Dundaði úti við í góða veðrinu í dag. Er að leggja síðustu hönd á pallinn sem ég fór langt með í haust er leið. Náði ekki að koncentrera mig til að byrja á því sem eftir er áður en ég fór vestur um haf í júní. Líklega sannast það enn og aftur að karlar geta bara hugsað um eitt í einu.
Fékk Marathon & Beyond í dag. Skemmtilegt tímarit með fróðlegum frásögnum og ýmsu öðru sem kemur í góðar þarfir. Í eftirlegasta maraþoninu segir bandarísk kona ,Olga Varlamova, frá sínu fyrsta WS sem var í fyrra. Hún er öflugur hlaupari og var meðal annars kölluð upp á pallinn á fundinum daginn fyrir hlaupið sem ein af þeim sem hafði unnið 100 mílna hlaup (í kvennaflokki). Hún lýsir hlaupinu á líflegan hátt. Gaman að lesa frásögnina því maður lifir margt upp aftur. Skemmtileg tilviljun að hún átti samleið nokkra leið með Moniku Sholtz eins og ég og hefur sömu sögu að segja af henni sem afskaplega jarðbundinni og ljúfri konu. Olga hvíldi alveg í þrjár vikur fyrir hlaupið eða í svipaðan tíma og ég gerði í vor. Hún ætlaði að fara undir 24 klst og var á góðri keyrslu framan af og allt leit vel út. Skyndilega fór þreytan að hellast yfir hana þegar um 40 mílur voru og þá áttaði hún sig á því að hún hafði gleymt á allri siglingunni að borða!!! Á Devils Thumb var hún langt niðri og tók tíma fyrir hana að ná sér á strik aftur. Eftir að hafa borðað og drukkið vel fóru kraftarnir að koma aftur og hún kláraði hlaupið í góðum gír á um 25.20. Hún gefur eftirfarandi ráð eftir reynslu sína:
1. Reyna eftir föngum að forðast meiðsli og draga frekar úr æfingum til að vera meiðslalaus.
2. Borða reglulega strax frá upphafi, jafnvel þótt mann langi ekki í mat.
3. Skipuleggja vandlega skipti á fötum og skóm. Gæta þess að hafa síðustu skóna 1/2 númeri stærri.
4. Láta ekki deigan síga, enda þótt einhverjir kaflar hlaupsins séu erfiðir bæði andlega og líkamlega. Berjast áfram til að klára.
5. Hlaupa sitt eigið hlaup og láta ekki aðra trufla sig og spana sig til að fara hraðar en efni standa til.
6. Reyna að æfa við áþekkar aðstæður og hlaupið er eftir því sem föng eru á.
7. Mikilvægast af öllu er að njóta hlaupsins og vera þakklátur fyrir að þú hafir getu til að takast á við náttúruna og klára hlaupið.
Víkingur sigraði Fjölni í Grafarvoginum í kvöld 1 - 2. Mikilvægur sigur og fyrsti útisigur Víkings á tímabilinu.
fimmtudagur, júlí 14, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli