Ég las Evening Standard mánudaginn eftir London maraþon. Vitaskuld var sagt frá hlaupinu á íþróttasíðu blaðsins og myynd af sigurvegaranum. Hann kvartaði aðeins yfir því að brautin hefði verið hál í rigningunni og það hefði komið í veg fyrir að hann hefði sett heimsmet. En hann var ekki maður dagsins. Sá sem fékk stóru viðtölin var kona á fertugsaldri sem hafði misst framan af báðum fótum í sprenginunni í Kings Road þann 7. júlí í fyrra. Eftir að hafa lokið sjúkrahúsvist eftir slysið tók við löng endurhæfing sem fól meðal annars í sér að hún þurfti að læra að ganga á nýju gerfifótunum. Það tók langan tíma. Nú fór hún London maraþon á 5 klst og 15 mín!!! Hvað er svo verið að tala um að það sé afrek fyrir fólk sem er með báða fætur óskaddaða að þramma maraþon?
Í Evening Standard var síðan mikið af viðtölum við fólk sem var að hlaupa á tímanum frá 3.50 - 5.30. Venjulegt fólk sem hleypur sér til hressingar og ánægju. Blaðamenn hérlendis mættu taka breska kollega sína sér til fyrrmyndar í að sjá hvað er fréttaefni. Það eru ekki alltaf atvinnumennirnir sem skapa mestu fréttirnar, sem jafnvel þurfa bara að sitja á tréverkinu til að komast í fréttirnar eins og dæmin sýna í íslensku fréttamati.
Ég sé að það snjóar mikið í Sierra Nevada fjöllunum þessa dagana. Mikill var snjórinn í fyrra en hann er mun meiri í ár. Það verður erfitt. Alls eru 432 þátttakendur skráðir til leiks í WS í ár, þar af þrír norðurlandabúar, tveir norðmenn og einn svíi. Fyrsta norræna konan skráir sig til leiks en hún er norsk. Gaman verður að sjá hvernig þeim gengur.
Allan Hansen sá danski þurfti því miður að hætta á 18 legg í hlaupi sínu Danmark rundt vegna meiðsla í lærvöðva. Hann hafði fengið vont veður og mótvind flesta dagana sem gerði hlaupið mun erfiðara en ætlað var. Hann hefur síður en svo gefist upp og ætlar að láta á þetta reyna aftur.
Þingstaðahlaupið verður á laugardaginn. Það er 72 km langt. Ég veit um sex sem ætla að fara, Lapplandsfarana fjórir og svo við Halldór. Ef einhverjir fleiri vilja koma með þá verður lagt af stað frá Nesjavöllum kl. 9.00 á laugardagsmorgun. Nesti verður keyrt út á föstudagskvöldið.
fimmtudagur, apríl 27, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Þú ætlar ekki að skella þér í WS aftur?
Skrifa ummæli