hægt að leggja fram yfirlit um það sem gert hefur verið í þessum málum síðustu vikur og mánuði. Fundir, viðtöl, blaðagreinar, auglýsingar og svo framvegis. Upplýsingar á borðið, takk fyrir.
Það væri gaman að fá upplýsingar um hve margar nauðganir eru kærðar á Hróarskelduhátíðinni í Danmörku ár hvert. Þangað koma árlega nokkrir tugir þúsunda gesta. Ég tel mig muna það rétt að fyrir nokkrum árum hafi því verið slegið upp með stríðsletri í dönskum fjölmiðlum að stúlku hafi verið nauðgað á Hróarskeldu. Það þótti mikil og slæm tíðindi. Samkvæmt fréttum eru allir sammála um að verslunarmannahelgin hafi gengið mjög vel hérlendis í ár. Eiginlega alveg ótrúlega vel. Einungis fjórar eða fimm nauðganir hafi verið kærðar, þar af tvær á fimmtán ára stúlkum. Álíka fjöldi varð fyrir mjög grófum líkamsárásum fyrir utan alla smápústra. Fangageymslur voru víða stappfullar en annars var þetta alveg skínandi vel lukkað.
Ég hlustaði á brekkusöng Árna Johnsen í útvarpinu í gærkvöldi þegar við vorum að taka upp úr töskunum. Árni verður seint talinn til betri gítarleikara og margir eru betri söngvarar en hann en hann er entertainer. Hann kann að skemmta fólki og það er það sem mestu máli skiptir.
Ég hljóp ekki mikið seinni hluta júlí. Það var allt í lagi því maður þarf að huga að hvíldinni af og til. Nú eru næg verkefni framundan. RM (kannski tvöfalt), Haustlitahlaupið og svo London - Brighton þann 20. sept. Það verður því hert á prógramminu næstu vikurnar. Það er bara fínt því maður er fullur áhuga á að takast á við skemmtileg verkefni.
mánudagur, ágúst 03, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Las hér um daginn að sundfélagið Stavanger var ferlega fúlt þegar 50m sundlaug var sett aftarlega á lista en engin slík er á svæðinu.
Þá varð mér einmitt hugsað til þess sama þ.e. þess vitleysu að þvæla UMFÍ mótum á milli staða og nota það sem gulrót til að spandera pening í stór íþróttamannvirki fyrir 1000 manna bæjarfélög.
Þegar eitt rikasta bæjarfélag á Norðurlöndum finnst 50m laug too much þá ættu menn kannski aðeins að skoða hvað 1000 manna samfélag þolir.
Amk hefur völlurinn á Dalvík verið lítið notaður síðustu 10 ár enda lá alltaf fyrir að allir peningar færu í að halda út vonlausu fótboltaliði og þar af leiðandi ekkert gert með þennan fína frjálsíþróttavöll.
Þetta er athyglisvert Börkur. Aðferðin "Skrifaðu flugvöll" hefur nefnilega verið notuð nokkuð ótæpilega hérlendis á undanförnum árum. Síðan er annar hlutur sem menn mega skoða. Mikill kostnaður við mannvirki hefur gert það að verkum að það eru takmarkaðir fjármunir til staðar að ráða hæfa þjálfara til starfa.
Skrifa ummæli