Hroðalegir atburðir gerðust í Lundúnum í dag. Það var svo sem viðbúið eftir árásina á Twin Towers og Madrid að eitthvað svona gæti komið fyrir. Maður hefur einnig verið að fylgjast með fréttum af óeirðum í Edinborg þar sem skríllinn hefur farið um göturnar, brotið og eyðilagt. Ég sá í blöðunum fyrir nokkrum dögum viðtal við einhverja konu sem var vararæðismaður í Edinborg það mig minnir sem hafði tekið þátt í kröfugöngu. Hún kvaðst í viðtalinu vera alveg hissa á öllum þeim fjölda lögreglumanna sem voru að fylgjast með göngunni. Maður veltir fyrir sér hvort hún sé ennþá hissa eða hvort henni hafi verið stungið í jarðsamband þegar óeirðirnar byrjuðu.
Oft er maður svolítið hissa á blaðrinu í morgunsjónvarpi Stöðvar 2. Maður lætur þetta stundum rúlla á morgnana til að ná fréttunum. Í gær var viðtal við einhverja sólgleraugnakonu. Þetta var nú með því verra sem ég hef séð. Hún talaði eins og það væri nýtt í íslandssögunni að það væru til fleiri en ein tegund af sólgleraugum. Síðan talaði hún í annarri hverri setningu með hroka um "bensínstöðvargleraugu". Ég á eftir að sjá það að það séu eitthvað verri gleraugu sem maður kaupir á bensínstöðvum fyrir lítinn pening en þau sem keypt eru í einhverjum búðum fyrir morð fjár. Hún sagði að þessi verðmunur væri eðlilegur því að kaupa sér svona gleraugu væri eins og að kaupa sér góðar gallabuxur. Ég keypti mér Lewis gallabuxur í San Francisko. Þær kostuðu 35 dollara í góðri búð (ca 2000 krónur). Hérna kosta þær eitthvað á bilinu 10 - 15 þúsund krónur. Ég veit það ekki alveg nákvæmlega því ég hef aldrei keypt mér Lewis gallabuxur hérlendis. Í San Francisko gat maður einnig keypt sér þrenn sólgleraugu fyrir 10 dollara. Ætli þessi rándýru búðargleraugu sem var gumað svo mikið af þarna í morgunsjónvarpinu séu ekki keypt í kippum á þessu verði og síðan lagt a.m.k. 1000% ofan á verðið þegar heim er komið og gripirnir kynntir sem sérstök gæðavara. Kæmi mér ekki á óvart.
Eftir að hafa lesið blöðin þegar heim var komið er það eitt sem stendur upp úr að mínu mati. Það er ákæran á hendur Baugsmönnum. Ég ætla ekki að gerast dómari í því máli, til þess eru ráðnir sérstakir menn en það er ljóst að ef þessar ásakanir eiga við rök að styðjast þá mun eitt og annað breytast. Sérkennilegust af öllu finnst mér þó greinargerð Jónatans Þórmundssonar. Hvað kemur prófessor við Háskólann sem gefur sig út fyrir að vera mikinn sérfræðing að láta frá sér fara svona varnarræðu fyrir sakborning í dómsmáli. Er ekki verjandi í málinu? Er ekki þörf á að dómtaka málið fyrst herra Jónatan hefur talað? Manni er spurn. Hvað gerist svo ef þeir ákærðu verða sakfelldir? Ætlar prófessorinn að segja starfi sínu lausu? Þarna er einungis verið að þyrla upp ryki til að villa mönnum sýn og gera tilraun til að drepa málinu á dreif. Voru þeir ekki félagar í Möðruvallarhreyfingunni í gamla daga, herra forsetinn og Jónatan? Það er eins og mig minni það. Menn skyldu minnast framgöngu Jónatans í Hafskipsmálinu. Hún sýnir að hann er ekki óskeikull frekar en aðrir menn.
Spjallaði við Hjördísi hjá RM í dag og sagði henni frá ýmsu sem vakti athygli mína þarna úti og við getum lært af. Hún sagði að í ár væri hámarksþátttaka útlendinga. Það er fínt. Hlauparar spurðu mig nokkuð um Laugaveginn vestra. Þeir sem búa í New York sögðu að það væri t.d. styttra fyrir þá að fljúga til Íslands til að hlaupa heldur en til Kaliforníu. Þetta eigum við að nota okkur.
Skaginn vann KR í kvöld. Það var fínt og sérstaklega var ánægjulegt að sjá hvernig mörkin voru til komin. Það var tími til kominn að KR lyti í gras í Frostaskjólinu fyrir ÍA.
fimmtudagur, júlí 07, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli