Kolviðarprógrammið er auglýst dag út og dag inn í fjölmiðlum þessa dagana. Þarna er gott og ódýrt tækifæri til að kaupa sér góða samvisku, nokkursskonar syndaaflausn eða skriftir eins og hjá kaþólskum. 5 - 10 þúsund kall eftir stærð bílsins og þú ert með hreina samvisku gagnvart global warming. En er þetta svona einfalt? Hvar á að planta öllum þessum trjám? Hvaða trjám á að planta? Hvað tekur langan tíma fyrir trén að vaxa til að fara að hafa einhver kolefnisbindandi áhrif? Er Ísland hentugasta landið til að binda kolefni eða ættu menn að styðja skógrækt í löndum þar sem áhrifin koma fyrr fram vegna meiri vaxtarhraða trjánna? Hvaða áhrif hefur gríðarleg aukning á skógrækt á landið? Á að dengja öllum þessum trjám á þá staði á landinu sem eru best fallnir til skógræktar veðurfarslega séð? Ég tek fyllilega undir með forstjóra Náttúrufræðistofnunar um að það sé einkennilegt að svona aðgerðir þurfi ekki að fara í umhverfismat. Umfangsmikil skógrækt hefur áhrif á landið, útsýni, fuglalíf, gróðurfar og margt annað. Sum áhrifin eru góð önnur lakari. Ef ég fer að kaupa trjáplöntun í dag til að binda kolefni á móti bílnum sem ég er að keyra eru þau kannski farin að hafa tilætluð áhrif eftir 20 ár ef þeim er plantað hérlendis. Mér þætti skynsamlegra að planta þeim í löndum þar sem þau hefðu tilætluð áhrif eftir 5 ár.
Mér fundust tvær fréttir í Mbl. í morgun athyglisverðar. Í fyrsta lagi hafði verið talið enn einn ganginn hve margar konur sitja í stjórnum fyrirtækja á fjármálamarkaði. Þær eru fáar, hvers vegna veit ég ekki. Um þetta var fjallað í frétt og viðtölum. Fréttinni fylgdi frekar heimskuleg mynd sem hafði þann einan tilgang að gera lítið úr körlum að því mér sýndist. Ekki sit ég í stjórn neins fjármálafyrirtækis enda þótt ég sé kall svo það kemur út á eitt. Það voru viðtöl við ýmsa sem sögðu flestir að það þyrfti að fara að gera eitthvað í þessu. Sumir vildu setja lög til að tryggja ákveðið hlutfall kynjanna í fyrirtækjum á verðbréfaþingi eins og í Noregi sem er eina landið í heiminum sem hefur lagt af stað í þessa vegferð. Í annan stað var frétt í blaðinu um tvær konur sem ætla að stofna sitt eigið fjárfestingafélag. Það er flott. Auðvitað er þetta rétta leiðin. Ríkisfeministarnir vilja að ríkið setji lög og geri alls kyns hundakúnstir til að tryggja konum ákveðinn rétt sem þær telja sig ekki ná fram á annan hátt. Einkaframtaksfeministarnir vilja eðlilega jafnan rétt á við karla en segja að þær geti alveg gert þetta sjálfar. Flott fordæmi hjá þeim stöllum sem eru að fara að stofna sitt eigið fjárfestingarfélag.
Í gær var fyrsta æfing fyrir Grænland í að róa kanó. Hún var haldin í Nauthólsvíkinni. Hún gekk bara vel, báturinn valt ekki og það tókst að halda þokkalegum rythma í róðrinum og skipta um hlið í róðrinum án þess að allt færi í handaskol. Lítur bara vel út.
fimmtudagur, júní 28, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli