Klukkan er að verða 5.00 laugardagsmorguninn 25. júní. Það eru nokkrar mínútur þar til hlaupið er ræst. Keppendur safnast saman, spennan vex, menn kasta kveðju hver á annan og óska góðs gengis í hlaupinu. Ekki mun af veita. Ég er rólegur og tiltölulega afslappaður. Ég veit að ég er nokkuð sterkur eftir æfingar vetrarins. Hvort það kemur til með að nægja verður bara að koma í ljós en ég sé ekkert sem á að koma í veg fyrir að ég klári hlaupið ef ekkert óvænt kemur upp á. Það getur hins vegar alltaf gerst eins og dæmin sanna. Ég kveð Ágúst og Kristinn og þeir óska mér góðs gengis. Þeir komu uppeftir fyrr um nóttina með dót um nóttina sem mig vantaði. Við ætlum síðan að hittast á Robinson Flat eftir um það bil 6 klst og 23 mílur.
Skotið ríður af úr stórri haglabyssu. Hlaupið er hafið. Fylkingin mjakast af stað með hrópum og köllum eins og Bandaríkjamanna er siður. Þeir hörðustu taka á rás upp brekkuna en aðrir láta sér nægja að ganga, enda fyrir hendi um átta hundruð metra hækkun beint upp úr rásmarkinu.
Ég hafði komið til Squaw Valley tveim dögum áður. Ágúst keyrði mig uppeftir á fimmtudaginn ásamt tveimur sonum sínum en hann og Kristinn, annar íslendingur sem býr í San Francisko, höfðu boðist til að vera mér til halds og trausts í hlaupinu. Það var afar mikilvægt og hjálpaði mér mikið á marga vegu. Á fimmtudaginn og föstudaginn voru fundir um framkvæmd hlaupsins þar sem farið var yfir ýmislegt sem varðaði skipulagningu þess, hlutverk aðstoðarmanna og hvað hlaupararnir þyrftu að varast og gæta að í hlaupinu sjálfu. Það var mjög vel staðið að þessu hjá skipuleggjendum hlaupsins enda ekki í fyrsta sinn sem þeir stóðu fyrir þessu hlaupi. Það var hið 32 í röðinni en hið fyrsta var haldið árið 1977. WS 100 er elsta og erfiðasta 100 mílna fjallahlaup í Bandaríkjunum og nýtur mestrar aðsóknar og virðingar af öllum 100 mílna hlaupum sem haldin eru þar, en alls eru haldin um tuttugu 100 mílna hlaup í Bandaríkjunum á ári hverju.
Sierra Nevada fjöllin eru svæðið þar sem gullæðið geysaði sem ákafast í Bandaríkjunum fyrir 150 eða 200 árum. Ég er ekki með tímasetninguna á hreinu. Í tengslum við það fór San Francisko að byggjast upp. Þá var verðlagið með slíkum ósköpum í San Francisko að það borgaði sig að senda fötin til austurstrandarinnar í þvott og fá þau til baka eftir sex mánuði heldur en að láta þvo þau í þvottahúsum San Francisko. Leiðin sem hlaupin er birgðaflutningaleið inn í óbyggðirnar sem myndaðist í tengslum við gullæðið. Um 400 þátttakendur hafa lagt af stað undanfarin ár en afföll hafa verið um 30 - 35% þannig að það er ekki öruggt að komast alla leið enda þótt keppendur hafi talið sig það vel undirbúna að þeir treysti sér til að takast á við Sierra Nevada fjöllin og þann mikla hita sem getur verið á leiðinni.
Með því að dveljast í San Francisko og Squaw Valley í nokkra daga hafði maður möguleika á að aðlagast hitanum og íðar hæðinni nokkuð, en Squaw Valley liggur í um 1900 metra hæð yfir sjávarmáli. Maður er því kominn í um 2700 - 2800 metra hæð þar sem hæst er farið í hlaupinu. Ólympíuleikarnir 1960 voru haldnir í Squaw Valley og eru þarna gríðarleg lyftumannvirki. Þeir sem til þekkja segja að þarna sé afar gott skíðasvæði, enda eru brekkurnar nógu langar.
Þeir félagar Ágúst og Kristinn voru með ýmislegt dót sem ég þurfti á að halda, s.s. sokka, boli, skó, batterí og ljós fyrir nóttina fyrir utan mat og drykk. Ég hafði sent út smá poka á þrjá staði, fyrst og fremst sokka, því það er nauðsynlegt að skipta oft um sokka ef maður blotnar í fæturna. Einnig lét ég bíða eftir mér bol með íslenska fánanum á næst síðustu drykkjarstöðinni til að geta lokið hlaupinu undir fullum seglum þegar og ef sú stund rynni upp. Það sem olli mér helst áhyggjum var svefnleysi. Blaðamaður að heiman hafði vakið mig upp úr klukkan eitt á aðfaranótt föstudags. Hann hafði síðan hringt aftur þegar ég var að sofna og það gerði það að verkum að ég sofnaði ekki meir þá nótt. Síðan náði ég ekkert að sofna nóttina fyrir hlaupið en farið var á fætur kl. 3. 00 um nóttina. Ég sá því fram á að hafa sofið mjög lítið í um þrjá sólarhringa þegar ég kæmi í mark. Þetta gat farið allavega því ég hafði lesið um það að hlauparar höfðu hreinlega orðið að sofna á götunni því þeir hefðu ekki komist lengra fyrir þreytu og svefnleysi. Við slíkar aðstæður gat orðið erfitt að hafa sig á stað aftur, en úr því sem komið var, var ekkert hægt að gera við þessu.
Ég gekk upp fyrstu brekkuna ásamt mörgum fleirum. Ég hafði einsett mér að ganga upp allar brekkur því það er grundvallaratriði í svona löngu hlaupi að keyra sig ekki út í upphafi því þá er voðinn vís. Lítil drykkjarstöð var ofarlega í fjallinu og tók ég þegar til við að borða orkubita og banana og bætti einnig á drykkjarpokann. Leiðin upp brekkuna var að mestu leyti gengin í myrkri en brátt fór sólin að koma á fjallatoppana. Það kólnaði eftir því sem ofar dró og var ekki nema um 5 C þegar komið var efst upp. Þar var einnig nokkur strekkingur. Þegar ofar dró var farið að ganga í snjó af og til og sögðu kunnugir að snjórinn væri með mesta móti. Þeir sem komu frá hinum heitari svæðum höfðu sagt mér að þeir væru mest ragir við að ganga í snjónum því margir höfðu aldrei stigið í snjó, á meðan ég óttaðist hitann fyrst og fremst. Svona er viðhorfið misjafnt.
Snjórinn fór vaxandi og næstu 5 - 10 kílómetrarnir voru leiðinlegir yfirferðar. Snjóskaflar, drulla í slóðanum og vatnselgur í skóglendi gerði leiðina seinfarna. Ég var aftarlega í hópnum og vissi vel af því. Það var eins og ég hafði ætlað mér. Ég ætlaði mér að fara hægt yfir en hversu hægt átti ég að fara. Hvað var hægt og hvað var hratt? Ég reyni oft að finna einhvern sem heldur álíka hraða og ég ræð við til að hafa gott viðmið. Mér leist hins vegar ekkert á þá sem voru í kringum mig. Ég kraftgekk upp allar brekkur eins og áður sagði en ég sá menn í kringum mig vera að burðast við að hlaupa nokkur skref upp brekkurnar og detta svo niður og voru þegar upp var staðið ekkert fljótari upp brekkurnar en ég var á mínum jafna gangi. Fljótlega kom næsta drykkjarstöð og þar var fyllt á pokann og borðað. Einnig setti ég kökur, kex, orkubita, sælgæti og gel í vasana til að maula á milli stöðvanna. Það var lykilatriði í mínum huga að halda vatns- og orkubúskapnum alltaf í góðu jafnvægi og til að svo mætti vera þá þurfti maður alltaf að vera að.
Snjóbarningurinn hélt áfram og ég var enn að átta mig á þeim hraða sem rétt væri að stilla sig inn á. Þá vildi það til að ég skokkaði fram á konu sem fór heldur hægar en ég. Hún spurði hvort ég vildi fara fram úr. Ég sagði að mér lægi ekkert á því langt væri eftir. Við fórum síðan að spjalla saman og hún sagðist meðal annars að þetta væri sjötta WS hlaupið sitt. Hún var frá Kanada og þá rámaði mig í að á DVD disknum, A Race For The Soul, sem ég keypti um hlaupið var mynd af kanadískri konu sem hafði hlaupið sex 100 mílna hlaup á árinu 2001 og átti ein níu eftir. Ég spurði hvort hún væri þarna komin og það reyndist rétt. Reyndar urðu 100 mílna hlaupin á árinu 2001 ekki fimmtán hjá henni heldur tuttugu og þrjú!! Þarna var sem sagt komin drottning 100 mílna hlaupanna í heiminum, Monica Sholtz frá Kanada sem allir 100 mílna hlauparar með einhverja reynslu þekkja til. Hún sagðist stefna á að fara undir 24 klst en fór þarna samt sem áður heldur hægar en ég hafði farið. Ég sá að þarna var eitthvað sem passaði mér vel og spurði hvort henni væri á móti skapi að ég væri fyrir aftan hana um stund og það var vitaskuld í góðu lagi. Við héldum síðan sjó næstu 75 kílómetrana eða allt til Michican Bluff, annað hvort ein eða með öðrum eins og gengur. Hún var hinn ágætasti félagsskapur, ljúf og skemmtileg kona, sem miðlaði mér og öðrum af hinni miklu reynslu sinni. Hún hefur meðal annars hlaupið Badwater, sem er eitt hræðilegasta ultrahlaup í heiminum. Það er 135 mílna langt og er hlaupið í Dead Walley í 40 til 50 C hita. Þar hefur margur kappinn liðið út af. Þar verða menn að hlaupa á hvítu línunni á veginum því annars bráðna skórnir á asfaltinu. Einnig hefur hún hlaupið 100 mílna hlaup á Hawaii fimm sinnum sem hún sagði að væri erfiðara en WS 100, bæði vegna landslagsins og einnig vegna þess hve rakinn er mikill. Hún sagðist allaf fara hægt af stað því hún hefði séð svo mörg sorgleg dæmi þess að hlauparar sem væru allt að tveimur klst á undan henni til Forrest Hill næðu ekki að klára vegna rangrar skipulagningar á hlaupinu.
Á Robinson Flat hitti ég þá félaga mína og einnig Rollin Stanton, bandaríkjamanninn sem ætlaði að hlaupa með mér frá Forrest Hill. Það urðu fagnaðarfundir milli okkar en ég hitti hann á Borgundarhólmi í fyrra og þar sagði hann mér af hlaupinu. Við höfðum síðan verið í tölvupóstsambandi í vetur. Eftir Little Bald Mountain fóru gljúfrin að birtast. Eftir þessa drykkjarstöð var snjórinn sömuleiðis búinn. Fyrst var hlaupið langtímum saman eftir fyrsta gljúfrinu á láréttum stíg en síðan fóru niðurhlaupin af byrja. Þau voru löng, mjög löng. Það var hlaupið niður og niður eins og þetta ætlaði aldrei að taka enda. Í fyrsta gljúfrinu var komið að drykkjarstöðvunum Deep Canyon og Dusty Corner en milli þeirra var tiltölulega flatt. Eftir Dusty Corner var hlaupið niður í þröngum krákustígum niður að Last Change. Gljúfrin eru eins og V í laginu, það er hlaupið niður og niður, síðan er á í botninum og brú yfir hana og þá byrjar uppgangan upp álíka hæð og hlaupið var niður rétt áður. HItinn var mikill í gljúfrunum en ekki yfirþyrmandi, enda var hitinn ekki eins hár og oft áður. Uppgangan gekk hægt en örugglega. Monica stjórnaði ferðinni af öryggi og við fetuðum nokkrir í fótspor hennar. Einu sinni vorum við þrír á eftir henni, einn Bandaríkjamaður, einn frá Suður Afríku og síðan ég. Þetta fannst þeim skemmtileg samsuða. Á leiðinni upp á Devils Thumb gengum við fram á fólk sem sat fyrir utan slóðann og var að reyna að ná maganum í lag. Þetta virðist alltaf gerast þrátt fyrir góðan undirbúning og aðgengi að mikilli þekkingu. Upp komumst við á Devils Thumb um síðir og þóttumst góð. Þar var haugað ís í húfuna eins og í hana komst til að kæla sig og lagt í næsta gljúfur. Það var miklu lengra en hið síðasta því þar var hlaupið miklu láréttar niður og sniðin lengri. Ég hugsa að við höfum hlaupið um klukkutíma stanslaust niður, niður og endalaust niður. Loks komumst við á botninn og þar var eins og áður, drykkjarstöð á botninum og síðan hófst klifrið. Það var ekki styttra en upp á Devils Thumb og tók það um klukkutíma að pjakka þarna upp. Það var miklu lokið þegar upp í Michican Bluff var komið. Þarna hitti ég félaga mína sem voru orðnir nokkuð áhyggjufullir þegar tekið var tillit til ástands margra þeirra hlaupara sem voru komnir inn á undan okkur. Mér leið hins vegar ljómandi vel og var alsæll. Ég skipti um sokka á þessari stöð því maður var orðinn blautur í fæturna sökum svita og einnig þess hve maður jós yfir sig vatni. Ef maður hleypur lengi í blautum sokkum með fæturna hálfsoðna vegna hita þá eru blöðrurnar fljótar að myndast. Á leiðinni út úr bænum komu einu mistökin fyrir. Ég missti af leiðinni út úr bænum vegna þess hve hún var laklega merkt og ég held að það hafi staðið bíll fyrir framan skiltið EXIT þegar ég fór hjá. Ég hélt því í vitlausa leið um nokkurra mínútna leið og það villti einnig fyrir mér að það var maður með lítinn bakpoka á bakinu á undan mér. Hann reyndist síðan bara vera eitthvað annað en hlaupari. Síðan kom bíll á eftir mér sem leiðrétti mig og þá sagði ég ljóta orðið eins og strákarnir sögðu. Þetta tafði mig um einar átta til tíu mínútur en við því var ekkert að segja úr þessu. Leiðin til Forrest Hill lá niður og niður og upp og upp og tók hún um einn og hálfan tíma. Í Bath Road áttu sér stað önnur mistök því stúlkan sem fyllti á pokann minn lét allt of lítinn drykk á hann. Mér til skelfingar var pokinn orðinn þurr nokkuð löngu áður en komið var í næsta áfangastað. Ég dró sem betur fer upp konu sem hafði nóg að drekka og hún gaf mér sopa af rausnarskap sem dugði á leiðarenda.
Í Forrest Hill hitti ég félaga mína og einnig félaga Rollin Stanton sem nú var ferðbúinn undir nóttina. Forrest Hill er stærsta drykkjarstöðin á leiðinni og þar ríkir mikill glaumur og gleði allan daginn. Á þessari stöð eru um 100 km búnir en um 60 km eftir. Það virðist vera afar langt eftir að hafa lagt 15 klst að baki. Þar hitta hlaupararnir aðstoðarfólk sitt og fjölskyldur og þar koma meðhlaupararnir inn. Ég skipti um sokka, skó og bol þarna, endurnýjaði second skin plástrana undir fótunum, tók nauðsynlegar birgðir í pokann og síðan héldum við í hann. Allt var í himnalagi með fætur og skrokk og ákváðum við að héðan af væri þetta einungis spurning um tíma en ekki hvort maður myndi komast alla leið.
Við rúlluðum af stað vel yfir kl. átta og brátt fór að skyggja. Um kl. 21.00 var orðið aldimmt. Maður sá þá bara ljósið fyrir framan sig og síðan glampa frá öðrum hlaupurum sem voru í slóðinni á undan okkur. Það kom brátt í ljós að þrátt fyrir að við héldum okkar jafna hraða og gengum upp allar brekkur þá fórum við fram úr hverjum hlauparanum á fætur öðrum en það voru afar fáir sem fóru fram úr okkur á þessum legg leiðarinnar. Líklega höfum við farið fram úr um 50 manns á þessum hluta leiðarinnar þegar allt er talið. Rollin þekkti leiðina nokkuð vel og gat lýst henni gróflega þannig að maður vissi nokkuð hvenær væri von á næst drykkjarstöð. Það virtist oft nokkuð langt á milli þeirra fannst manni þegar við vorum búnir að hlaupa í 8 - 9 km. Á þessum hluta leiðarinnar var farið að bjóða upp á heita súpu og brauð og var það kærkomið.
Rucky Chucky áin var á 78. mílu. Venjulega er vaðið yfir ána en nú var það mikið í henni að hlauparar voru ferjaðir yfir hana. Það var ágætt. Við vorum hjá ánni um miðnættið. Þar biðu þeir Ágúst og Kristinn eftir okkur en næst myndum við hitta þá í markinu. Á þessum tíma var ég farinn að finna nokkuð fyrir strengjum í framanverðum lærvöðvunum en ekki til neinna vandræða. Maður vissi það fyrirfram að hlaupi sem þessu fylgir sársauki, annað væri óeðlilegt. Á hinn bóginn sáum við glöggt að margir voru illa á sig komnir því nú sátu hlauparar á öllum drykkjarstöðvum, vafðir inn í teppi og ekki líklegir til að halda strax af stað. Maður fann það glöggt hve fæturnir stirðnuðu fljótt bara á þessari örstuttu stund sem maður stoppaði á drykkjarstöðvunum þannig að maður reyndi að gera hvern stans eins stuttan og mögulegt var. Við nudduðum áfram á okkar jafna hraða og drógum öðru hverju upp hlaupara sem við fórum fram úr. Maður sá ekkert í kringum sig nema að stjörnurnar gáfu til kynna að gljúfrin sem við hlupum eftir væru afar há. Stígurinn lá í sífellu upp og niður, upp og niður þannig að hlaup á jafnsléttu var frekar sjaldgæft.
Um kl. 4.30 fór að birta og orðið albjart um kl. 5.00. Þá vorum við nálægt Highway 49. Þá var farið að styttast á leiðarenda og létti það sporið ef hægt er að orða það svo. Eftir að við fórum yfir No Hands Bridge gengum við þá fimm kílómetra sem eftir var. Okkur lá ekkert á, við vissum að tíminn yrði rúmlega 26 klst sem ég var alsæll með. Við vorum ekki í kappi við neina sérstaka, það var orðið það langt á milli manna að um slíkt var ekki að ræða. Við sáum þó hlaupara á nokkuð undan okkur sem komu skömmu í mark skömmu á undan okkur. Við fórum aftur á móti fram úr þeim síðasta í hliðinu þegar hlaupið er inn á völlinn. Síðasta mílan er erfið. Þá er pjakkað upp á brattan gljúfurbarm, en bærinn Auburn stendur á barmi gljúfursins sem við höfðum hlaupið eftir síðustu klukkutímana. Þegar komið er upp á gljúfurbarminn og á malbik er ekki allt búið því eftir eru einar sex brekkur áður en hæsta punkti er náð og það fer að halla undan fæti inn á leikvanginn. Þetta tekur á fyrir þá sem eru að hlaupa í kapp við tímann. Rollin þekkti þetta allt saman og var búinn að undirbúa mig undir að það væri ekki sopið kálið þótt á malbikið væri komið.
Það var stór stund að skokka inn á brautina og hlaupa síðustu 300 metrana í mark. Töluverður fjöldi fólks var á vellinum og fagnaði hverjum hlaupara eins og um sigurvegara væri að ræða, enda er hver og einn sigurvegari sem nær að ljúka þessu hlaupi. Strákarnir réttu mér íslenska fánann til að hlaupa með síðasta spottann en það vakti töluverða athygli að íslendingur skyldi láta sjá sig í þessu samhengi. Það var ekki alveg það sem menn voru að búast við. Það var eðlilega afar góð tilfinning að renna yfir marklínuna og skynja það að nú væri þetta búið og allt hefði gengið upp sem best var á kosið. Uppskera margra mánaða erfiðis væri í höfn og árangurinn með ágætum. Ég vissi að rúmlega 26 klukkustunda tími væri ágætur tími miðað við fyrri ár, enda þótt ekki næðist að ná í silfursylgjuna. Það hefði að mínu mati verið hreint sjálfsmorð í brautinni að fara að pressa sig í kapp við einhvern fyrirfram ákveðinn tíma án þess að hafa hugmynd um hvernig leiðin væri eða hvernig maður væri í stakk búinn til að takast á við hana.
Strax að hlaupi loknu var maður vigtaður í síðasta sinn, en ég var heldur þyngri en þegar ég lagði af stað. Síðan var blóðþrýstingur mældur og að lokum var tekin blóðprufa en ég tók þátt í tilraun um áhrif hlaupsins og notkun ibuprofen á hlaupara. Ég fékk 6 töflur sem þurfti að borða með vissu millibili á meðan á hlaupinu stóð. Blóðprufa var tekin fyrir og eftir hlaupið. Síðan þurfti að svara nokkrum spurningum um ástandið í hlaupinu. Síðan fékk maður nudd sem linaði aðeins strengina í kálfunum framanverðum. Að því loknu gat maður farið að hugsa um að fara í sturtu og strákarnir sóttu fötin og höfðu allt til reiðu. Það var engin hraðferð yfir í sturtuna því nú var stirðleikinn farinn að segja til sín. Það tókst þó að klæða sig úr og í og síðan var gengið afar hægum en öruggum skrefum yfir að svæðinu þar sem hægt var að fá mat. Lystin var eins og best var á kosið og síðan var bara að finna skugga og fá sér smá blund. Ég vaknaði í tæka tíð til að fylgjast með Helgu Backhaus koma inn á leikvanginn þremur mínútum fyrir kl. 11.00. Hún var að hlaupa sitt tíunda hlaup og fengi þar með afhentan 1000 mílna bikarinn. Hún hafði verið mikill hlaupari en hafði meiðst eða slasast og var ekki söm eftir. Því þótti öllum sem til þekktu mikið afrek hjá henni að klára hlaupið undir tilsettum tíma og ná þannig settu marki.
Um tveimur og hálfum tíma eftir að síðasti maður kom í mark var lokaserimonían og verðlaunaafhending fór fram. Scott Jurek vann sinn sjöunda sigur í röð sem er einstakt afrek, því þeir sem kom á eftir honum voru engir smá karlar. Annette Bednosky vann kvennaflokkinn en Ann Trason hefur einokað hann þau ár sem hún hefur keppt í hlaupinu. Ég held að það hafi einungis fallið tvö ár úr hjá henni frá árinu 1989 þegar hún keppti fyrst í WS 100. Scott lýsti því síðan yfir að hann myndi ekki vera með næsta ár.
Við Kristinn lögðum af stað til San Francisko skömmu eftir að okkar þætti var lokið í verðlaunaserimoníunni. Ógleymanleg upplifun var á enda runnin. Enda þótt ég hafði búist við að hlaupið og leiðin væri mikilfengleg þá reyndist þetta allt vera miklu stórkostlegra en maður hafði búist við. Það má segja að þarna hafi langsóttur og fjarlægur draumur ræst að fullu. Eitthvað sem manni gat ekki órað fyrir að ætti eftir að gerast hafði gerst og gengið upp. Fyrir utan að klára hlaupið var ég mest ánægður yfir hvað mér leið vel allan tímann og naut hlaupsins fram í fingurgóma frá upphafi til enda. Þeir Kristinn, Ágúst og Rollin veittu mér ómetanlega aðstoð bæði fyrir hlaupið og síðan meðan á því stóð. Margt hefði verið erfiðara og flóknara ef þeirra hefði ekki notið við. Að hið stutta spjall okkar Rollins í biðsalnum í R¢nne á Borgundarhólmi í fyrra skyldi leiða til þess að ég stæði nú í Auburn í Kaliforníu að afloknu WS 100 með sylgju hlaupsins í hendi var eiginlegra ótrúlegra en hægt var að ímynda sér. En svona gerast ævintýrin.
miðvikudagur, júlí 06, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli