laugardagur, apríl 08, 2006

Fór út kl. 8.00 í morgun og hitti Halldór. Þetta átti að vera rólegur dagur þannig að við róluðum fyrir Kársnesið og inn að tröppum. Við runnum upp þær sem er ekki í frásögur færandi en á niðurleiðinni hittum við stóran hóp sem var á uppleið. Það var hópur frá BútKamp sem er á útivistar og hlaupanámskeiði og í morgun voru tröppurnar á dagskrá. Við bárum okkur vel og sögðum að það væri lágmark að taka þær þrisvar og síðan HK brekkuna á eftir til að ná sér niður og uppskárum litlar þakkir fyrir uppástunguna eða þannig. Ef þetta fólk heldur áfram að skokka þá líður ekki langur tími þar til tröppurnar verða ekk ógnvekjandi heldur vinalegur kunningi sem er gaman að hitta. Við hittum snöfurlegan strák fyrir neðan sem sagðist ætla að hlapa frá Hellu til Reykjavíkur í sumar sem eru um 100 K. Við buðum honum með í Þingvallavatnshlaupið sem nokkurskonar fullnaðarpróf. Vonandi kemur hann með. Við rúlluðum upp HK brekkuna á eftir og vorum sammála um að nú verðum við að fara að hlaupa hana á tíma, þetta er orðið áreynslulaust að skokka hana upp á hefðbundnum hraða.

Ég fylgdi Halldóri út að göngubrú til að ná vegalengd því ég ætlaði að fara rúmlega 30 en hann lét sér nægja 20 km. Á leiðinni fórum við að tala um hlaupalag og Halldór sagði að Trausti segði honum að halla sér meir fram á hlaupum. Samkvæmt bókinni Chi Running er þetta mun betri aðferð til að láta þungann af líkamanum knýja sporin áfram en ekki eingöngu vöðvana í fótunum. Við fórum að halla okkur meir og meir áfram og allt í einu fann ég að þetta small til. Þetta er eins og að hleypa úr dekkjum í snjó, allt í einu fer bíllinn að fljóta yfir hvað sem er. Ég prufaði þetta svo frekar á leiðinni til baka og það er ekki um að villast, þetta munar heilmiklu. Skrefin lengjast, maður kemur niður á hælinn en ekki jarkann, hlaupið verður áreynslulausara og hraðinn eykst. Eini gallinn er að útsýnið hverfur því maður er svo álútur.

Kom við í Víkingsheimilinu til að fylla á brúsana. Þá var Víkingshópurinn að leggja af stað svo ég slóst í för með þeim Poweratehringinn. Þar er 20 - 25 manna hópur sem hittist reglulega og skokkar út frá Víkingsheimilinu kl 10 á laugardagsmorgnum og síðan einnig í miðri viku. Fór með Gulla Briem og Hönnu upp að stíflu þar sneri Hanna við en við Gulli rúlluðum sem leið lá hringinn. Það munaði litlu að illa færi á stígnum því ég rak tána í steinnibbu og steinlá og munaði litlu að hausinn rækist í stóra stein. Svona getur þetta verið. Við fórum rólega í góða veðrinu og spjölluðum um heima og geima. 31 km lá að baki þegar heim var komið.

Hofði á Idolið í gærkvðldi. Hvor vann skipti mig ekki öllu máli, krakkarnir voru bæði mjög góðir söngvarar svo og flest þeirra sem komust í 12 manna úrslit. Skemmtilegir persónuleikar og góðir söngvarar. Það er til svo mikið af hæfileikaríku ungu fólki að það er hreint magnað. Síðan er hin hliðin að samfélagið gefur fólki með hæfileika tækifæri að þroska þá og njóta sín. Það hefur ekki alltaf verið þannig. Það er ágætt að muna eftir því af og til að það er ekkert sjálfgefið í þeim efnum. Þegar ég horfði eitt kvöld á Músíktilraunir í fyrra fannst mér frábært að sjá og heyra hvað ungir krakkar voru orðnir góðir hljóðfæraleikarar.

Ég gat ekki annað en slökkt á kvöldmagasíninu á Stöð 2 í gærkvöldi. Þá tilkynnti þulurinn (ég hef verra orð til yfir hann) að gjafmildasta fjölskylda á Íslandi væri mætt í viðtal en hún hefði gefið si og só margar milljónir til fátækra í Sierra Leone. Í sjónvarpið voru svo mætt hjón með son sinn. Það skiptir ekki máli hver þau eru eða hvernig þau hafa auðgast en gjafmildi er alltaf afstæð. Síðan er það annað mál að þurfa að láta aðra vita hvað maður sé gjafmildur. Af hverju er ekki hægt að gefa svona gjafir af tómri manngæsku án þess að þurfa að segja sem flestum frá þvi. Hvað ætli væri sagt um mann ef maður væri kjaftandi því upp í alla hvað maður hefði gefið einhverju frændsystkyni í fermingargjöf? Maður yrði að athlægi. Það gilda kannski önnur lögmál um auðmennina. Ætli það skipti máli í þessu sambandi að eiginmaðurinn í þessari gjafmildu fjölskyldu hefur iðulega verið nefndur í tengslum við sölu Búnaðarbankans og það í heldur gagnrýnum tón af þeim sem hafa rýnt í málið. Bónusfjölskyldan gaf Barnaspítala Hringsins nokkuð margar milljónir dagana eftir að héraðsdómur felldi sýknudóm um daginn. Það er til svolítið sem heitir að kaupa sér almenningsálit. Hefur þulurinn síðan ekki heyrt frásögnina um eyri fátæku ekkjunnar sem var meira virði í augum frelsarans en stórgjafir auðmannanna. Hann ætti kannski að flissa minna en hugsa meir um það sem hann segir.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Gunnlaugur,
hvaða brekka er það sem þú kallar HK brekkuna? Er það Digranesbrekkan, eða brekkan upp Ísakstúnið, þ.e. frá botni Kópavogsdals uppá Digraneshæðina, þar sem íþróttahúdið Digranes er?
Í gamla daga þegar ég var í Digranesskóla þá fór maður stundum út á vorin, þegar viðraði eins og nú og kveikti í sinu á Ísakstúni í löngu frímínútunum. Síðan eyddum við næsta tíma úti í það að slökkva eldinn og þegar við krakkarnir komum loks í tíma vorum við algjörar hetjur! Svona var þetta í Kópavogi fyrir 35 árum. Þá var GOTT að búa í Kópavogi!
Ingibjörg