þriðjudagur, apríl 04, 2006

Fór á skemmtilega myndasýningu hjá Útivist í Húnabúð í gærkvöldi. Fyrst voru sýndar myndir úr göngu frá Ólafsfirði fyrir Hvanndalabjarg, í Hvanndali og þaðan í Héðinsfjörð. Hvannbdalabjarg er hæsta standberg á landinu eða um 600 metra hátt. Það slær sem sagt við bæði Látrabjargi og Hornbjargi. Til að komast í Hvanndali þessa leið verður að fara niður einu gjótuna í bjarginu sem er fær. Mér sýndist hún vera þannig útlítandi að betra væri að hafa línu við hendina. Niður þessa gjótu var farið með kýr hér áður þegar ekki var spurt um hvort eitthvað væri hægt heldur hvort eitthvað væri nauðsynlegt. Úr Hvanndölum var gengið í Héðinsfjörð, um fjörðinn og síðan til Siglufjarðar. Ég hef bara komið í Héðinsfjörð en ekkert farið þarna um.

Síðan voru sýndar myndir frá göngu yfir Fimmfvörðuháls þar sem gengið var vestan megin við Skógará. Þótt skömm sé frá að segja þá hef ég ekki gengið yfir Fimmörðuháls enn en gott er að eiga eitthvað eftir. Ætla að reyna að komast yfir hálsinn í sumar.

Heyrði langt viðtal í Speglinum við kynjafræðing í HÍ. Efni viðtalsins var um áhrif hnattvæðingarinnar á konur. Samkvæmt viðtalinu þá kom ekki fram að hnattvæðingin hefði haft nein jákvæð áhrif fyrir konur í heiminum en aftur á móti fullt af allskonar vandræðum, erfiðleikum og allt upp í rakinn djöfulskap. Það er nú svo.

Engin ummæli: