Nú fer ég að fara út að skokka. Er smá aumur í sumum tánum eftir laugardaginn en það er ekki til að minnast á. Kem að því síðar. Fólk hefur spurt mig að því hvort til séu lengri hlaup en 100 mílur. Það finnst vera mikið að hlaupa í heilan sólarhring. Jú þau eru svo sannarlega til lengri. Maður er bara eins og nýfætt barn miðað við það sem margt fólk er að gera.
Ég var að lesa í Marathon & Beyond um bandaríska konu, Pam Reed að nafni. Hún hefur hlaupið yfir 100 ultramaraþon á 13 árum, um 120 maraþon á sama tíma og mörg þeirra tvisvar sama daginn. Hún hefur hlaupið 139 mílur (km x 1,6) á 24 klst og 210 mílur á 48 klst. Í blaðinu er frásögn af því þegar hún nú í mars tók það í sig að hlaupa 300 mílur. Hún byrjaði seint á föstudegi og á mánudegi, eftir u.þ.b. 80 klst hafði hún lokið 301 mílu (km x 1,6) án þess að stoppa utan að borða og fara á klósettið. Hún hljóp 12 hringi (slaufur) sem voru hver 25 mílur að lengd. Læknisrannsókn sýndi að allt líkamlegt ástand var normal. Ein smá blaðra var á hægra fæti.
Af öðrum ofurmennum. Hálfum mánuði eftir WS tóku Scott Jurek, Monica Sholtz og einhverjir fleiri, sem hlupu WS um daginn, þátt í Badwater sem er eitt hræðilegasta ultrahlaup sem til er. Ég hitti t.d. einn Texasbúa í morgunmatnum fyrir hlaupið sem ætlaði að fara í Badwater en ég man bara ekki hvað hann heitir svo ég get ekki gáð hvernig honum gekk. Scott Jurek gerði hvorki meir eða minna en að setja brautarmet í Badwater en hann lauk hlaupinu á 24 og hálfum tíma. Metið þar áður var rúmlega 25 klst. Þetta á náttúrulega ekki að vera hægt hálfum mánuði eftir WS. Monica kláraði á 37 klst og var önnur konan en í fyrra varð hún í 3ja sæti af öllum á rúmum 27 klst. Þeir sem voru síðastir voru um 57 klst á leiðinni.
Talandi um aumar tær þá er á vef Badwater birtar myndir af tám Ferg Hawke sem var í öðru sæti á 26 og hálfum tíma. Manni verður hreinlega illt í maganum að horfa á þær. Hvað er maður að væla yfir smá roða á litlu tánni eftir að hafa séð þetta? Ég get ekki séð að það hangi ein einasta nögl eftir á löppunum á honum eftir hlaupið. Það eru svona menn sem ná árangri.
Ég hef stundum verið að tuða yfir öfgunum í feminstafélaginu og ekki að ósekju að því mér og mörgum fleiri finnst. Talskona þeirra vill til dæmis ekki kalla kvenmenn ráðherra, hún vill ekki nota orðin drengskaparheiti og mannorð af því þau eru svo karllæg. Ég horfði í kvöld á leik HK/Víkings og Þróttar í 1. deild kvenna í knattspyrnu. Það hefði örugglega liðið yfir talskonuna ef hún hefði horft á leikinn því alltaf þegar ein leik"kona" nálgaðist aðra leik"konu" þá æptu allar "Maður!!".
Ég bíð eftir að sjá fréttir af Laugavegshlaupinu í fjölmiðlum landsins. Þegar Runners World er á staðnum þá finnst manni að þessir innlendu fjölmiðlar séu ekki of góðir að kíkja á hlaup.is og birta niðurstöður hlaupsins (alla vega 10 fyrstu). Nema þeir séu svo uppteknir við að dekka næstu umferð í strandblakinu!!
þriðjudagur, júlí 19, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli