Nú er hríðin skollin á. Nú fer almenningur að byrja að átta sig á hvað hrun efnahagslífsins hér á landi kemur til með að kosta venjulegt fólk. Óðaverðbólgan liggur fyrir. Gengishrunið er staðreynd. Þetta þýðir miklar verðhækkanir á almennri neysluvöru. Til viðbótar koma skattahækkanir. Beinir skattar munu hækka. Óbeinir skattar munu hækka. Gjaldskrár munu hækka. Kaupmáttur rýrnar gríðarlega á næstu misserum. Samdráttur verður í verkefnum ríkis og sveitarfélaga. Framkvæmdir munu dragast saman. Þjónusta verður skert. Öll teoría segir að það eigi að hækka skattana í góðæri en lækka þá eftir föngum í harðæri. Það heitir að jafna hagsveifluna. Manni sýnist þetta séa lveg öfugt hérlendis. Skattar voru lækkaðir í góðærinu. Bæði beinir skattar og óbeinir skattar. Virðisaukaskatturinn af matvælum var lækkaður og átti það að þýða lækkun matvælaverðs til neytenda. Raunin varð hins vegar sú að mestur eða allur hluti lækkunarinnar datt niður í vasa kaupmanna þegar frá leið. Á tímum óðaverðbólgu er allur útreikningur um slíka hluti fyrir löngu kominn út um gluggann.
Ég fékk í dag bréf frá lífeyrissjóðnum sem hefur forvaltað viðbótarlífeyrissparnaðinn. Hann hefur rýrnað um reiðinnar býsn á árinu. Ég var vægt sagt ósáttur hvernig niðurstaðan er lögð fram. Allstaðar er talað um nafnávöxtun og nafnverð. Það þýðir með öðrum orðum að ekkert er reiknað með áhrifum verðbólgunnar. Ef nafnávöxtun í ár er 5% þýðir það í raun ekki undir 10% verðrýrnun vegna þess að verðbólgan er 15%. Ef nafnávöxtun er til lengdar undir verðbólgustiginu þýðir það til lengri tíma litið að peningarnir hverfa alveg. Gjörsamlega. Þetta þekkja allir sem lifðu verðbólgutímana fyrir 1980. Fólk lagði sem svaraði 10 kýrverðum inn á reikning og tók út nokkrum árum seinna sömu upphæð sem var virði 10 smákálfa. Það er verðrýrnun í raun ef það skilst betur með svona dæmum.
Kastljósið var áhugavert í kvöld. Fréttamennirnir geta ekki lengur talað um eitthvað kjaftæði. Bloggumræðan lætur þá ekki í friði. Það má segja að hún hafi bjargað því sem bjargað hafi verið síðan í októberbyrjun. Þegar hún er orðin svo öflug að það er ekki lengur hægt að láta sem hún sé ekki til þá hundast hefðbundnu fjölmiðlarnir á vettvang. Hvar eru rannsóknartilburðir þeirra? Hvar er frumkvæðið? Þó má segja að Agnes á Mogganum sé ágæt undantekning frá reglunni.
DV olli mér gríðarlegum vonbrigðum í dag. Nú fóru þeir að senda Agli Helgasyni skeyti. Hann er bara með kverúlanta í viðtölum að þeirra mati. Það er eðlilegt að DV sé pirrað því eigandinn hefur ekki verið látinn í friði. Silfrið eru engar eyrnasleikjur lengur eins og var hér áður þegar í stórum dráttum sama liðið sat og kjaftaði hvert upp í annað helgi eftir helgi. Þegar ég er að hlaupa úti á morgnana hlusta ég á Bylgjuna á stundum. Í gærmorgun var minnst á lífeyrissjóðina. Annar dagskrárgerðarmaðurinn minntist á þegar Baugur hótaði VR um að hann myndi stofna sérstakan lífeyrissjóð ef lífeyrissjóður VR myndi ekki kaupa hraustlega í fyrirtækjum Baugs. Dagskrárgerðarmaðurinn þorði ekki að nefna Baug á nafn heldur talaði um ónefnt fyrirtæki. Fjárfestingarstefna Lífeyrissjóðs VR hafði það meðal annars það í för með sér að lífeyrissjóður VR tapaði í haust um 20% af höfuðstól sínum eða um 80 milljörðum samkvæmt útreikningum glöggra aðila. Kárahnúkavirkjun kostaði um 100 milljarða.
Nú á að fara að afhenda Baugi auglýsingamarkaðinn í stórum dráttum. Þannig mun fyrirtækið ráða auglýsingamarkaðnum. Almenningur verður skattlagður með nefskatti til að bæta RÚV upp tekjutapið. Þótt það sé ekki gott að RÚV sé að böðlast um á auglýsingamarkaðnum þá er enn verra ef eitt fyrirtæki/einn vilji ræður öllu í auglýsingageiranum. Þegar stjórnvöld töpuðu fjölmiðlafrumvarpsslagnum hér um árið þá var brautin greið. Hvar skyldi þetta enda?
fimmtudagur, desember 11, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli