mánudagur, apríl 10, 2006

Til hamingju Höskuldur. Félagi Höskuldur Kristvinsson kláraði Ironman í Arisona á sunnudaginn á 16 klst og 14 mín. Í upphafi eru syntir 3,8 km, (1.58.11) þá er hjólað í 180 km (7.49.32) og að lokum er hlaupið maraþon upp á 42.2 km (5.51.08). Eitt er bara að klára svona lagað og komast í gegnum þrautina, annað er að gera það undir settum tímamörkum sem voru 17 klst í þessu tilviki. Höskuldur er rúmlega fimmtugur læknir sem hefur sýnt fram á að það er ýmislegt hægt þegar viljinn er fyrir hendi. Hann lauk 100 mílna hlaupi í USA í fyrra, fyrstur íslendinga.

Hitti vini Gullu í gærmorgun og fór með þeim létt hlaup út að Nauthól, þá sneri ég við og tók slaufu upp í Elliðaárdal til að ná tilsettum 22 km. Er að fikra mig áfam með Chi running. Það er merkilegt að finna muninn frá því að vera að skokka á rúmu 5 mín. tempói á venjulegan hátt og svo hallar maður sér fram og gerir ekkert annað. Við það eykst hraðinn án áreynslu upp í 4.30 - 4.40 mín tempó. Skrefin lengjast og þunginn knýr skrokkinn áfram. Maður þarf bara að æfa þetta betur til að ósjálfráða taugakerfið sjái um málið.

Óvenju skynsamleg umfjöllum um fuglaflensuna í sjónvarpinu í gærkvöldi. Haraldur Bíem sóttvarnarlæknir talaði um þetta af þekkingu og yfirvegun og Jóhanna fréttamaður spurði skynsamlegra spurninga. Það er ekki venjulegt hvað fjölmiðlar hafa magnað upp mikla histeriu um þetta fyrirbæri, ekki bara hérlendis heldur einig um heim allan. Maður getur ekki annað en velt fyrir sér hvort eftirlits- og rannsóknaiðnaðurinn séu að kynda undir þessa umræðu til að fá aukna fjármuni og gera sig meir gildandi. Fuglaflensuveira hefur verið þekkt í á annað hundrað ár eða frá því hægt var að greina þetta af einhverju viti. Ætli það séu ekki um 80 stofnar flensunnar til eftir því sem ég hef lesið. Samtals hafa rúmlega 100 manns í heiminum látist vegna flensunnar en í Danmörku einni saman dó milli 3000 og 4000 manns í fyrra vegna árlegs infúensufaraldurs. Hvað ætli deyji margir fuglar árlega svona hér og þar hérlendis? Maður getur ekki annað en hugsað um hvað myndi gerast með fasteignaverð í 101 ef fugl myndi greinast með fuglaflensu á Tjörninni.

Sá um helgina að gjafmildasta fjölskylda landsins hafði sent hópsendingu á alla fjölmiðla. Gott hjá henni að láta sem flesta vita af þessu. Góðverk sem enginn veit um er ekkert góðverk (gæti maður haldið).

Annar flötur á áþekku máli. Heyrði í alþingismanni nýlega í sjónvarpsþætti þar sem Baugsmálið bar á góma. Þingmaðurinn taldi fram í þættinum öll rök Baugsmanna í varnarræðum þeirra þeim til málsbóta og vísaði meir að segja til mannréttindabrota í þessu sambandi. Það sem gleymdist að taka fram var að þingmaðurinn er formaður samtaka sem eru í ákveðinni góðgerðastarfsemi og allt gott um það. Hann hefur skýrt sérstaklega frá því hvað hann fékk góðar undirtektir hjá Baugsmönnum við fjármögnun verkefna á vegum samtakanna. Ég get ekki verið annað enn svolítið hugsi yfir samhengi hlutanna. Hvernig var máltækið: „Æ sér gjöf til gjalda“.

Engin ummæli: