miðvikudagur, apríl 05, 2006

Fór út í morgun upp úr kl. 6.00 því ég fékk góða heimsókn í gærkvöldi og tíminn leið hratt við spjall og vangaveltur.

Pétur Fransson formaður FM hringdi í mig í gær og var að spekúlera í löngum hlaupum af ýmsum toga. Við vorum meðal annars að ræða Þingvallavatnshlaupið sem verður laugardaginn 29. apríl næstkomandi. Það er nauðsynlegt fyrir þá sem hafa hug á löngum hlaupum að taka þátt í því. Það er nokkursskonar fullnaðarpróf fyrir langhlaupara. Þingvallavatnshlaupið er ekki keppnishlaup heldur félagshlaup. Þótt hlauparar hafi hlaupið Laugaveginn á 7 - 8 klst þá er það annað að hlaupa á vegi í sama tíma. Hreifingarnar og áreynslan er einhæfari og því meiri líkur á að fá strengi. Það er ekki síður gagnlegt að þjálfa andann heldur en skrokkinn. Það er hins vegar klárt að sá sem fer Þingvallavatnshlaupið vandræðalaust hann fer einnig 100 km hlaup án vandræða ef skynsamlega er staðið að málum. Í svo löngum hlaupum er mest áríðandi að fara rólega af stað og borða og drekka vel frá upphafi á hverri drykkjarstöð. Hundrað kílómetrar er dálítið löng vegalengd og það getur margt gerst á langri leið. Það getur verið erfitt að halda aftur af sér í upphafi þegar menn eru svo vel á sig komnir í startinu að þeir hafa á tilfinningunni að það standist ekkert fyrir þeim. Einnig er alltaf hætta á að þátttakendur „hlaupi upp“ með tilvísun í fjórgangshugsmyndir aðalritarans þar sem um keppnishlaup er að ræða. Með því er vísað til að í svo löngu keppnishlaupi er mikilvægt að skipuleggja og hlaupa sitt eigið hlaup en láta ekki freistast til að hanga í einhverjum sem hleypur heldur hraðar en maður hafði ætlað sér að gera. Þá eru meiri en minni líkur á vandræðum. Sá sem datt síðastur út í 100 km í Borgundarhólmi var búinn að hlaupa 90 km þegar hann gat ekki meir!!!

Ég sé að það er fyrirhugað 100 km hlaup í Árósum í Danmörku þann 9. september í haust. Það eru því ýmsir möguleikar fyrir þá sem hafa hug á að þreyta þessa þolraun hér í nærliggjandi löndum.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

20. apríl fyrir Þingvallavatnshlaupið? Gaman væri að fá formlega lýsingu og tilheyrandi í tæka tíð því þetta er viðburður í samfélagi langhunda. Ég hef mikinn hug á að vera með og býð upp á nánari lýsingar á fjórgangi á leiðinni.
Aðalritarinn.