Fór 16 km í gærkvöldi í fínu veðri og skemmtilegheitum. Er annars að dunda við að rífa innan úr eldhúsinu því nú skal það skverað upp og nýrri innréttingu stillt upp. Það hittist svo hraklega á að vegna þess að afendingartíma innréttingarinnar seinkaði þá skarast framkvæmdir eitthvað á við Londin maraþonið en þannig er þetta nú bara. Matthildur sendi út tölvupóst í gær með bæði praktiskum upplýsingum og óvæntum glaðningi svo sem móttöku í sendiráðið.
Raunveruleikinn er stundum ótrúlegri en lygisögurnar. Fyrir nokkrum árum las ég um dana sem ætlaði að hlaupa 100 maraþon á einu ári, sem sagt tvö í hverri viku árið um kring. Þetta var líklega árið 2003. Einhverra hluta vegna hafði það borist yfir hafið að hann hefði látist í águst þetta ár og var það ekki talið ósennilegt vegna hins gríðarlega álags sem svona áskorun fól í sér. Þegar ég fór síðan til Borgundarhólms í ágúst 2004 í 100 km. hlaupið góða þá var þessi ágæti maður nú ekki dauðari en það að við tókum saman strætó frá Rådhuspladsen niður til ferjubryggjunnar við Nyhavn. Við vorum tveir í strætónum og tókum tal saman á leiðinni. Þannig féllu orð að ég áttaði mig á að þarna var 100 hlaupamaðurinn kominn léttur á fæti og sprelllifandi. Honum þótti gaman að heyra að fregnir af afreki hans höfðu borist yfir Atlantshafið. Nú sé ég að hann ætlar að bæta um betur. Nú er það 42 maraþon á 42 dögum eða ca 1775 kílómetrar. Hann lagði af stað frá Esplanaden í kaupmannahöfn þann 4. apríl og tók kúrsinn í áttina til Helsing¢r. Svo heldur hann áfram gegnum Fjón, norður um Jótland og suður að vestanverðu og svo til baka og endar á degi 41 og 42 á Borgundarhólmi. Slóðin á vefsíðu hans er www.viking-atletik.dk/allanhansen/. Hann er ekki með spjallþráð en ef hann kemur upp er ég viss um að honum þætti vænt um að sjá að það er fylgst með honum frá Íslandi. Fyrstu 4 hlaupin hefur hann hlaupið á 4.30 - 4.50 enda verið mishæðótt og stundum mótvindur. Það verður gaman að fylgjast með Allan á leið hans um Danmörku.
Svona að lokum, er hringurinn í kringum landið ekki nálægt 1500 km. Það mætti kannski bjóða honum í hringferð um landið, by foot.
miðvikudagur, apríl 12, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli