fimmtudagur, apríl 20, 2006

Gleðilegt sumar.

Ekkert hlaupið í gær. Eftir hádegi fór starfsfólk sambandsins til Þingvalla í sambræðslu og árshátíðarferð.Fyrst var farið í leikja- og samhæfingarprógramm úti á bala þar sem hópnum var uppálagt að fara í gegnum dálítið leikja- og verkefnaprógramm þar sem rauði þráðurinn var samhæfing og að allir skiptu máli. Þetta var ágætt og gaman að þessu. Veðrið á Þingvöllum var ágætt, heldur milt og logn. Því næst var farið inn í kaffi og þa tók Jóhann Ingi sálfræðingur við og messaði yfir hópnum um ýmis gildi. Að því loknu var farið í gönguferð um Almannagjá undir leiðsögn Einars þjóðgarðsstarfsmanna sem sagði nokkrar skemmtilegar sögur á leiðinni. Að lokum var farið í betri fötin og sest að veisluborði og haldin árshátíð starfsmannafélagsins. Kvöldið leið hratt við spjall og skemmtan. Heim var haldið um miðnættið að afloknum ágætum degi á Þingvöllum.

Sé á vef Allans Hansen að hann er búinn að ljúka 17 leggjum eða um 2/5 af öllu prógramminu. Hann hefur verið að hlaupa maraþonlegginn á frá 4.11 og upp í um 5 klst. Hraðinn fer dálítið eftir veðri og mótvindi.

Góð umfjöllun um afrek Höskuldar í Fréttablaðinu í morgun. Guðrún Helga gerir þessu góð skil eins og Höskuldur á skilið. Eini gallinn við framsetninguna er að þetta á vitaskuld heima á íþróttasíðu blaðsins en ekki undir almennar fréttir. Ef það að klára Ironman er ekki íþróttaafrek þá veit ég ekki hvað er það. Vafalaust telur þetta þröngsýna lið sem skrifar íþróttafréttir að það sé meira umfjöllunarefni að segja frá því að einhver hafi ekki skorað eða einhver ekki verið í leikmannahópi einhvers liðsins en að segja frá svona afrekum.

Two Oceans hlaupið er búið. Tímarnir eru á hlaup.is. Til hamingju með góð afrek.

Engin ummæli: