föstudagur, apríl 07, 2006

Fór inn í Elliðaárdal eftir vinnu og tók brekkuspretti í Rafstöðvarbrekkunni. Tók brekkuna þrisvar sinnum og svo merkilegt sem það var þá var síðasti spretturinn léttastur. Þarf líklega að leggja meir að mér. Þetta minnir mig á það sem Bjarni Guðjónsson knattspyrnumaður sagði einhvern tíma. Þá var liðið í hlaupaæfingu og áttu að hlaupa ákveðna vegalengd undir ákveðnum tíma. Bjarni var í ágætu formi og átti ekki í erfiðleikum með að ná að hlaupa undir tilsettum tímamörkum. Þegar þjálfarinn spurði hann hvernig þetta hefði gengið sagði Bjarni að þetta hefði verið fínt og ekkert mál og bjóst við hrósi. En í stað þess að hrósa Bjarna þá hundskammaði þjálfarinn hann fyrir að hafa ekki lagt harðar að sér fyrst hann hefði getið það. Þannig er þetta. Góður árangur næst ekki nema með því að leggja alltaf að sér eins og maður getur. Fór svo hring í hólmanum og kom heim eftir 80 mínútur. Í Elliðaárdalnum var svo til logn og gott veður enda þótt garrinn væri allt um kring. Maður vanmetur oft veðrið í honum þegar leiðinlegt er að líta út um gluggann eins og hefur verið oft á liðnum vikum.

Það var nokkur umferð þarna. Pétur Frans kom fyrir fullum seglum með sinn Laugahóp. Svo kom Svanur skokkandi úr vinnunni flakandi niður á bringu í næðingnum. Hann lét vel af sér og sagði að hnéð væri alveg að vera eins og það á að sér að vera.

Á sunnudaginn 9. apríl fer félagi Höskuldur í Ironmanninn í Arisona. Slóðin er www.ironmanarizona.com/. Það verður fróðlegt að sjá hvernig honum gengur því hann hefur ekki mikinn bakgrunn í sundinu að eigin sögn. Höskuldur er hins vegar seigur og til alls líklegur. Cut offið er 15 klst fyrir 3,2 km í sundi, 180 km á hjóli og heilt maraþon. Þarna verða um 1900 keppendur frá 30 þjóðlöndum.

Víkingarnir í 3ja flokki gerðu jafntefli við Selfyssingana í gærkvöldi og urðu þar með meistarar í 2. deild 3. flokks. Strákarnir eru allir á yngra ári í þessum aldursflokk þannig að þetta er fínn árangur hjá þeim. Nú bíður úrslitakeppnin senit í mánuðinum. Þa verður gaman að fylgjast með þeim næsta vetur þegar þeir verða komnir á eldra ár í flokknum. Þetta er samstæður og skemmtilegur hópur sem maður er búinn að fylgjast með síðan í byrjun janúar árið 2000 þegar við fluttum suður eða í rúm sex ár.

Ágúst forseti var magnaður í morgunsjónvarpinu í morgun. Hann breytti bláu vatni í rautt í beinni útsendingu og blés blöðru upp inni í örbylgjuofni eins og ekkert væri sjálfsagðara. Ég efa ekki að hann geti breytt víni í vatn eða vatni í vín ef þörf væri á. Jafnvel gæti hann tekið frelsarann á sprettinum á Geneseratvatni enda var það víst ísilagt þegar Ésú spásseraði á því eftir því sem nýjustu heimildir herma.

Engin ummæli: