Ekkert hlaupið í gærkvöldi. Hvíldardagur. Reyndar fer nú hvíldardögum á mánudögum að fækka. Ég er að lesa Chi Running til að rifja upp hugmyndafræðina. Þetta eru áhugaverðar vangaveltur um hernig er hægt að hlaupa hraðar og minnka líkur á meiðslum undir miklu álagi með því að hlaupa af skynsemi en ekki bara af kröftum.
Þórey kom með Londonmaraþon bolinn í gærkvöldi. Þær stöllur voru að keyra þá út. Það er farið að styttast í hlaupið. Ég geri ekki ráð fyrir neinum afrekum heldur á þetta að vera skemmtun fyrst og fremst. Ég hef aldrei hlaupið í svona stóru borgarhlaupi fyrr og verður það vafalaust góð upplifun.
Áhugavert viðtal við Gunnar prest í Digranesprestakalli í gærkvöldi. Hann ræddi opinskátt um spilafíkn unglinga í útfararræðu yfir ungum manni í síðustu viku og hefur fengið gríðarleg viðbrögð við henni. Þetta er óhugnanlegt að vita til þess hvernig spilafíknin getur gripið vel gerða unglinga slíkum heljartökum að það sé engin leið til baka. Það virkar voða saklaust að setja smáaura í spilakassa og fá smávegis til baka ef heppnin er með manni. En slíkur leikur getur breyst í dauðans alvöru áður en yfir líkur. Ég þekkti fólk fyrir norðan sem var svo heltekið af spilafíkn að þar fóru allar tekjur sem unnið var fyrir í kassann. Það stal til að fá aura til að geta haldið áfram að spila. Einn hélt því fram fullum fetum að kassinn þekkti hann persónulega og vildi bara sjá ákveðin föt. Ef hann var ekki í réttum fötum þá stóð hann til hliðar við kassann og teygði sig fram fyrir hann svo kassinn sæi ekki að hann væri ekki í réttum fötum. Þá gat kassinn móðgast!!
Frásögnin um Garðar Hólm í Brekkukotsannál er orðin sígild. Það líður manni ekki úr minni að sjá hann belja "Kindur jarma í kofunum" í kirkjunni og gott ef mamma hans var ekki eini áhorfandinn. Sem betur fer er þetta nú bara saga. Mér datt hins vegar Garðar Hólm í hug í síðustu viku þegar ég sá myndband með hinni heimsfrægu á Íslandi Silvíu Nótt sem tekið var upp í Japan nýlega. Þar kom hún fram í einhverjum unglingaþætti. Það hafa borist miklar frásagnir af því að hún hafi slegið í gegn hjá þarlendum. Kannski er ég orðinn of gamall fyrir svona lagað en ésús minn. Það sem fólki getur fundist fyndið hér heima fannst mér virka stirðbusalegt og útnesjalegt þegar farið var að fara með íslenska lokal brandara á enskri tungu við allt aðrar aðstæður. Hve margir Japanir ætli hafi heyrt talað um Eurovision? Örugglega mjög fáir. Japönsku unglingarnir vissu greinilega ekki hvað þeir áttu að halda en hlógu kurteislega að fyrirganginum. Maður gæti séð upplitið á landanum ef einhver uppstrílaður Japani kæmi hingað í álíka þátt og færi að stæra sig af því að ætla að vinna einhverja Tokiovision sem enginn hér heima hefði nokkurntíma heyrt nefnda og hefði engan áhuga á.
þriðjudagur, apríl 11, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli