föstudagur, desember 19, 2008

Augun á manni eru að opnast meir og meir. Margt grunaði mann svo sem án þess að einhver sönnun væri fyrir hendi en annað kemur manni algerlega á óvart. Ég hafði t.d. alltaf talið Reyni Traustason heldur jarðbundinn kall sem hefði unnið sig áfram á nokkuð eftirbreytniverðan hátt. Hann er inni í mörgu eins og gefur að skilja og hefur ákveðið töffaralúkk með hattinn. En það skal lengi manninn reyna. Fyrst skýtur hann sig í báðar lappirnar þegar hann verður uppvís að lygum og tilraun til að rýja blaðastrák ærunni. Það hlýtur eitthvað að hafa gengið á áður fyrst blaðastrákurinn telur ástæðu til að taka upp samtöl sín við ritstjórann. Maður gæti rétt ímyndað sér andrúmsloftið á vinnustaðnum ef maður væri að laumast til að setja diktafón í gang í hvert sinn sem maður talaði einslega við yfirmann sinn. Slíkt gengi nátturulega ekki. Þetta sýnir bara andrúmsloftið á DV. Bjarni Brynjólfsson fyrrverandi ritstjóri Séð og Heyrt skrifar yfirgripsmikla grein á Eyjuna í dag. Þar kemur fram góð innsýn í plottið sem lagt var upp með svo Baugsliðið næði undir sig öllum tímaritamarkaðnum. Stofnun Ísafoldar, blaðsins sem kom bara út í nokkur skipti og Reynir ritstýrði, var ákveðinn millileikur í þeirri fléttu allri. Reynir og strákurinn hans eru ekkert annað en peð á taflborði Baugsfeðga. Svo skrifar þetta leiguþý þjóðníðinganna ritstjórnargrein í blaðið þar sem þeir biðjast afsökunar á því að hafa ekki staðið sig nógu vel í að vera krítiskir á útrásarvíkingana á undanförnum mánunðum og misserum. Það er ekki að ástæðulausu að ritstjórinn hefur fullt traust eigendanna enda þótt hann væri búinn að fyrirgera öllum rétti til starfans ef um væri að ræða dagblað sem rekið væri á normal forsendum.

Jói gamli vælir yfir sendingunni sem Samkeppnisstofnun sendi honum í dag og segir að það sé búið að spilla fyrir sér jólagleðinni. Hann ætti að velta aðeins fyrir sér stöðu þeirra 10.000 sem hefur verið sagt upp störfum og eru án atvinnu næstu misserin eða árin. Hann ætti aðeins að velta fyrir sér þeim 93 milljarða niðurskurði á fjárlögum sem verður gerður fyrir árið 2010, verðbólgunni, hruni krónunnar, gríðarlegri kaupmáttarskerðingu, risavöxnum þjófnaði úr lífeyrissjóðunum og því að íslendingar eru metnir sem óreiðufólk meðal nálægra þjóða. Þökk sé honum, syni hans ásamt fleirum. Það er svo mikið víst að það er ekki bara Jói gamli einn sem hefur einhverjar áhyggjur yfir jólin og flestir hafa meiri ástæðu til þess en hann. Leigupennar Baugsveldisins hjá 365 byrja strax sönginn um að þetta séu þakkirnar fyrir að hafa haldið vöruverði niðri sl. 20 ár. Mýtan um litlu búðina sem seldi vörur á lægra verði en aðrar er löngu horfin. Nú hefur hún breyst í risavaxinn auðhring sem heldur þjóðfélaginu í heljargreipum og sýgur úr því allt blóð.
Ég hef tekið þá principákvörðun að versla ekki í Baugsbúðum ef ég mögulega kemst hjá því. Mér er alveg sama þótt ég borgi eitthvað meira fyrir það sem ég kaupi.

Engin ummæli: