laugardagur, júlí 02, 2005

Jæja þá er maður kominn heim fyrir nokkru og til í allt eða þannig. Það er dálítið skrítið að upplifa hvað netið er magnað því ég hef heyrt frá nokkuð mörgum að þeir hafi slegið tölvunni upp af og til og fylgst með kallinum þar sem hann potaðist áfram á hinni gömlu gullgrafaraleið milli Squaw Valley og Auburn. Þetta á ekkert síður við fólk sem stendur alveg fyrir utan hlaup eins og við hlaupaáhugamenn. Ég hef heyrt að menn fái hlaupafóbíu eða backflash eftir að hafa lokið svona áfanga en ég finn ekki fyrir því. Ef eitthvað er þá hefur áhuginn aukist því nú veit maður hverju er hægt að áorka með aga og ástundun. Sú tilfinning að skynja það að þú rráðir við náttúruna en hún nær ekki að snúa þig niður þar sem eru svona 65/35% möguleikar í upphafi er í einu orði sagt stórkostleg. Þegar maður skynjar hvernig er að uppskera vel eftir allt puðið undanfarna mánuði og ár þá er það eitthvað sem maður gleymir ekki strax en gefur manni kraft í frekari átök.
Fólkið í vinnunni gáfu mér hlaupahjól ef fæturnir skyldu eiga eitthvað erfitt næstu daga og vikur en ég er ekki búinn að taka það upp úr kassanum enn þótt skömm sé frá að segja.
Ég fékk email frá Rollin í gær. Hann var mjög glaður eftir samhlaup okkar. Ég fæ seint fullþakkað honum aðstoðina, bæði með margvíslegar upplýsingar á undan hlaupinu og eins á meðan við hlupum saman síðustu 60 km. Að hitta hann er ein af þessum tilviljunum sem koma fyrir mann á lífsleiðinni sem geta haft margvísleg áhrif, bara ef maður tekur eftir þeim en lætur þær ekki æða framhjá. Sama gildir um þá félaga Ágúst og Kristinn, þeirra aðstoð var afar dýrmæt. Þeir lögðu á sig ferðalög og fyrirhöfn, næturvökur og erfiði til að veita sem mesta og besta aðstoð, bæði praktiska og félagslega sem skipti afar miklu máli. Ég vona að kynni þeirra af WS100 nr 32 hafi kveikt í þeim þann neista sem verði sem fyrst að því báli sem þarf að loga um nokkurra mánaða skeið þar til menn standa tilbúnir í sólarhringsátök við marklínuna í Squaw Valley kl. 5 að morgni eitthvert árið. Ég efa ekki að svo verður um fleiri.

Engin ummæli: