Góð helgi að lokum komin. Hitti marga góða félaga við skráninguna fyrir laugaveginn á á föstudaginn. Það lá við að maður yrði feiminn við alla kossadrífuna sem rigndi á mann. Kvöldið fór í að taka á móti góðum gestum og síðan var farið að taka til dótið fyrir Laugaveginn upp úr miðnætti. Fór að sofa um 1.30 og vaknaði einum og hálfum tíma síðar. Ég hef nokkurs skonar innbyggða vekjaraklukku því yfirleitt er ég vaknaður og næ að loka fyrir hringinguna áður en klukkan hringir. Svo var einnig í fyrrinótt. Ég labbaði niður í ÍSÍ hús og tók rútuna uppeftir. Það er alltaf gaman að taka þátt í Laugaveginum, góð stemming og spenna í loftinu. Margir eru að fara í fyrsta sinn og eru í nokkursskonar landkönnun, aðrir eru að stefna að góðum sætuð (eða sigri) eða að bæta sína fyrri tíma en einnig eru margir sem ætla að fara leiðina í afslöppuðum góðum gír og svo var um mig í þetta sinn. Ég hef ekki hlaupið mikið í um einn og hálfan mánuð og vissi því sem var að ég væri frekar þungur Ég fann það fljótt á leiðinni upp í Hrafntinnusker að þetta yrði ekki nein hraðferð. Eftir að hafa komist klakklaust yfir glæruna sem var rétt fyrir neðan kjölinn við Hrafntinnuskersskálann þá hélt ég sjó með Evu, Þórólfi manninum hennar, Guðbjörgu Margréti og Þóreyju Gylfa. Við héldum hópinn þar til komið var ofan í Fauskatorfurnar og um klukkutími er eftir í mark þá tóku þau Eva, Þórólfur og Guðbjörg strikið á undan og náðu að fara undir 7 tímum á meðan við Þórey vorun rétt yfir öfugu megin við strikið. Þetta var fínn dagur, veðrið í lagi, létt rigning öðru hverju og hlýtt. Golan var oft í bakið og aldrei til vandræða. Sandarnir voru þéttir og ekki eins lausir og þegar þurrt er í veðri. Ég átti í erfiðleikum með sinadrátt þegar leið að lokum hlaupsins en fyrir honum hef ég aldrei fundið fyrir áður. Þegar ég tók fyrsta skrefið upp í Kápuna þá læstist vinstri fóturinn alveg frá ökla upp í læri. Ég sat þarna alveg fastur þar til mér datt í hug að ganga afturá bak frekar en að gera ekkert. Þá slaknaði fljótlega á öllu og ég gat farið að ganga rétt upp stíginn. Ég hafði drukkið vel, sett steinefni og salt út í drykkinn og ég veit ekki hvað. Líklega hefur einhver innri þreyta setið eftir þótt ég hafi ekki fundið fyrir því fyrr en þarna. Það er alltaf gaman að koma inn á flötina í Þórsmörk og sjá markið. Stemmingin er góð og margir koma upp í Þórsmörk enda þótt þeir séu ekki að hlaupa. Margir fara á móti hlaupurum með hvatningu og vistir. Það er alltaf jafn gaman að sjá hvað fólk er viljugt að létta undir með félögunum og styðja við þá. Framkvæmd hlaupsins var góð og til fyrirmyndar að mestu leyti. Einstaka smáatriði má laga s.s. með merkingar á einstaka stað s.s. í Hvanngili, við beygjuna á söndunum og eins þegar komið er í síðustu beygjuna að markinu. Það þarf ekki nema örfáa áberandi plastborða til að hafa allt hvað þetta varðar á hreinu. Erlendir hlauparar sem ekki þekkja leiðina verða að hafa svona allt á hreinu og maður verður að horfa á þetta með þeirra augum. Gaman að sjá fjölgunin í erlendum hlaupurum, s.s. japanska karlagengið sem var allt komið yfir sextugt. Ekki má gleyma Sigurgeiri Jónassyni sem vantar ár í sjötugt og kláraði hlaupið á rétt rúmum 7 tímum. Hann fór að hlaupa þegar hann fór á eftirlaun, sextíu og fjögurra ára gamall, til að losna við ístruna. Það virðist allt mögulegt á þessu sviði ef áhugi og vilji er fyrir hendi.
Símamótið í Kópavogi kláraðist í dag. María spilaði þarna með vinkonum sínum í Víking og eitt hvað um 1600 stelpur aðrar. Fínt mót og framkvæmdin til fyrirmyndar. veðrið gott í tvo daga af þremur. Manni óaði við að sjá sílamávaflokkinn sem flykktist inn á Kópavogsvöllinn þegar fólkið var að fara eftir lokaleikinn. Fuglinn var að sækja í ruslið og sitthvað matarkyns. Fuglinn var svo frekur að hann gerði aðsúg að fólki. Þetta var svona eins og miniútgáfa af The Birds. Bæjaryfirvöld í Kópavogi eiga skilyrðislaust að skjóta svona meindýr. Það á að líta á svona fugl sem fljúgandi rottur. Vonandi að umhverfisofstækisliðið nái ekki að setja fótinn fyrir slíkt þrifaverk.
Stundum blöskrar manni fréttaflutningurinn og fréttamatið. Látum vera með einkareknu stöðvarnar en þegar sjálfskipaða fagfólkið á RÚV á í hlut geri ég aðrar kröfur því ég borga því kaup ásamt fleirum nauðugur viljugur. Ég hlustaði á íþróttafréttir í kvöld. Þar var sagt vandlega frá einhverju strandblaksmóti sem haldið var norður á Akureyri að því mér skildist. Sagt var að mótið væri liður í einhverri mótaröð og nöfn sigurvegara talin upp og ég veit ekki hvað. Það var meira að segja sagt að sigurvegarnir nú hefðu sigrað sigurvegarana frá því síðast og nöfn þeirra einnig talin upp. Að vísu var sagt að það hefðu ekki mætt nema þrjú kvenna lið (2 x 3 = 6 keppendur). Síðan var næsta frétt svohljóðandi: "Um sextán hundruð stúlkur spiluðu fótbolta í Kópavogi um helgina á Símamótinu" Punktur. Búið.
Strandblak. Það er eitthvað sem spilað er á sólarströndum Spánar, Brasilíu, Kaliforníu og á öðrum veðurfarslega áþekkum stöðum. Að spila strandblak kappklæddir við heimskautsbaug finnst kannski einhverjum skemmtilegt sama er, ég sé ekki pointið.
sunnudagur, júlí 17, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli