sunnudagur, desember 21, 2008

Þegar Sveinn og nokkrir félagar hans úr Réttó byrjuðu i MR fyrir nokkrum árum þá varð sú stefna ráðandi hjá þeim að fara ekki alfaraleiðir heldur þær leiðir sem þeir sjálfir kusu. Þeir stofnuðu meðal annars Nördafélagið í MR. Félagið stóð helst fyrir því sem öðrum fannst mjög nördalegt. Þeir héldu eitt sinn skólakeppni í Pókemín. Þeim til undrunar komu um sjötíu manns á mótið. MIkill success. Þeir buðu nýnemum upp á mjólk og skúffuköku og sungu barnalög fyrir þá þegar aðrir móttökuhópar buðu upp á eitthvað sem var heldur sterkara. Nördafélagið varð með árunum eitt helsta költfélagið innan MR. Þarna náði saman hinn ágætasti hópur innan skólans sem hefur haldið sjó saman síðan. Þegar menntaskólaárunum lauk þá þurfti eitthvað annað að taka við eftir að Nördafélagið var að baki. Þetta var á þeim árum þegar veldi útrásarvíkinganna reis sem hæst og almenningur hleykslaðist sem mest á Baugsmálssókninni og tilraunum stjórnvalda til að setja fjölmiðlalög. Hópnum þótti því mjög við hæfi að kalla félagið Söllenbergers. Eitt sumar spilaði Söllenbergers í utandeildinni í fótbolta og lét gera sér sérstakan fótboltabúning í tilefni þess. Merki félagsins er Bónussvínið bak við rimla. Söllenbergers yfirtók og hefur viðhaldið söngbók nördafélagsins. Síðan urðu félagsmenn faglegri og fóru að fjárfesta í nafni félagsins. Það þótti hins vegar vera diskútabelt að Söllenbergers væri á kennitölu eins félagsmanns þegar þeir voru sumir hverjir orðnir starfsmenn stóru bankanna fyrrverandi. Því var félagið skráð formlega hjá Hagstofunni til að fá kennitölu fyrir það. Markmið félagsins var sagt vera iðkun fótbolta og fjárfestingar. Hagstofunni varð um og ó þegar í dagskrá aðalfundar var tiltekið að aðalfundi lyki á almennum gleðskap eftir að hefðbundnum aðalfundarstörfum væri lokið. Stofnunin neitaði að skrá félagið nema þessi ósvinna væri strikuð út úr lögum þess. Þetta gekk allt saman upp og Söllenbergers er nú formlega skráð í firmaskrá Hagstofunnar. Reyndar breytti Hagstofan nafni félagsins í Áhugamannafélagið Söllenbergers. Ekki skil ég hvaðan Hagstofunni kemur réttur til að breyta nafni félaga sem á að skrá í firmaskrá. Hvernig er með félögin FX37, FX38 o.s.frv. Ætli hafi verið gerð athugasemd af Hagstofunni við þessi nöfn? Varla. Eftir að háskólaárunum lauk hér heima hafa félagsmenn dreifst um heiminn til að mennta sig enn frekar. Edinborg, Boston, Seattle, Toronto, New Jearsey, Uppsalir og Kaupmannahöfn. Sumir Söllenbergeranna gátu valið úr bestu háskólum Bandaríkjanna. Söllenbergerarnir eru fyrst og fremst raungreinamenn. Verkfræðingar, stærðfræðingar, hagfræðingar og eðlisfræðingar.

Nú fyrir jólin þótti nauðsynlegt að halda fyrstu formlegu jólaveislu Söllenbergers þegar félagarnir streymdu til landsins í jólafrí. Þrjátíu manna veisla var undirbúin með bravör. Einhverjum datt í hug að fá leynigest í veisluna. Það kom náttúrulega ekki nema einn til greina. Einungis örfáir vissu hvað til stóð. Það datt því andlitið af flestum veislugesta þegar bjöllunni var hringt og hinn eini sanni Jón Gerald gekk inn. Að sögn var hann á báðum áttum þegar hann fékk tölvupóst um boðið en ákvað að slá til og kíkja við. Hann bjóst helst við að þarna væru einhverjir grínistar sem hefði þótt fyndið að stofna svona andófsklúbb með þessu nafni eftir að bankarnir hrundu. Honum kom í á óvart að þarna var á ferðinni nokkurra ára gamall klúbbur með alvöru fólki. Klúbburinn gat meðal annars framvísað notuðum fótboltatreyjum með mynd af Bónussvíninu bak við rimla sem staðfestingu á fortíð sinni. Jón Gerald stoppaði lengi við hjá Söllenbergerunum og það bar margt á góma. Söllenbergerarnir hafa ekki sagt sitt síðasta orð.

Fór út í morgun um 8.30. Tók Poweratehringinn og hitti svo Vini Gullu niður í Laugum. Fórum vestur á Suðurgötu og svo austur. Við Gauti tókum fínt rennsli síðustu 5 kílómetrana. Alls lágu 29 km.

1 ummæli:

Unknown sagði...

Skemmtileg saga sem á eftir að koma við sögu í bók eftir 30-40 ár. Þetta er svona Þorbergar/Laxness-legt!