fimmtudagur, desember 04, 2008

Fyrir rúmum þremur árum tókum við eldhúsið í gegn hér í Rauðagerðinu. Til að geta borgað allt út þá tókum við lán hjá LSR upp á eina milljón. Til að fá láni þurfti maður að fara í greiðslumat. Það var ekki gert hjá LSR heldur þurfti ég að fara upp í Kaupþing í Árbænum og fá það gert þar. Greiðslumatið kostaði 10.000 kr. Ég fór með skattframtöl þriggja ára og lét einhvern virðulegan ráðgjafa fá pappírana. Nokkrum dögum seinna sótti ég greiðslumatið. Ég avr ekki spurður að einu eða neinu varðandi einkanayslu eða rekstrarkostnað heimilisins heldur var einungis unnið út frá þeim tlum sem á skattframtalinu voru. Niðurstaða þessa greiðslumats var að ég gæti tekið um 14 milljónir að láni til viðbótar við þau lán sem hvíldu á íbúðinni. Ég sagði fólkinu hjá LSR að aðra eins andskotans vitleysu hefði ég aldrei séð í áætlanagerð og var hundfúll yfir að hafa þurft að borga 10.000 kall fyrir bullið. Auðvitað tók ég bara þessa einu milljón sem mig vantaði (og það er búið að endurgreiða hana að fullu).

Ég hef unnið það mikið við áætlanagerð að ég veit að það er út í hött að setja einhverjar tölur á blað fyrir lifandi fólk og afhenda þvi niðurstöðuna sem einhvern stórasannleik án þess að glöggva sig neitt á persónulegum aðstæðum. Hvað þýðir það inn í framtíðina ef maður spennir bogann til hins ítrasta? Hverju þarftu að afsala þér? Ertu reiðubúinn til þess í einhverja áratugi? Hvert er áhættustigið þegar maður tekur hámarkslán? Þessum og fleiri álíka spurningum verður ráðgjafinn að leita svara við í samvinnu við þann sem er að spekúlera í að taka hátt lán. Ég fékk það á tilfinninguna að þessi svokallaði ráðgjafi væri í því hlutverki að lokka fólk til að taka sem hæst lán. Síðan hef ég heyrt sem ég vissi ekki þá að þessir "ráðgjafar" voru á prósentum.

Ef ég hefði verið eðlilegur þjóðfélagsþegn þá hefði ég að sjálfsögðu tekið eins hátt lán og ég hefði getað og keypt mér enn stærra hús og jafnvel jeppa í leiðinni. Margir hefðu fyllst aðdáun á hvað maður spjaraði sig vel.

En hvernig stæði ég í dag ef ég hefði fylgt ráðum "ráðgjafans"? Ég hefði kannski keypt mér íbúð fyrir þremur árum sem hefði farið hæst að verðmæti um 60 milljónir. Lánið myndi standa í dag í ca 27 - 28 milljónum. Á næsta ári kemur verðfall á fasteignamarkaðnum fram að fullu. Svona hús munu falla um allt að helming í verði. Það munu líða mörg ár þar þangað til húsnæðisverð fer að rísa aftur vegna þess hve mikið er af tómum íbúðum á markaðnum. Miðað við þetta þá hefði ég orðið eignalaus á næsta ári. Lánið stæði í álíka fjárhæð og verð íbúðarinnar væri á pappírnum. Mjög líklegt er að það væri illseljanlegt, jafnvel óseljanlegt. Ég væri þá fangi hér í húsinu og væri að rembast við að halda því. Kannski væri best við slíkar aðstæður að hætta að borga og fara að leigja. Maður væri þá ekki að tapa meiru en maður ætti og þættist jafnvel góður að sleppa á sléttu.

Þetta er svona dæmi um hvaða rugl var í gangi. Húsnæðisverð var kjaftað upp í innihaldslausri verðbólu. Maður stendur á krossgötum og ein einasta ákvörðun ræður úrslitum um hvort maður sé með fjármálin í þokkalegu jafnvægi eða með allt í uppnámi. Ráðgjafar eiga að vera til þess að leiða fólki í allan sannleik um mögulegar afleiðingar slíkra ákvarðana. Misviturt fólk fékk hins vegar laun fyrir að ljúga að almenningi eða í besta falli að segja því hálfsannleik.

Eg heyrði í gærkvöldi að eftir morgunfundi í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hér í árdaga þá hefðu fundarmenn staðið upp, myndað hring og öskrað: "Græða, græða." Þetta hefur verið eins og í Víetnamstríðinu þegar verðandi hermenn Bandaríkjanna öskruðu "Drepa gula djöfla" þangað til augun ætluðu að springa út úr hausnum á þeim.

Engin ummæli: