þriðjudagur, júní 19, 2007

það er eins og það er, yfirleitt finnst mér feministar hugsa með rasshendinni. Nú síðast afhentu þeir þingmönnum úr Norðurlandskjördæmi vestra einhvern bleikan stein. Líklega hefur það verið gert þeim til háðungar því þingmenn NV eru allir karlkyns. Skoðum þetta aðeins nánar. Átti að afhenda þessum þingmönnum bleika steininn eða einhverjum öðrum? Hverjir velja á framboðslista? Það eru flokksmenn, kjördæmisþing eða uppstillngarnefndir. Einhverjir gefa kost á sér og aðrir velja hverjir skipa efstu sæti framboðslista. Út úr þvi kemur einhver niðurstaða. Þeir sem eru valdir eru ekki ábyrgir fyrir niðurstöðunni.

Nú skyldi maður halda að ef það er almenn vakning fyrir að konur jafnt sem karlar séu kosnir til starfa á Alþingi fyrir hönd hvers kjördæmis þá kjósi fólk þá lista þar sem mestar líkur eru á að kynjahlutföllin séu jöfn. Allavega konurnar. En hver er raunin. Sá framboðslisti í NV kjördæmi þar sem lengst var í konu fékk mest fylgi. Þeir listar þar sem styst var í konu á Alþingi fengu einungis einn mann kjörinn hver um sig. Eini listinn sem hafði konu í fyrsta sæti kom ekki manni á þing. Hvað segja þessi úrslit manni? Þau segja manni það að öllum almenningi er nákvæmlega sama um þetta kynjahlutfallsþrugl sem lítill jaðarhópur hamrar á sínkt og heilagt að sé það sem mestu máli skipti. Menn kjósa þá flokka og þá einstaklinga sem þeir treysta best. Vitaskuld eru hæfustu einstaklingarnir valdir til að leiða lista til kosninga til Alþingis hverju sinni, sama hvort þar eru á ferðinni konur eða karlar. Það er ekki flóknara.

Það var ekki beint upplífgandi að sjá handhafa bleika steinsins brosa vandræðalega upp í myndavél Moggans í tilefni dagsins. Það var eins og þeir væru sekir um eitthvað.

Engin ummæli: