sunnudagur, apríl 16, 2006

Endurreisnartímabilið er hafið. Búið að rífa það sem rífa skal. Í gær og dag voru flísar lagðar og fúgað. Svo er bara að vona það besta og bíða eftir að innréttingin sýni sig.

Fór Eiðistorgshringinn í dag. Reyndi að hlaupa alla leiðina með framhallandi aðferðinni, sérstaklega í góðum mótvindi vestur á Eiðistorg. Vafalaust eru ekki allir á einu máli með þessa aðferðafræði frekar en aðrar en mér finnst hún vera léttari en að hlaupa uppréttari. Maður kemur niður á hælinn og rúllar síðan fram á tærnar í stað þess að koma niður á jarkann og spyrna sér áfram. Þegar best gekk fannst manni að maður væri að hlaupa inni í röri sem bara rúllaði áfram. Ég ætla að einbeita mér að þessu hlaupalagi áfram því ég held að það hafi ákveðna kosti. Ég er alveg sammála því sem Agga er að skrifa á vefnum sínum um kosti þess að ganga af og til. Í fyrravetur þegar ég æfði sem mest var ég mjög ófeiminn við að labba af og til á löngum æfingum. Það brýtur upp rútínuna og virkar sem nokkurskonar teygjur. Í maraþonhlaupum er t.d. gott að ganga í gegnum drykkjarstöðvarnar í stað þess að hlaupa í gegnum þær Í lengri hlaupum mæla Bandaríkjamenn með 5/1 aðferðinni. Hlaupa í fimm mínútur og ganga í eina. Ég minnist þess að góður hlaupari sem ég man ekki hvað heitir fór í 24 tíma hlaup og notaði þessa aðferðafræði frá byrjun. Fólk horfði á hann vorkunnaraugum þar sem hann gekk á brautinni rétt eftir start. "Bara strax farinn að ganga" Þessi hlaupari vann síðan hlaupið enda þótt hann væri ekki með fremstu mönnum framan af. Það getur margt gerst á langri leið.

Engin ummæli: