laugardagur, júní 23, 2007

Fyrsta Grænlandsæfingin í kvöld. Hjólaði upp að Esju, gekk á hana og hjólaði svo heim aftur. Það eru réttir 22 km að heiman hvor leið að Esjunni, mjög svipað og ég áætlaði þegar ég hljóp þetta í hitteðfyrra. Fínn túr, var um 40 mín upp og 22 niður. Skokkaði rólega niður og var miklu fljótari en ég hélt að ég væri. Fleiri svona fylgja á eftir. Skoðaði fjallahjól aðeins í dag. Leist best á hjól í Markinu, bæði hvað varðaði verð og úrvals. Skoða málið betur eftir helgi.

Fréttin sem var ca númer tíu í sjónvarpsfréttunum í kvöld var ansi merkileg. SA og PARX birtu niðurstöður úr mjög vandaðri og viðamikilli könnun um launamun kynjanna. Í ljós kom að óútskýrður launamunur er 10 - 12%. Þessi niðurstaða er óravegu frá heimsendatali feminista og annarra sem tala eins og staða íslenskra kvenna á launamarkaði (og kannski í samfélaginu öllu) sé álíka og frumbyggja Ástralíu eða ég veit ekki hvað. Ein af þeim sem hefur framfæri af því að viðhalda mýtunni um stöðu kvenna í samfélaginu var náttúrulega strax mætt í sjónvarpið til að rengja niðurstöðurnar. Það á að hafa fáar breytur en ekki margar sagði hún. Þá verður niðurstaðan marktækari. Þessi fullyrðing er náttúrulega þvert á allar kenninguar um hvernig sé best að herma eftir raunveruleikanum með módelum en það er svo sem í takt við annað úr þessum herbúðum. Vonandi fer það tímaskeið að taka enda að fámennur öfgahópur stjórni þessari umræðu og það verði farið að tala um hlutina eins og þeir eru. Sá launamunur kynjanna sem virðist þó vera fyrir hendi verður kannski aldrei afnuminn að fullu, hvað veit ég en mín skoðun er þó sú að hann verði frekar minnkaður með því að efla konur og byggja upp hjá þeim þekkingu og sjálfstraust til að fara fram á laun sem eru í takt við þekkingu þeirra og getu. Það er farsælli aðferð að mínu mati en að vera sífellt að hamra á því hvað þær séu aumar og undirokaðar af kallafjöndunum. Ég hef hins vegar enga trú á að þetta verði gert því það er allt of stór hópur fólks sem hefur fjárhagslegra hagsmuni að verja með því að viðhalda mýtunni.

Heyrði í útvarpinu undir kvöld að í dag var þess minnst vestur á Látrabjargi að í ár eru 60 ár liðin frá því Björgunarafrekið við Látrabjarg var unnið. Í svartasta skammdeginu bjargaði bændafólk í Útvíkum og víðar að úr Rauðasandshreppi hinum forna skipbrotsmönnum af breska togaranum Doon sem strandaði undir 400 metra háu standberginu í Látrabjargi. Þetta var þriggja sólarhringa törn þar sem enginn vissi hver endalokin yrðu fyrr en allir voru komnir upp. Það getur enginn ímyndað sér við hvaða aðstæður björgunarmenn störfuðu nema þeir sem hafa reynt það á sjálfum sér. Ég get það ekki. Þetta fólk vann hetjudáð sem full ástæða er til að minnast með reglulegu millibili. Ég fullyrði að þetta yrði ekki leikið eftir í dag, þrátt fyrir öflugan mannskap og besta fáánlegan búnað. Þessir kallar sem fóru niður í fjöru höfðu allir kynnst bjarginu frá unga aldri og voru vanir að umgangast það. Þórður og Daníel á Látrum, Liði í Neðri Tungu, Bjarni í Hænuvík og Drési Karls. Hlutverk þeirra sem sátu undir festinni á snarbröttu Flaugarnefninuí einn eða tvo sólarhringa var ekki minna. ef menn runnu af stað var ekki svo gott að stoppa sig óg hátt fall fyrir neðan. Þannig mætti áfram telja. Gott viðtal var í Speglinum við Erlu Hafliða sem var fimmtán ára gömul þegar þetta gerðist. Þegar allir voru orðnir rammvilltir í þokunni á leið út á brún sagði mamma hennar, Sigga Pía: "Þið ráðið hvað þið gerið en ég fer þessa leið" Það kom í ljós að það var hin rétta leið. Ef fólk á ferð um Vestfirði kemur í safn Egils á Hnjóti ætti það að setjast niður smástund og horfa á myndina um Björgunarafrekið við Látrabjarg. Það er vel þess virði.

Engin ummæli: