föstudagur, desember 26, 2008
Fór út í morgun upp úr kl. 9.00 og vestur á Eiðistprg. Hitti Vini Gullu í miðbænum og þar voru teknar nokkrar slaufur fram og til baka og síðan halfið til baka inn í Laugar. Orwll kom með mér heim og lengdi aðeins. Alls lágu 25 km í fínu veðri. Ég hef ekki hitt Orwell síðan í nóvember. Hann sagði mér frá því seint í október að kílóunum væri aðeins farin að fjölga. Hann vinnur við hreinsanir á götum og ruslakössum svo hann fer upp síðla nætur. Um morguninn er svo morgunmatur sem samanstendur mest af rúnnstykkjum og áleggi. Margir borða lítið þegar þeir vakna og eru svo orðnir glorhungraðir þegar kemur að morgunmatnum. Þá er rúnnstykkjunum rutt í sig með fyrirsjáanlegum afleiðingum. Þau hlaðast utan á skrokkinn og vilja ekki fara aftur. Orwell var búinn að bæta nokkrum kílóum á sig og það var farið að hafa áhrif á hlaupin. Sporin voru þyngri og allt heldur erfiðara. Við vorum að tala um þetta í haust og ég sagði honum hvað ég hefði gert í þessum málum. Burt með allt draslfæði, hvítt hveiti, sykur, gos, kökur, kex, brauð að mestu, sælgæti, óþarfa kolvetni og unnar matvörur. Bara almennilegan basmat. Kjöt, fisk, ávexti og grænmeti og mikið af því. Síðan þarf að borða góðan morgunmat og þar má vera slatti af kolvetnum en þau þurfa að vera góð. Hunang, rúsínur, hafragrautur, speltflögur með skyrslettu samanvið er steypa sem bregst ekki. Ég gat ekkert fullyrt um árangur en sagði að þetta hentaði mér vel. Bara að borða nógu mikið af góðum mat en sleppa öllu rusli. Orwell var til í að prufa og ætlaði að vikta sig um síðustu mánaðamót. Ég hef ekki hitt hann fyrr í desember svo það var spenna að heyra hvernig allt hefði gengið fyrir sig. Orwell var himinlifandi. Í nóvember fóru tæp 5 kíló og honum líður miklu betur að öllu leyti. Hann sagði að konan sín hefði sett upp snúð til að byrja með þegar kallinn var farinn að vera kræsinn á eitt og annað sem áður hafði flokkast undir venjulegan mat. Það viðhorf hvarf fljótt þegar hún sá hvað þetta gerði honum gott. Nú er hún orðinn helsti bakhjarl hans þegar verið er að segja við hann í fjölskylduboðum að það sé bara vitleysa að borða ekki kökur eða kruðerí. Eitt fannst mér einnig mjög athyglisvert. Reynsla hans var sú sama og mín að hann var farinn að fara miklu sjaldnar á klósettið á nóttunni. Hann hafði þurft að passa sig að drekka ekki mikið eftir kvöldmat til að þurfa ekki að vera alltaf að rápa á klósettið á nóttunni með tilheyrandi ónæði og svefnrofum. Það hefur minnkað verulega og verður gaman að sjá hvernig það þróast á næstu mánuðum. Þetta er ekki átak heldur spurning um lífsstíl til frambúðar.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli