Ég vaknaði kl. 3:00 í nótt og fór að gera mig kláran. Það er að ýmsu að sinna áður en farið er í langa ferð. Morgunmaturinn er einfaldur á svona dögum, 1/2 líter af Herbalifehristing. Ég hafði hins vegar svolitlar áhyggjur af kvöldmatnum í gærkvöldi. Ég var niður í Vík á fótboltaleik, kom seint heim og reyndi að tína í mig það sem til var. Vanalega borða ég mig pakksaddan af staðgóðum mat fyrir löng hlaup en því var ekki að heilsa nú. Ákveðið fyrirhyggjuleysi. Það var allt blautt þegar ég leit út og hafði veður skipast skjótt í lofti. Það hafði verið heiðskýrt þegar ég fór að sofa og það hafði gefið ákveðnar vonir um góðviðri í dag. Ég var kominn niður í Lækjargötu rétt um 4:30, fór gegnum markið sem var verið að setja upp og hélt af stað. Planið var að fara fyrri hringinn á rétt rúmum 4 klst þannig að ég væri kominn í Lækjargötuna rétt í þann mund sem maraþonhlaupið yrði ræst. Fljótlega eftir að ég var lagður af stað fór að rigna og það rigndi áfram. Ég varð fljótt hundblautur og mér kólnaði. Eftir um klukkutíma í meiri og minni rigningu ákvað ég að koma við heima eftir rúma 23 km og sækja mér þurr og hlýrri föt. Þá hætti að rigna og ég fór að vona það besta. Ég rúllaði áfram í rólegheitum sem leið lá eftir maraþonbrautinni. Þegar ég kom heim var farið að hlýna þannig að ég sleppti öllum fataskiptum, vakti Svein sem ætlaði að hlaupa 1/2 maraþon, fyllti á brúsann en tók þó með mér vettlinga og þurra sokka. Ég hélt svo áfram sem leið lá út Fossvoginn, vestur Ægissíðuna og inn með að norðanverðu sem leið lá. Ég var kominn í Lækjargötuna svona 5 mínútum áður en hlaupið byrjaði. Ég var aftarlega þegar hlaupið byrjaði og þurfti að koma við í bílnum út við Suðurgötu. Ég sleppti öllum fataskiptum, fékk mér áfyllingu af hristing og græjaði mig áfram. Þá var hópurinn farinn hjá þannig að ég var orðinn síðastur. Ég náði öftustu mönnum í Suðurgötunni og svo nuddaði ég áfram, færði mig jafnt og þétt framar í hópinn. Skrokkurinn var fínn og þetta var bara nýtt hlaup. Ég fékk þó leiðindanuddverk í hægri fótinn og fannst á öllu að nú væri risablaðra í uppsiglingu. Það var ekkert við því að gera svo ég fór að hugsa um annað og hætti að hugsa um verkinn. Inni á hafnarsvæðinu var ein drykkjarstöð með lágmarks mannskap og starfsfólkið var á útopnuðu við að fylla í glös og þjóna hlaupurunum. Einum fannst það ekki ganga nógu vel og hreytti skæting í starfsfólkið fyrir lélega þjónustu. Hlaupari sem er að hlaupa maraþon á um 4 klst er ekki að keppa um verðlaun af einu eða neinu tagi. Fullorðið fólk á nú að kunna að anda með nefinu og sýna fólki sem er að vinna við svona hlaup í frítíma sínum lágmarks kurteisi, því það eru allir að gera sitt besta. Ég átti hristing úti í runna rétt við brúna yfir Miklubrautina og það var fínt að fá áfyllingu. Þarna fór þó smá pirringur að gera vart við sig. Mér fannst Powerate drykkurinn vera orðinn vemmilegur svo að ég var hættur að geta drukkið hann. Þegar ég reyndi að pína geli í mig með honum þá ætlaði allt að koma öfugt til baka. Á hverri drykkjarstöð vonaðist ég eftir því að það væri kók á boðstólum en sú von brást. Starfsfólkið sagði að það væri ekkert kók með í dæminu. Það er mikill kostur í löngum hlaupum að geta fengið fleiri en eina tegund orkudrykkja því þessir drykkir eru ekki neitt sérstaklega frískandi til lengdar. Ég var orðinn svo þurfi fyrir orkuskot úti við landamæri Reykjavíkur og Seltjarnarness að ég fór inn í búðina og bað um að fá eina kók lánaða. Það var mjög auðsótt og hún hressti mig verulega. Ég rúllaði svo í mark á rúmum 4 klst sem er svona la la. Ég hafði ætlað að fara undir 4 klst en það tókst ekki. Maður er hins vegar ekki að taka innan úr sér í svona hlaupi réttum mánuði fyrir keppnishlaup. Maður tekur þetta sem langa æfingu. Það tefur svolítið þegar er bara eitt klósett á drykkjarstöðvum og margir eru um hituna (setuna). Ég verð að segja eins og er að mér fannst viðurgerningurinn í markinu ekki nógu góður. Þegar fólk kemur í mark eftir maraþonhlaup er gott að fá smá orku- og sykur skot. Margir eru orðnir orkulitlir. Kók er það besta undir slíkum kringumstæðum. Poweratedrykkurinn sem maður er búinn að sulla í undanfarna klukkutíma er ekki það besta við hlaupalok. Eitthvað kökudrasl og bananar voru svo með orkudrykknum. Þetta fannst mér ekki lystugt. Stelpurnar sem voru að afgreiða orkudrykkinn sögðu að mjög margir hefðu spurt um kók. Mér finnst Vífilfell bara ekkert of gott til að spandera kóki í marknu og á drykkjarstöðvar í seinni hluta hlaupsins fyrst það er höfuðdrykkjarsponsör hlaupsins. Það var farið að rigna og kólna svo hlauparar voru farnir að hafa sig fljótt í burtu. Engu að síður hitti maður nokkra. Í fyrra fór ég fram úr gömlum skólabróður mínum á Ægissíðunni. Hann var ekki sérlega kátur yfir því þegar hann frétti að ég hefði verið á öðrum hring. Nú mætti hann betur undirbúinn og var kominn í mark þegar ég birtist. Þeir Borgarnesbræður, Stefán Gíslason og Ingimundur voru kampakátir. Þeir höfðu báðir bætt sig verulega. Stefán bætti tímann frá Akureyri um 10 mínútur og lauk hlaupinu á 3.17 klst. Ingimundur bætti tímann sinn um 13 mínútur og lauk hlaupinu á 3.20 klst. Stefán er gamall hlaupajaxl og laufléttur en saga Ingimundar er dálítið önnur. Fyrir fimm árum og 30-35 kílóum síðan gat Ingimundur ekki hlaupið þótt hann bæði vildi og reyndi. Nú, fimm árum síðar, er hann orðinn hörku hlaupari. Þetta er náttúrulega ekkert annað en kraftaverk í þess orð fyllstu merkingu. Hann hefur fengið Herbalife hjá mér og hefur sömu reynslu og ég að maður er miklu fljótari að jafna sig eftir langa túra ef maður fær sér próteinhristing á undan og eftir. Síðan er hann hættur að borða allt kolvetnadrasl og niðurstaðan er þessi. Magnað.
Ég fór svo að koma mér heim en tafðist nokkuð því bíllinn var lokaður inni í Latabæjarhlaupinu. Það var bara gaman að fylgjast með krökkunum og tíminn var vel notaður við að spjalla og teygja. Eftir Herbalife hristing og pottsetu var maður orðinn eins og ef maður hefði sofið út til kl. 10:00 í morgun. Dagurinn gat varla verið betri.
laugardagur, ágúst 22, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
Herbalife klikkar ekki, prófaðu að nota H3O í stað Powerate.
Frábært að lesa greinina eftir þig. já ég er sammála að Herbalife gefur manni kraft og bætir líkamlega og andlega heilsu.Fyrir ár þá gat ég ekki hlaupið 10 mínútur út af vöðvaþreytu og mæði en ég kláraði 10 km á klst sem er met fyrir mig!! Herbalife er snilld. Kv.Arna Hrönn
Takk fyrir aths. Mér líkar vel við H3O. Það er alls ekki eins leiðigjarnt til lengdar eins og Powerate. Maður freistast hins vegar til að nota það sem er á drykkjarstöðvunum frekar en að hlaupa fulllestaður af nesti. Í alvöru keppnishlaupum er hins vegar allt undir kontrol.
G
Mögnuð lesning :D Til hamingju með frábæran árangur þótt þú hafir viljað gera betur ;) Það kemur jú annað hlaup eftir þetta og enn tími til að bæta "gamla" metið :D
Eg er sammála, Poweraide eða Gatorade er ekki gott til lengdar, H3O hefur virkað frábærlega hjá mér og að drekka 1/2 próteinhristing fyrir og eftir góða "æfingu" hefur alveg bjargað öllum harsperrum og fylgjandi þreytu eftir langt hlaup eða miklar æfingar :D
Ætli það sé ekki smá möguleiki í að fá Herbalife til að "sponsa" svona hlaup ;) Ég persónulega væri alveg til í að leggja mitt af mörkum til að hafa góðan drykk og próteinsnarl á drykkjarstöðum og endastöð :D
Þú ert hörkunagli, enn og aftur til hamingju :D
Skrifa ummæli