sunnudagur, júní 03, 2007

Góður morgun með Vinum Gullu í morgun og sóttir rúmir 20 km. Ég finn ekkert fyrir neinu í fótunum lengur en smábólga í hægri ilinni hélt lengst út eftir Borgundarhólm. Nú kallar Esjan því það styttist í Laugaveginn.

Það fór eins og við var að búast að Bændasamtökin máttu greiða þeim sem fengu ekki að gista hjá þeim í marsbyrjun skaðabætur til að sleppa frá þessari vandræðalegu og vanhugsuðu uppákomu. Þetta ætti vonandi að kenna fólki að það er ekki heillavænlegt a láta móðursjúkt forsjárhyggulið ráða ferðinni við ákvarðanatöku. Að einhverjir sem sitja heima við tölvuna séu farnir að móta ákvarðanatöku hjá fyrirtækjum út í bæ er náttúrulega alveg fáránlegt. Ef einhverjir voru ósáttir við komu þessa hóps hefði verið mjög eðlilegt að þeir hinir sömu hefðu mótmælt í garranum á Hagatorginu. Líklega hefði það þó verið of erfitt, það er þægilegra að blogga. Það er síðan ósköp vandræðalegt yfirklór að það að greiða Snowgatheringliðinu penigna hefði ekki falið í sér neina viðurkenningu á sekt. Það segir sig sjálft að fyrirtæki eru ekki að greiða einhverjum peninga án dómsúrskurðar nema af því að þeir eru hræddir um að þurfa að greiða enn meira ef málið hefði farið fyrir dómsstóla. Það er ekki flóknara.

Gott viðtal við Björgu Evu Erlendsdóttur fréttamann í Blaðinu í gær. Hún er að hætta á RÚV eftir margra ára starf þar og gerir viðskilnaðinn upp á ákveðinn hátt. Björg Eva er einn af þeim tiltöluega fáu fréttamönnum sem maður hefur borið ber traust til, sérstaklega af því að hún féll yfirleitt ekki í þá gryfju að blaðra eitthvað út í bláinn heldur var fagleg í vinnubrögðum. Það er því miður of sjaldgæft.

Á Laugardagsvellinum hefur Mogginn átt sinn sess síðan ég kom fyrsta á völlinn. Mogginn var með auglýsingu sitt hvoru megin við markatöfluna. Nú hefur orðið þar breyting á. Mogginn er horfinn en Drottinn allherjar, sjálfur Coke Zero kominn í staðinn. Eftir leikinn í gær stóð bretti af Coke Zero úti á stétt og vallargestir gátur tekið með sér kippu til að hafa með kvöldmatnum. Svona er nú Coke góður en manni er spurn hvar er manneldisstefna KSÍ. Er kókið það sem menn vilja helst halda að unglingunum sem spila fótbolta. Það var að sjálfsögðu ekkert minnst á að það eru sívaxandi grunsemir um að rotvarnarefnin í Coke geti haft áhrif á heilsu þeirra sem neyta mikils kóks. Líklega eru allar gostegundir undir sama hatti vegna mikillar notkunar á litar- og rotvarnarefnum. Í USA er kók gjarna notað til að hreinsa götur eftir mikil umferðarslys. Kókið leysir blóðið svo vel upp. Ég hef einungis drukkið eitt glas af kóki síðan árið 1980. Það er vel.

Á Spáni sá maður ekki þessa yfirþyrmandi auglýsingamennsku með kók eins og hér þykir sjálfsögð. Maður sér heldur ekki veggjakrot á öðru hverju húsi við Römbluna eins virðist vera sjálfsagt mál í miðbæ þorpsins Reykjavík. Það er margt hægt ef vilji er fyrir hendi.

Engin ummæli: