miðvikudagur, apríl 26, 2006

London maraþonið var á sunnudaginn. Flaug út seint á föstudaginn og kom mér heim á hótelið. Notaði tímann í lestinni meðal annars til að átta mig á neðanjarðarlestakerfinu en það er orðið giska langt síðan ég hef komið til London. Á laugardaginn var farið út til Excel þar sem gögn voru afhent. Í höllinni þar sem gögn og annað var afhent var meiriháttar vörusýning á allskonar íþróttafatnaði og öllu sem hugsast gat í samandi við hlaup. Fór meðal annars í hlaupagreiningu og þótti hæfur til ásetnings (eins og sagt var í sveitinni hér áður). Fæturnir þóttu bara nokkuð í lagi. Keypti slatta af fatnaði og skó því maður missir sig stundum í svona umhverfi þegar verðið er hagstætt. Þarna hitti ég Frímann frá ÍTR sem var að kynna Reykjavíkurmaraþon og Laugaveginn. Mjög gott framtak sem á örugglega eftir að skila sér. Fulltrúar fjölmargra landa voru að kynna sín hlaup þannig að samkeppnin er hörð. Um kvöldið fór hópurinn að borða pasta og með því.
Tók leigubíl niður á Ford Clifton hótel á sunnudagsmorguninn og var kominn þangað um 6.30 en rútan átti að leggja af stað kl. 7.00. Það var um þriggja kortera akstur út á svæðið þar sem rauði hluti hlaupsins átti að byrja en hlaupið hófst á þremur stöðum enda allt að 35.000 manns sem höfðu skráð sig. Það hafði verið rigning í veðurspánni þannig að við vorum svolítið áhyggjufull ef hann færi að hella úr sér en hitinn var góður eða um 15 stig. Veðrið reyndist síðan vera eins gott og hægt var að hugsa sér, skýjað, logn og örlítill úði af og til. Fjöldinn jókst smám saman og biðraðirnar við klósettin urðu lengri og lengri. Pissurennur höfðu einnig verið settar upp til að flýta afgreiðslunni. Þarna var til reiðu kaffi, te, vatn og orkudrykir meðan beðið var eftir startinu. Fötunum var svo skilað í þar til gerðum poku í merkta vörubíla.
Ég hafði ekki planað nein átök í hlaupinu. Þar sem ég hafði ekki stefnt að neinum sérstökum toppi í fyrir það þá ákvað ég að fara í gegnum það með ánægjuna í fyrirrúmi. Ég hafði aldri hlaupið svona borgarhlaup áður, Í Búdapest voru samtals um 4000 keppendur en hér nær 10 sinnum fleiri. Það tók svona mínútu að komast yfir marklínuna eftir að skotið reið af og þá var hægt að fara að skokka. Það tók svona tvo til þrjá kílómetra þangað til hægt var að fara að hlaupa nokkuð ótruflaður. Strax frá upphafi voru raðir áhorfenda þéttar meðfram hlaupaleiðinni beggja vegna sem kvöttu hlauparana með hrópum og hvatningarköllum. Þair sem voru með nafnið sitt framan á bolnum fengu persónulegar sendingar. Ég fór rólega og vildi bara sjá hvernig staðan væri, maður var eins upptekinn af því að fylgjast með áhorfendum, hljómsveitum og öðrum uppákomum sem settar höfðu verið upp meðfram brautinni. Kílómetrarnir liðu hjá einn af öðrum. Ég hitti íslenskan strák sem heitir Helgi sem sagðist ætla að hlaupa á ca 4 klst. Hann var skráður á nafni spánsks vinar síns sem forfallaðist þannig að hann kemst ekki í maraþonskrána nema hann láti vita af sér. Uppúr fimm km komu hinir hóparnir saman við okkar línu þannig að þá voru allir komnir á sömu braut. Áfram leið hlaupið og ánægjan fór sífellt vaxandi. Raðir áhorfenda urðu fjölmennari og stemmingin óx. Drykjarstöðvar voru á ca 3ja km fresti þannig að það var nóg af öllu. Ég sá að tímarnir voru ekkert sérstakir, rúmlega 50 mín á 10 km og 1.47 á hálfu. Það var bara eftir bókinni. Skyndilega birtist Tower Bridge og mikill manngrúi á báðar hendur. Það var mögnuð tilfinning að rúlla yfir brúna innan um allan þennan fjölda í gríðarlegri stemmingu. Þar stóð hópur íslendinga með fána og veifaði ákaflega. Frá brúnum var beygt til hægri og hlaupin ca 16 km löng leið fram og til baka og lá bakaleiðin samsíða fyrri leggnum. Þar voru fremstu konur komnar en þær höfðu verið ræstar kl. 9.00. Skömmu síðar birtist hópur svartra keppenda sem hljóp í lögreglufylgd. Þar voru atvinnumennirnir sem kepptu um sigurinn. Hlaupið leið áfram og varð sífellt skemmtilegra og skemmtilegra, sérstaklega vegna þess að manni leið svo vel á alla kanta. Ég fór að prófa muninn á því að halla sér áfram á móti því að hlaupa uppréttari. Það var ekki spurning hvað hraðinn eykst við að halla sér áfram án þess að áreynslan aukist. Sérstaklega er léttara að fara upp halla ef maður lætur þungann vinna með sér. Vanalega fer maður að erfiða þegar farið er að nálgast 30 km. Þá byrjar niðurtalningin og maður þarf að fara að einbeita sér og láta andlegan styrk bæta upp líkamlega þreytu. Nú bar ekki á slíku. Ég fór að hugsa um að það gæti kannski verið gaman að fá aðgöngumiða á Boston og þegar voru um 10 - 12 km eftir fór ég að auka hraðann og hlaupa af meiri alvöru. Það gerði hlaupið bara enn skemmtilegra því nú fór maður að fara fram úr fólki í stríðum straumum. Ég fann hvergi fyrir eymslum eða þunga í fótunum heldur rúllaði maður áfram í góðum jöfnum gír. Síðustu ca tvo kílómetrana tók ég svo á eins og ég gat og hljóp þá ca 4 mín tempói (sem var svipað og Sigurjón hljóp allt hlaupið á). Það er alltaf jafn gaman að hlaupa yfir marklínuna og svo var eins í þetta sinn. Tíminn varð um 3.30 sem var með því besta sem ég hafði búist við en það sem var extra "krydd på kakan" var hvað mér leið vel allan tímann og var sterkur og óþreyttur í markinu. Jón Haralds kom á hæla mér og fórum við að hitta þá sem komnir voru í mark. Þau voru nokkur komin sem höfðu hlaupið á fínum tímum. Sigurjón smeygði sér undir 2.50 og varð 14 í sínum aldursflokki sem er frábært afrek. Halli bætti sig úr 3.31. í 3.08 sem er einnig mjög flott. Ingibjörg lauk hlaupinu á 3.22 sem er glæsilegt. Þannig má áfram telja. Hlaupararnir söfnuðust saman undir íslenska fánanum og klæddumst og spjölluðum saman. Þangað komu líka áhorfendur og áhangendur sem höfðu lagt sinn skerf af mörkum. Fréttir bárust af afrekum í Hamborg þannig að í heildina varð þetta mjög góður dagur fyrir íslenska maraþonhlaupara. Frábæru hlaupi var lokið og frábærum degi tekið að halla svo það var eins gott að fara að koma sér heim. Ég hitti breskan strák í Metronum á leiðinni heim á hótel og spurði hann hvernig hlaupið hefði verið. "It was horrible" sagði hann. "After 25 km every step was in pain" Svona getur upplifunin verið mismunandi. Morguninn eftir sá ég í sjónvarpinu viðtöl við tvennt sem hafði verið flutt á spítala að hlaupi loknu. Þau höfðu lokið því á 5.30 og 5.55. Svona er þetta. Það er ekkert sjálfgefið í þessu.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Til hamingju Gunnlaugur,og allir þeir Lundúna og Hamborgarfarar sem þetta sjá. Þið eruð frábær.

Bryndís Magnúsdóttir