miðvikudagur, október 07, 2009

Það var eins og mig grunaði að það voru vel á annað hundrað manns sektaðir í Laugardalnum á bikarúrslitaleiknum á laugardaginn. Svo var brit mynd í Mogganum af tómu bílastæði sem var tekin um hádegið. Leikurinn byrjaði ekki fyrr en kl. 14:00 svo það var náttúrulega varla nokkur kominn um hádegið. Vitaskuld eiga vallaryfirvöld að vera með menn á vakt þarna fyrir framan til að leiðbeina bílstjórum í auð stæði svo þau nýtist sem best. Það er yfirleitt gert þar sem mikið er um að vera og þrengsli eru veruleg. Gangandi menn með talstöðvar eiga auðvelt með að vísa mönnum leiðina svo stæðin nýtist til fullnustu. Þessi aðferð að sekta menn sem leggja snyrtilega út á grasflöt án nokkurrar truflunar fyrir umferð bíla eða gangandi er náttúrulega forkastanleg við þær aðstæður sem þarna eru. Hvað á að gera þegar völlurinn er fullur af fólki? Hvað á að gera á 17. júní þegar margir fara í miðbæinn og fólki er beinlínis stefnt þangað. Hvað á að gera á menningarnóttina þegar öllum er stefnt í miðbæinn og hann er kakkfullur? Sekta allt og alla ef menn leggja upp á grasflöt. Ég er alls ekki að mæla því bót að menn leggi eins og tuddar á gangstéttir í miðbænum dags daglega svo það sé á hreinu.

Mikið hefur verið fjallað um það í fjölmiðlum að lögreglan á Suðurlandi sá í gærkvöldi loftstein koma inn í gufuhvolfið og brenna upp. Mikill glampi myndaðist við það þegar loftsteinninn brann upp. Þetta minniti mig á atburð sem ég varð vitni að fyrir ca 12 árum. Ég var eitt sinn á leið til Akureyrar síðla nætur að vetrarlagi þegar ég bjó fyrir norðan. Ef maður þurfti að ná fyrstu vél suður frá Akureyri þá var það passinn að fara af stað frá Raufarhöfn um kl. 5:00 að morgni. Þegar ég kem í Kelduhverfið tek ég eftir rákum á himninum. Þeim fór fjölgandi svo ég stoppaði bílinn og fór að horfa á fyrirbrigðið. Stjörnuhröpunum fjölgaði og voru þau um stund eins og skæðadrífa á himninum. Einum þrisvar eða fjórum sinnum kom síðan svo stór blossi að það var albjart um allt. Þetta stóð yfir í svona tíu mínútur en svo dró úr þessu aftur. Þegar morgnaði hringdi ég í Þorstein Sæmundsson stjórnufræðing og sagði honum frá þessu. Það sem veldur þessu er að ský af smáörðum kemur inn í gufuhvolfið og brennur þar upp. Nokkrir stærri hnullungar eru einnig með og þeir mynda blossana þegar þeir brenna.

Járnbræður kepptu í Ironman í Barcelona á sunnudaginn. Það var heitt og hitinn var erfiður. Þeir luku þó allir keppni og Steinn, Trausti og Eddi bættu tíma sína frá því í fyrra. Erfiðleikar eru ágætir af og til því maður lærir mikið á þeim. Þeir eru gott innlegg í reynslubankann sem nýtist við síðari tíma þolraunir. Hásinameiðslin plaga Stein síðan í vor svo hann er ekki nógu heill. Þau eru óþverri því þau eru svo langvinn.

Ég hlustaði á eldhúsdaginn með öðru eyranu í gær. Mér fannst vanta tilfinnanlega að atvinnumálin kæmu inn í umræðurnar af þeim þunga sem eðlilegt og nauðsynlegt er við ríkjandi aðstæður. Nú verðum við að hlú að þeirri atvinnustarfsmei sem tiltæk er. Það verður t.d. að fá á hreint hvað fiskistofnarnir þola mikla aukningu. Nú má ekkert tækifæri liggja ónotað.

Mér finnst full ástæða til að skoða það að taka skattinn af lífeyrisgreiðslum út strax í stað þess að þær séu teknar þegar maður tekur lífeyrinn út. Það er alla veg aumræðunnar virði. Þegar þarf að hækka skata og skera niður útgjöld eins og frekast er unnt þá þarf að skoða allar leiðir.

3 ummæli:

Unknown sagði...

Almenningssamgöngur - er ekki lögð rík áhersla á að fólk noti strætó á stórviðburði eins og menningarnótt. Þegar fótboltakeikir fara fram um miðjan dag á laugardegi er engum vorkunn að taka strætó.
Kveðja á liðið
Jana

Nafnlaus sagði...

Sæl Jana og gott að heyra frá þér. Vonandi hafði þið það gott vestra. Það er nú bara svo einfalt að almenningssamgangnakerfið í borginni annar ekki að flytja fólk til og frá miðborginni þegar 60-80 þúsund manns eru samankomin í miðborginni. Sérstaklega þegar allir eru að fara heim á sama tíma. Það sér hver maður. Sama gildir með Laugardalsvöllinn þegar mikið stendur til þar. Maður sér fyrir sér nokkur þúsund manns híma upi á Suðurlandsbraut í roki og rigningu að bíða eftir næsta strætó. Mér finnst vinnubrögðin þarna vera einfaldlega fyrir neðan allar hellur og gera ekkert annað en að fæla fólk frá að sækja völlinn. Það er kannski það sem stefnt er að.
Bestu kveðjur.
P.S. Sendu mér slóðina á síðuna þína á tölvupósti. Ég held að ég sé búinn að tína henni.

Nafnlaus sagði...

Þessi Laugardalsvöllur er skelfileg hönnun frá upphafi til enda. Sérstaklega þar sem WorldClass er búið að hirða allmörg bílastæði og svo var Eve online viðburður í Laugardalshöll og því voru öll bílastæði þar upptekin ásamt stæðunum við gervigrasvöll Þróttar.

Því voru þessi 5000 þúsund sem mættu á bikarleikinn hálf bílastæðalaus og ekkert annað að gera en að stelast uppá gangstétt.

Ég sjáfur lagði hjá Skautahöllinni, þar voru ca. 100 laus stæði sem auðvelt hefði verið að nýta með smá leiðsögn. Stutt rölt á völlinn þaðan.

Miðasölukerfið og klósettaðtaða á vellinum er svo efni í pistil, hvernig gat þetta klúður farið svona langt framúr áætlunum???

Takk fyrir gott blogg, kv. Valur