mánudagur, desember 15, 2008

Það var fínt viðtalið við Bibbu og Ásgeir í íþróttaþættinum í kvöld. Kominn tími til að fá almennilega umfjöllun um það sem er að gerast í þessum málum. Það hefur orðið sprenging í Ironman í ár og víst er að það fylgja margir á eftir. ég ætlaðið að fara með járnbræðrum til Barcelona næsta sumar en ég veit ekki hvað verður, peningamálin eru orðin verulega takmarkandi þáttur. Ég geri ráð fyrir að velja keppni sem liggur eins nálægt og hægt er þegar ég læt slag standa, hvenær sem það verður.

Það var snautleg uppákoma í sambandi við rítstýringu DV í dag. Það kom upp á yfirborðið sem margir ætluðu að eigendurnir eru með puttana í fréttaflutningi blaðanna. Bæði beint og óbeint. Starfsmenn vita hvað bíður þeirra ef þeir eru óþægir og passa sig ekki. Ég hef vitað þetta lengi eða síðan ég fór að vesenast í blaðberamálunum. Þá var mér sagt hreint út að ef blaðamenn færu að skrifa um málefni blaðburðarbarna færu þeir á svartan lista. Þeir ættu þá erfiðara með að fá vinnu ef þeir þyrftu á að halda. Því skrifuðu þeir frekar um allskonar bull og kjaftæði frekar en að skrifa um þá barnaþrælkun sem viðgekkst hjá blaðburðarbörnum og ruddaskap Fréttablaðsins út í blaðberana. Ég þurfti að kæra þá fyrir Vinnueftirlitinu með óyggjandi sönnunum til að þeir hættu að ráða allt niður í 7 ára gömul börn til að bera út allt að 60 kg af blöðum á einum klukkutíma. Blaðamenn hefðu einnig mátt skoða aðkomu verkalýðshreyfingarinnar að málefnum blaðbera. Hún var allrar athygli verð. Það var svo merkilegt að á stundum var maður var við það sjónarmið að það væri bjánalegt af manni að vera að vesenast í þessum málum. Bæði hefði ég enga ástæðu til að vera að skipta mér af þessu og einnig trúði fólk því tæpast hvernig framkoma Fréttablaðsliðsins var í raun og veru. En vitaskuld voru miklu fleiri sem voru ánægðir með þetta. Ég sé það hin seinni ár að það er hætt að hlaða á blaðburðarkrakkana ótæpilegu magni af auglýsingabæklingum. Það er vel að það gerist eitthvað.

Engin ummæli: