Ég sé að Bibba heldur sig við við pink hugmyndafræðina og er eitthvað rög við nafngiftir eins og fjallkonur eða járnkonur. Það er best að fara yfir afstöðu mína gagnvart pink þannig að það sé allt á hreinu því hér er um ákveðna hugmyndafræði að ræða en ekki eitthvað tilviljanakennt snakk.
Í upphafi vil ég taka fram að þá forakta ég allt pink nema Pink Panther og Pink Floyd. Ástæðan er þessi: Í mínum huga vill pink fólk ná árangri á öðrum forsendum en eigin ágæti. Pink fólk kennir öðrum um ef það nær ekki þeim árangri sem það vill ná en getur ekki. Pink fólk leggur ekki að sjálfum sér heldur jagast yfir að aðrir eigi að gera hlutina fyrir það. Pink er í mínum huga af sama meiði og rauði litur sósíalismans og kommúnismanns. Ég ætti að þekkja það eftir að hafa verið flokksbundinn í Alþýðubandalaginu og svo smá stund í VG í samtals um 25 ár. Það var mikil frelsun að komast út úr þeirri umræðu að ástæðunnar fyrir því að fólk hefði ekki náð því sem vænst var væri öðrum að kenna og aðrir ættu að bjarga málunum og fara að treysta fyrst og fremst á þann sem maður þekkir best, sjálfan sig.
Nú getur einhver slegið fram gömlu klisjunum eftir að hafa lesið þetta að hér sé nú ein helvítis karlremban á ferðinni. Það er rangt að mínu mati. Ef ég væri karlremba í þessu samhengi þá myndi ég hugsa (og kannski segja í þröngum kallahópi): "Hvað ætli þessar kellingar geti farið í fjallamaraþonið á Grænlandi? Þeim væri nær að tutla hrosshárið sitt hérna heima og fást við það sem þær ráða við og láta alvöru kalla um svona verkefni". Ekkert er fjarri mínum huga. Ég er nefnilega alveg viss um þið getið farið í þessa keppni og staðið ykkur með miklum sóma ef þið farið í undirbúninginn og keppnina með réttu hugarfari. Undirbúningurinn og keppnin er örugglega bæði hell and high water en hvað með það. Annað hvort langar mann til að takast á við svona verkefni og leggur alla sína orku og metnað í það eða sleppir því bara. Ekkert pink kjaftæði.
Svo ég vitni aðeins í mína reynslu þá var ástæða þess að ég fór að halda þessa bloggsíðu í vetur meðal annars sú að þá brenndi ég allar brýr að baki mér í undirbúningnum. Eftir það var bara ein leið fær; beint áfram. Vitaskuld hefði ég getað lent í bílslysi eða veikst illa sem hefði sett allt úr skorðum en slíkt getur alltaf gerst. Á hinn bóginn gat ég ekki leyft mér neina sjálfsvorkun eða undanlátsemi frá settum markmiðum með hlauparasamfélagið á glugganum hjá mér. Þegar ákveðin markmið voru sett var það sama hvort mann langaði að fara út að fara að hlaupa eða ekki, maður gerði það óháð veðri (nema einu sinni) og óháð klukkunni. Ef dagurinn eða kvöldið var upptekið þá var þó nóttin eftir. Það versta sem maður hefði getað gert sjálfum sér og jafnvel öðrum ef maður hefði klikkað var ef maður hafði ekki gert það sem hægt var vegna aumingjaskapar. Auðvitað var hægt að segja, hitinn er alltof mikill, fjöllin eru of stórkostleg, maður er of gamall, maður er of lélegur. Hinsvegar er að mínu mati pink að hugsa svona.
Mér finnst fínt hjá ykkur að fara að spjalla um að taka þátt í Grænlandskeppninni. Orð eru til allra hluta fyrst. Síðan fer gruggið að setjast og glitta fer í alvöruna. Er hugmyndin kannski ekki svo galin? Er kannski rétt að slá til? Ef þið sleppið öllu pink kjaftæði og segið "Come hell and high water", hér eru Mountain ladies from Iceland (eða eitthvað annað álíka gott nafn) og við ætlum að taka þátt í keppninni eftir tvö ár frá og með deginum í dag, þá er ég viss um að með markvissum undirbúningi, andlegum, tæknilegum og líkamlegum, þá munuð þið standa ykkur með miklum sóma. Það getur vel verið að þið mynduð detta út, slíkt getur komið fyrir en ef þið væruð sannfærðar um að þið hefðuð gert ykkar besta, bæði í undirbúningum og í keppninni sjálfri, þá kæmust þið að því að allt erfiðið væri hverrar sekúndu virði. Um það get ég vitnað.
Hlaup eru ekki pink. Hlaup eru egó. Hægt er að mynda öfluga sveit fjögurra egóista en ég held að það sé líka hámarksfjöldi.
Lifi Pink Floyd.
laugardagur, júlí 23, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli