laugardagur, desember 20, 2008

Fór út kl. 7.30 í morgun. Hitti Jóa, Kristínu, Sigurjón og Stebba við brúna yfir Kringlumýrarbrautina. Fínt veður og búið að ryðja. Fórum út á Eiðistorg og þaðan inn í Laugar með viðkomu á málverkasölu í miðbænum. Búið að skipta út ljótu vatnslitamyndunum og búið að setja upp betri myndir. Við Sigurjón og Stebbi töldum okkur fullfæra í málabransann ef við hefðum svo sem þrjár rúllur, striga og nokkrar litadósir. Jói var ekki alveg sannfærður. Við fórum svo inn í Laugar, tókum hringinn inn í Elliðaárdal og fórum svo út að brúnni aftur. Á leiðinni til baka voru stórir hópar á ferðinni, bæði úr Kópavognum og úr Árbænum.

Sá í Mogganum í morgun að Glitnisbankastjórinn er að reyna að réttlæta hlutabréfaheppnina upp á 180 milljónir með því að hún hefði verið veik sl. sumar. Fréttin snerist um þetta í Mogganum en í tvígang sagði konan að hún væri alls ekki að afsaka gleymskuna með veikindunum. Sem þýðir að hún er ekkert annað en að reyna að afla sér samúðar á þennan heldur aumkvunarverða hátt. Ég veit ekki betur en bankar telji að fólk þurfi að standa við skuldbindingar sínar enda þótt það verði veikt. Ég efa að Glitnir telji slíka ástæðu gilda fyrir niðurfellingu skulda.

Sé að það á að selja nokkra sendiherrabústaði á næst mánuðum. Það er gott. Óvíða hefur bruðlið og ruglið hjá ríkinu farið með himinskautum eins og í utanríkisþjónustunni. Það var ekkert nógu gott nema flottustu húsin í dýrum hverfum. Kostaði ekki húsið í berlín nær milljarði? Eitthvað álíka kostaði húsið í Japan. Hvernig á þetta að vera hægt hjá smáþjóð sem telur um 300.000 manns? Hvaða tilgangi þjónar það að hafa sendiráð út um allar koppagrundir? Ég vildi sjá ársskýrslu sendiráðanna hjá utanríkisþjónustunni. Hver er tilgangurinn, hver eru markmiðin, hver er uppskeran? Þetta eru spurningar sem verður spurt við næstu fjárlagagerð þegar niðurskurðurinn verður af alvöru. Fólk er ekki farið að sjá neitt ennþá sem heitið getur.

Maður getur ekki annað en fyllst tortryggni þegr verið er að afskrifa skuldir fyrirtækja og færa þau aftur svokölluðum "eigendum" sínum sem voru búnir að skuldsetja þau upp úr öllu valdi. Milestone dæmið er dúbíus. Nú á að dreifa skuldunum yfir á herðar almennings og færa eigendunum þannig gríðarlegar fjárhæðir fyrir verra en ekki neitt. Ef það er talið réttlætanlegt að afskrifa skuldir fyrirtækjanna og gera þau rekstrarhæf á nýjan leik á þá ekki að auglýsa þau til sölu í þeim tilgangi að reyna að fá eitthvað fyrir þau frekar en að gefa þau.

Það verður að fara að taka saman heildaryfirlit um stöðu ríkissjóðs þannig að fólk getir áttað sig á framtíðinni. Hverjar eru skuldbindingarnar, hver verður greiðslubyrðin og hvenær þarf að borga. Hvað þýðir þetta fyrir venjulegt fólk? Hvernig verður staða sveitarfélaganna á næstu árum? Það er mörgu ósvarað.

Engin ummæli: