Fundur í 100 km félaginu í kvöld. Nýjir félagar voru teknir inn, Eiður Sigmar og Börkur. Þeir kláruðu báðir 100 km í vor í miklum hitum. Ýmislegt var rætt á fundinum, s.s. gerð einkennisjakka, þátttaka félaganna í fjáröflunarhlaupi í RM og hvort og hvernig eigi að standa að 100 km hlaupi hérlendis. Mikið var rætt um útfærslu þess, hvort eigi að hlaupa minni hring sem yrði þá hlaupinn oft eða að hafa einn stóran hring. Miklu munar hve einfaldara er að hlaupa á litlum hring sem væri hlaupinn oft. Hann gæti verið um 5 - 10 km. Þetta verður varla fyrr en á næsta ári en sama er, undirbúningur er hafinn.
Sorglegt var að horfa á landsleikinn í Svíþjóð í gær. Ráðleysið algert og allt virtist hjálpast að. Það þarf eitthvað mikið að gerast til að liðið nái að hysja upp um sig buxurnar. Ég er efins um að það gerist undir stjórn þessa þjálfara. Það er eitt að vera góður knattspyrnumaður, annað að vera góður þjálfari. Það þarf alls ekki að fara saman nema síður sé.
Einar Oddur var fínn í sjónvarpinu í kvöld. Hann ítrekaði nauðsyn þess að hafa ríkisfjármálin ætíð og eilíflega í forgangi. Það setur að manni illan grun þegar örfáum dögum eftir að ný ríkisstjórn er mynduð er birt stefnumörkun um að gera mikið fyrir marga. Það lá ekkert kostnaðrmat með heldur var sagt að þetta borgaði sig, væri arðbær fjárfesting. Það er nú bara þannig að það er ekki hægt að gera allt fyrir alla, alltaf og allsstaðar. Sumir töluðu reyndar þannig fyrir kosningar í vor að það væri ekkert mál. Manni óar við því ef farið er að reyna að framkvæma slíka hugaróra.
Maður getur ekki annað en velt fyrir sér ástandi þorsksstofnsins. Hér á árum áður voru veidd allt að 600 þúsund tonn af þorski á íslandsmiðum. Nú er gert ráð fyrir að skera veiðina niður í 130 þúsund tonn eða þar um bil. Engu að síður hafa verndaraðgerðir staðið yfir í tæpan aldarfjórðung. Maður spyr sig er veitt milklu meira en gefið er upp. Er það rétt að það sé hægt að draga sundur fiskikör frá Færeyjum og Íslandi á breskum fiskimörkuðum eins og rollur í rétt. Allir fiskar jafnstórir í íslensku körunum en stærðin holt og bolt í færeysku körunum. Þetta heyrir maður. Á morgunverðarfundi Landsbankans sem haldinn var á þriðjudaginn var sýnt linurit um þróun þorskafla á islandsmiðum frá árinu 1955. Miðað við þróunina mun allur þorskur vera horfinn af miðunum eftir ca 15 - 20 ár. Kannski verður það skemmri tími því ef fer sem horfir mun stofninn hrynja. Margt er það neðansjávar sem erfitt er að skýra. Ólafur bæjarstjóri í Grindavík sagði mér í morgun að árið 1978 hefði hann verið á togara sem ætlaði að veiða í Barentshafi. Þá var þar ekki bröndu að fá, hreint út sagt. Tíu árum síðar dúkkuðu upp þar ca 1 milljón tonn af þorski. Hvaðan kom allur þessi fiskur?
föstudagur, júní 08, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli