Það lítur þokkalega út með veður á laugardaginn. Það gæti dropað eitthvað en það verður bara að ráðast. Það verður vonandi þokkalega hlýtt. Ég geri ráð fyrir að taka tvöfaldan hring eins og í fyrra. Þá byrjar maður um kl. 4:30 niður í Lækjargötu og fer maraþonleiðina eins og hún liggur fyrir. Miðað við þokkaleg rólegheit geri ég ráð fyrir að koma í Lækjargötuna upp úr kl. 8:30 eða í tæka tíð til að koma inn í startið. Ég vil ekki koma of snemma og stoppa því þá er hætta á að maður stirðni. Best er að koma að öftustu mönnum og halda beint áfram í gegnum markið og taka þann seinni. Þetta verður síðasta langa æfingin fyrir London - Brighton hlaupið sem ég fer í þann 21. september n.k. Maður tekur kannski nokkur millilöng en ekki svona langt. Markmiðið verður að fara formlegt maraþon undir 4 klst. Ég fer aðeins yfir markinu í fyrra en þá var ég einhverra hluta vegna ekki alveg góður í maganum og þurfti að stoppa nokkrum sinnum á klósetti.
London - Brighton hefur þá sérstöðu að það er elsta ultrahlaup í heiminum. Fyrsta skráða hlaupið á þessari leið var haldið 1837 en fyrsta formlega keppnishlaupið avr haldið árið 1899. Fimm hlauparar luku hlaupinu en aðrir komu til Brighton með lest. Hlaupið komst í formlega mynd árið 1951 en leiðinni var breytt fyrir nokkrum árum og hlaupið fært út af hraðbrautinni út á sveitavegi. Það tekur lengri tíma nú að hlaupa það en áður og einhver hætta er á að maður villist. Alla vega fá hlaupararnir kort. London - Brighton er eitt af fjórum klassísku ultrahlaupum í heiminum.
Það verður gaman að sjá myndina frá Laugaveginum hjá Pétri Helga á morgun. Flott hugmynd hjá honum að taka dolluna með og fá þessa fínu dokumentarmynd út úr hlaupinu. Það er margt hægt. Því miður get ég ekki kíkt á fyrirlestrana seinnipartinn á morgun. Gerfigrasvöllurinn í Víkinni verður vígður síðdegis á morgun og strax á eftir verður dead or a life leikur hjá meistaraflokki Víkings við Aftureldingu. Ef Víkingur tapar eru þeir komnir í hörku fallbaráttu. Ef þeir vinna verður sjálftraustið vonandi aðeins skárra og smá fjarlægð komin frá fallslagnum.
María fer til Finnlands í fyrramálið á norðurlandamót unglinga í frjálsum íþróttum. Hún keppir þar í báðum grindahlaupunum. Það er nóg að gera því á helginni var hún einnig kölluð út í æfingar með unglingalandsliðinu í fótbolta undir 17 ára. Það gengur bara ekki upp að vera á mörgum vígstöðvum í einu. Það verður spilaður riðill í þessum aldursflokki hérlendis í byrjun september. Það kemur í ljós hvort hún verður valin í hópinn. Ef hún stendur sig vel í úrslitaleikjunum með HK/Víking á næstunni þá er allt opið í þeim efnum.
Hún mætti á skólasetningu í MR í dag. Nú er alvaran tekin við á þeim vettvangi.
fimmtudagur, ágúst 20, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli