Dundaði við eitt og annað í dag. Lítið gert af viti eins og gengur. Pulsuveisla og boltaleikur með barnadeild FrjálsíþróttadeildarÁrmanns uppi í Heiðmörk í kvöld. Krakkarnir og foreldrar þeirra skemmtu sér vel.
Það er ekki oft sem ég nenni að lesa það sem smápistlahöfundar blaðanna skrifa. Oftast er þetta innihaldslaust bull um hvað var í sjónvarpinu kvöldið áður. Merkilegt hvað fólk nennir að horfa á þetta þáttarusl sem sýnt er þar og kemur yfirleitt frá Bandaríkjunum. Sopranos er ánægjuleg undantekning þar á. Í dag rak ég hins vegar augun í pistil sem var ágætur. Pistlahöfundur (kona) hafði komið inn á útsölu í tuskubúð. Þar rak hún augun í nokkra karlmenn sem sátu örvinglaðir á bekk og þar af einn sofandi og vissu greinilega ekki hvað þeir áttu af sér að gera. Konurnar voru hins vegar á fullu við að snerta, skoða, máta og spökulera. Þegar þær voru búnar að ákveða hvað átti að kaupa þá var kallað á kallinn með svip sem sagði "Ég veit ekki hvað ég er að gera með þetta með mér?" og hann síðan látinn borga. Þessa lýsingu skildi ég mæta vel. Ég veit ekki hvað það er en það er fátt leiðinlegra í mínum huga en að fara í tuskubúð og bíða á meðan önnur hver flík í versluninni er snert og skoðuð. Af fenginni reynslu neyta ég yfirleitt að fara inn slíkar búðir nú orðið. Ég geri hvorki sjálfum mér eða öðrum að ganga í gegnum þau ósköp oftar en nauðsynlegt er. Mér finnst að í slíkum búðum ætti að vera bar þar sem karlarnir gætu fengið sér bjór á meðan konurnar þjóna lund sinni. Mér dytti til dæmis aldrei í hug að teyma einhvern inn í byssubúð þar sem ég myndi prufa og skoða aðra hverja byssu í búðinni og spá og spökulera eða í plötubúð þar sem ég myndi hlusta á hverja plötuna á færur annari áður en ég gæti ákveðið mig og láta einhvern bíða á meðan sem ég vissi að hefði engan áhuga á þessum varningi. Það eru takmörk fyrir öllu.
Ég tek undir þá umræðu sem hefur örlað á að undanförnu að það er skrítið hvað lítil umfjöllun hefur farið fram í fjölmiðlum um það þegar öll stjórn FL Group utan formanninn sagði af sér á dögunum. Í öllum venjulegum löndum væri þetta stórfrétt sem væri rannsökuð af fjölmiðlum í bak og fyrir. Maður skilur svo sem starfsfólkið á Baugstíðindum að það ruggar þessum bát ekki en hvar er nú óháða fagfólkið í ríkisútvarpinu sem gumaði svo mikið af eigin ágæti í vetur er leið. Það rígheldur allt kjafti og lætur eins og það hafi ekki heyrt af þessu. Það er ekki nóg að tala um eigið ágæti þegar það þykir eiga við, í fjölmiðlum verða verkin að taka. Það er kannski svo upptekið við að hripa niður vitleysuna eftir talskonu Feministafélagsins eða filma krakkakjána austur í Fljótsdal við að klippa niður auglýsingabæklinga að það hefur ekki tíma til annars. Spyr sá sem ekki veit.
miðvikudagur, júlí 13, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli