Ég bara man ekki hvenær ég keppti síðast í 10 km hlaupi. Líklega hefur það verið í Powerate á vordögum 2006. Síðustu tvo vetur hef ég ekki hlaupið neitt einasta Powerate hlaup vegna ýmissa ástæðna. Gamlárshlaup hljóp ég hvorki í fyrra né hitteðfyrra. Það var því kominn tími til að rifja þetta upp. Nær 800 hundruð keppendur voru mættir sem er stórkostlegt. Þegar ÍR hlaupið byrjaði fyrir 33 árum var gert grín að þeim sérvitringum sem væru að hlaupa á götunum að ástæðulausu. Nú hefur orðið vakning í almenningsíþróttum sem sýnir sig í götuhlaupunum. Nær 200 fleiri keppendur en í fyrra. Mogginn sagði frá hlaupinu á íþróttasíðu í morgun og RUV var á staðnum í byrjun hlaups og við lok þess. Megi gott á vita. Veðrið var fínt og gatan greið. Ég var mjög aftarlega í hópnum þegar flugeldurinn fór á loft og fór því hægt af stað. Ég ætlaði ekkert að sperra mig neitt sérstaklega og maður fór ekki að hlaupa af viti fyrr en búið var að beygja fram hjá Hótel Borg. Þá fann ég tempóið sem passaði og rúllaði á því sem eftir var. Mér leið of vel þegar í mark var komið og hef því ekki lagt nógu mikið á mig. Maður á ekki að forðast sársaukann heldur sækjast eftir honum. Tíminn var ágætur eða um 43.40. Miðað við að inni í þessum tíma er "göngutúr" frá Landakotskirkju niður að Hotel Borg get ég ekki verið annað en ánægður.
Jói og Kristín voru með gamlársdagssamkomu í Ingólfsstræti eftir hlaupið. Mikill myndarskapur eins og þeirra er von og vísa.
Samkvæmt hlaupadagbók Stefáns þá lágu 4822 km á árinu og rúmlega 700 km voru farnir á hjóli. Það eru rúmir 13 km að jafnaði hvern dag ársins eða þrír hringir umhverfis landið. Í fyrra hljóp ég samtals rúma 3000 km sem var lengsta nokkru sinni. Þetta er því nær 60% aukning á hlaupamagni milli ára. Þrátt fyrir að álagið hafi aukist verulega í ár þá er allt í himnalagi með skrokk og fætur. 7 - 9 - 13. Miðað við það er ekki annað að gera en að pjakka ótrauður áfram.
miðvikudagur, desember 31, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Ég er fullviss að þú getur farið undir 40 mín í 10km með réttum æfingum og undirbúningi. Það er hins vegar erfitt þegar keppnishlaupin þín eru margfalt lengri :-)
Skrifa ummæli