sunnudagur, desember 28, 2008

Sunnudagshlaup með Vinum Gullu. Fór rúma 20 km. Vel á minnst. Samkvæmt upplýsingum Jóa þá eiga Vinir Gullu 20 ára afmæli á næsta ári. Hann og Maggi eru byrjaðir að spekúlera i hvernig þeirra tímamóta verður minnst. Þrátt fyrir að þessi hópur sé svo gamall sem raun ber vitni þá er hann ekki talinn með í hinni ágætu hlaupadagbók Gunnars Páls sem ég blaðaði í gegnum í bókabúð í gær.

Samkvæmt öllum sólarmerkjum þá verður minna um utanferðir hlaupara á ári komenda en fyrri ár. Bretland er eiginlega eina landið sem ekki er algert brjálæði að heimsækja. Gengi krónunnar hefur einungis fallið um ca 40% gagnvart pundinu á árinu á meðan gengið gefur fallið um 100% og þaðan af meira gangnvart evru, dollar og norrænum gjaldmiðlum. það er því orðið rándýrt að fara til allra nálægra landa nema Bretlands, það er bara dýrt að fara þangað. Vegna þessarar stöðu er tækifæri til að hlú enn meir að innlendum hlaupum og nýta sér þau sóknarfæri sem felast í stöðunni.

Það eru ýmsir möguleikar fyrir hendi.

1. Það má auka veg fimmunnar. Pétri Reimarssyni datt í hug fyrir nokkrum árum að fara yfir hverjir hefðu árlega hlaupið öll maraþonin hérlendis (Marsmaraþon, Mývatn, Reykjavíkurmaraþon og Haustmaraþon) og Laugaveginn. Hann tók einnig saman hverjir náðu bestum tíma samanlagt á hverju ári af þeim sem náðu þessu marki. Ég hef t.d. einungis náð þessu einu sinni. Þessi samantekt hefur fengið minni athygli en ástæða er til. Það mætti veita þessu meiri athygli en verið hefur til þessa með því að þeim sem ná þessu marki verði veitt viðurkenning og þrír efstu af hverju kyni fái sérstaka viðurkenningu. Þarna er komið takmark sem getur hvatt fólk til dáða ef einhver vafi er á hvort tekið skuli þátt í hlaupi eða ekki. Það má gera kostnaðaráætlun yfir hvað viðurkenningarnar kosta og hlaupin gætu greitt einhverja lágmarksupphæð í sjóð sem myndi kosta viðurkenningarnar.

2. Fjallahlaupin.

Fjallahlaupin eru þessi það ég best veit: Laugavegurinn, Barðsneshlaupið, Jökulsárhlaupið, Þorvaldsdalsskokkið, Vatnsneshlaupið og Vesturgötuhlaupið. Það má veita sérstaka viðurkenningu til þeirra hlaupara sem fara að lágmarki þrjú (eða fjögur) af þessum hlaupum. Svona fyrirkomulag myndi vafalaust hvetja einhverja til þátttöku sem ella myndu ekki taka þátt í þeim.

3. Ultrahlaup:

Ultrahlaupin voru þrjú í ár: Laugavegurinn, 100 km hlaupið og sex tíma hlaupið. Það er spurning hvort 100 km hlaupið verður ekki árviss viðburður í ljósi aðstæðna. Annars er annaðhvort ár eðlilegt markmið. Ultrahlaupum má fjölga.
Það er verið að ræða um Hamfarahlaup sem er frá upptökum Jökulsár á fjöllum og til sjávar (eða til Ásbyrgis). Þessi leið er rúmlega 200 km. Spurning er hvort það verði hlaupið í einum rykk eða fleiri dagleiðum.
Haustlitahlaupið milli Flókalundar og Bjarkalundar var hlaupið óformlega í fyrsta sinn sl. sumar. Það yrði hlaupið á tveimur dögum. Hvor leggur væri um eða rétt yfir 65 km.
Norðmenn hafa sett upp sólarhringsprógram með 10 km hlaupum. Þá eru hlaupnir 10 km á braut einu sinni á hverjum þremur tímum. Sá sem hleypur alla 8 leggina á skemmstum tíma sigrar. Þetta er skemmtilegur valkostur sem má hlaupa síðla haust eða utan helsta hlaupatímans.

Norðmenn veita viðurkenningar fyrir ástundun í ultrahlaupum. Þeir veita þeim hlaupurum viðurkenningargrip sem hafa hlaupið 1.000 km, 5.000 km og 10.000 km samanlagt í formlegum ultrahlaupum. Viðkomandi þurfa að borga fyrir gripinn sem veittur er fyrir 1.000 km og 5.000 km en 10.000 km gripurinn er "on the house". Við eigum nú þegar 1.000 km menn. Með auknum fjölda ultrahlaupa hérlendis og auknum áhuga fyrir ultrahlaupum mun þeim fara fjölgandi. Vonandi nær einhver þeim áfanga hérlendis að hlaupa samanlagt yfir 5.000 km í ultrahlaupum. 10.000 km markið er ekki nema á færi einstaka afburðamanna sem byrja mjög snemma á ultrahlaupum.

Kynningarstarfsemi:

Það þarf að setja upp heimasíðu til kynningar hverjum flokki hlaupa sem talinn er upp hér að framan. Það verður að segja það eins og er að kynningarmál hlaupa hérlendis eru ekki til fyrirmyndar, vægt sagt. Eini staðurinn þar sem samantekið yfirlit er um þessi mál er á heimasíðu Torfa, www.hlaup.is. Hún er hins þeim takmörkunum háð að hún er alfarið á íslensku. Það er hinsvegar ekki hægt að ætlast til þess að einstaklingur sem vinnur gríðarlega gott sjálfboðastarf í þágu fjöldans annist svona hluti fyrir erlenda hlaupara alfarið á eigin spýtur. Það væri t.d. ekki mikið mál hjá ÍBR að setja upp upplýsingar um þessi mál á heimasíðu Laugavegshlaupsins (www.marathon.is). Margir erlendir hlauparar heimsækja þessa síðu og hún er í raun gluggi íslenska hlaupasamfélagsins út í heim. Það er nefnilega svo að hlauparar safna hlaupum og þeir safna löndum. Því miður er eiginlega útilokað fyrir erlenda hlaupara að komast að því hvenær maraþonhlaup eða lengri hlaup eru haldin hérlendis fyrir utan Reykjavíkurmaraþon og Laugaveginn.

Heimasíða fyrir hlaup í hverjum framantöldum flokki væri fínt framtak. Það þarf ekki nema eina síðu um hvert hlaup með lágmarksupplýsingum s.s. vegalengd, staðsetningu, tímasetningu og einni eða tveimur myndum. Texti mætti vera á íslensku, ensku og skandinavísku. Góður heimasíðumaður væri enga stund að setja þetta upp. Síðurnar geta verið staðlaðar að yfirbragði til að auðvelda verkið. Textagerð og myndasöfnun yrði örugglega unnin af mörgum viljugum höndum sem ynnu létt verk. Þýðingar texta eru á margra færi. Það þarf að setja málið í farveg og kalla lykilmenn til starfa, þá væri því borgið. Ef svona síða væri til staðar er ekkert mál að senda upplýsingar um hana til hlaupasíðna í nálægum löndum. Áhrifin yrðu örugglega umtalsverð.

2 ummæli:

Starri Heiðmarsson sagði...

Sæll Gunnlaugur!

Þú mátt ekki gleyma Þorvaldsdalsskokkinu sem hefur verið þreytt óslitið síðan 1994 að frumkvæði Bjarna Guðleifssonar. Við höfum reyndar gert tilraunir til að lokka að erlenda hlaupara með sorglega litlum árangri en hugsanlega vantar þar meiri markaðsþekkingu?! Hlaupið hefur heimasíðu: www.umse.is/thorvaldsdalur sem einnig má finna á sænsku: www.umse.is/se. Enska síðan er enn í vinnslu og hefur því miður verið full lengi í því ástandi.
bestu kveðjur

Nafnlaus sagði...

Sæll Starri og takk fyrir ábendinguna. Auðvitað átti ég að muna eftir Þorvaldsdalsskokkinu. Ég hef þá trú að ef við vinnum skipulega og sameiginlega að því að kynna þá valkosti sem upp á er boðið í hlaupum hérlendis þá séu meiri líkur á að vekja athygli út fyrir landssteinana heldur en þegar hver er að bauka í sínu horni.
Mbk
Gunnlaugur