mánudagur, janúar 12, 2009

Frídagur í dag og ekkert hlaupið.

Það var mögnuð frétt sem ritarinn lanseraði í dag. Bryndís Svavarsdóttir er búin að ná 100 maraþonum. Þessu hefur hún verið að hala inn í rólegheitum, hægt og sígandi. Góðir hlutir gerast hægt. Næsti maður á listanum er með 63 þon, líklega Eiður. Þetta er magnað afrek hjá Bryndísi. Fróðlegt verður að sjá hvort þetta afrek hennar verður flokkað í fjölmiðlum með snjóruðning og aflabrögðum (með fullri virðingu fyrir þeim fréttum), ef það verður þá yfir höfuð flokkað á annað borð. Börlkur benti á að fréttin um að opnað hefði verið fyrir skráningu fyrir Laugaveginn væri flokkuð undir fréttir af fólki á arkívi Moggans. Það væri gaman að fá á hreint hvort það sé ritstjórnarstefna blaðsins að ultrahlaup séu ekki íþróttir heldur eins og hvert annað firmasport. Eitthvað sem fólk er að dútla við að gamni sínu án nokkurar alvöru. Ég held að þeir ættu þá sjálfir að spreyta sig á að hlaupa Laugaveginn undir sex tímum eins og fjöldi fókks gerir. Ætli þeir væru ekki orðnir nokkuð rasssíðir undir það síðasta þegar komið væri að Kápunni.

Það ætti að vera skylduáhorf á viðtalið við Robert Wade sem var í Kastljósinu í kvöld. Þessi maður var hæddur og smáður af stjórnmálamönnum og fræðimönnum hérlendum á árinu 2007. Því miður kom allt fram sem hann taldi að myndi gerast. Því ekki að taka mark á honum nú í annað sinn þegar hann tjáir sig um málefni þjóðarinnar. Hermundur spámaður sagði einnig á Útvarpi Sögu í haust að ástandið yrði fyrst slæmt fyrir alvöru þegar líður að voru. Hvað gerist þá? Ríður Tsunami gjaldþrota yfir þjóðina. Bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Besta aðferðin til að sjá fyrir um framtíðina er að gera áætlanir. Þá kemur alla vega minna á óvart en ef maður reynir ekkert að segja til um framtíðina.

Fyrir 110 árum skrifaði Benedikt Gröndal: "Íslendingar þjást af "Storhedsvanvid", þess vegna er allt eins og það er" Það hefur greinilega ekkert breyst. "Storhedsvanvid" getur verið kostur en það getur einnig leitt mann beint ofan í díkið eins og dæmin sanna. Vegna þessa króniska eiginleika þjóðarinnar þá mun ekkert breytast, sama hvað gengur á.

Á Rotaryfundi í kvöld var myndasýning frá Galapagos eyjum. Það væri gaman að komast einhvern tíma þangað með myndavélina og nóg af minniskubbum.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Einn af punktunum sem prófessor Wade kom með í viðtalinu snérist um fjölda byggingarkrana á höfuðborgarsvæðinu árið 2007. Það leiðir hugan að lóðasamkeppninni á milli sveitarfélagana á höfuðborgarsvæðinu og fjárhagsstöðu þeirra nú þegar byggingar standa auðar og fólk og fyrirtæki eru að skila lóðum í stórum stíl.

Sagt er að aðalástæðan fyrir því að sveitarfélög í Bretlandi hafi farið svona illa út úr því að treysta okkur fyrir peningunum sínum sé að gefið hafi verið út dírektív af bresku ríkisstjórninni um að sveitarstjórnum bæri að ávaxta sem allra allra best peninga sem ekki væru notaðir strax. Flestar brugðust við með því að leggja peningana inn á örugga hávaxtareikninga hjá bönkum sem fengið höfðu vottun hjá virtum matsfyrirtækjum þ.m.t. IceSave!

Á visi.is er vitnað í umfjöllun um vini okkar í nágrenni Grimsby. Þar stendur m.a. að þeir hafi verið látnir vita að skuldatryggingarálagið á Landsbankanum væri að hækka eða lánshæfismatið að lækka. Síðan stendur: „Í ljós hefur komið að forráðamenn sveitarfélagsins skildu ekki þessar aðvaranir frá ráðgjöfum sínum...“

Ef ég spyr mig hvernig fólk ég vilji í sveitarstjórnir á Íslandi, þá eru eiginleikar eins og þessir ekki ofarlega á blaði: „hafi góðan skilning á gangverki fjármálamarkaða“ eða „sé sér fyllilega meðvitaður um hugsanlegar afleiðingar breytinga á matseinkunum fjármálafyrirtækja“. Ég er líka viss um að þeir séu ekki margir.


Mig langar að spyrja þig Gunnlaugur, sem innsta kopp í búri: „Eru til einhverjar reglur um hvernig íslensk sveitarfélög eigi/megi ráðstafa rekstrarafgangi sínum eða jafnvel peningum sem bíða þess að vera varið í verkefni? Eru starfandi á vegum Sambands Sveitarfélaga sérfræðingar sem veitt geta ráðgjöf um örugga ávöxtun fjár?

Grímur

Nafnlaus sagði...

Sæll Grímur.
Árið 2003 var sett inn ákvæði í sveitarstjórnarlög þess efnis að: "Sveitarstjórn skal gæta ábyrgðar í meðferð fjármuna sveitarfélagsins og tryggja örugga ávöxtun þeirra". Ákvæði þessa efnis var ekki að finna í sveitarstjórnarlögum fram að þessu. Álíka ákvæði er að finna í norsku, dönsku og sænsku sveitarstjórnarlögunum. Það er ljós tað nokkur sveitarfélög töpuðu fjármunum sl. haust á svokölluðum peningamarkaðsreikningum. Eins og alþjóð veit höfðu þessir reikningar verið markaðssettir sem örugg og hentug ávöxtunaraðferð. Ákvæði þetta hefur meðal annars verið túlkað á þann veg að sveitarfélagi sé óheimilt að kaupa hlutafé í fyrirtæki sem hefur engin tengsl við sveitarfélagið eða atvinnulífið innan þess. Sambandið og Lánasjóður sveitarfélaga hafa starfsmenn sem búa yfir víðtækri reynslu og þekkingu á þessum málum og leiðbeina sveitarfélögunum í þessum efnum ef eftir er leitað. Við erum hins vegar ekki í beinni samkeppni við ráðgjafafyrirtæki á þessu sviði sem mörg sveitarfélög eru í miklum tengslum við. Öll stærri sveitarfélögin hafa síðan ráðið til sín starfsmenn sem hafa mikla þekkingu á þessum málum. engu að síður töpuðu nokkur þeirra fjármunum á hruni bankanna sl. haust. Önnur höfðu allt sitt á þurru í þessum efnum.
Vina að þetta svari spurningu þinni.
Mbk
Gunnlaugur

Nafnlaus sagði...

Sveitarstjórnarmennirnir okkar eru þá í svipaðri stöðu og bresku sveitarstjórnarmennirnir. Þeir hafa aðgang að ráðgjöf, en þurfa ekki að fara eftir henni.

Peningamarkaðssjóðirnir hafa fengið mjög slæma pressu undanfarið sumpart óverðskuldað. Almennt talað eru skuldabréf misörugg. Öruggust eru skuldabréf útgefin af ríki og sveitarfélögum, síðan bankabréf, þvínæst bréf frá skráðum félögum og að lokum bréf frá óskráðum félögum. Vegna gengisflökkts bera öll erlend verðbréf mikla áhættu.

Það hefur komið fram að ríkisbréf voru af skornum skammti, en peningamarkaðssjóðirnir fjárfestu nær eingöngu í skuldabréfum útgefnum af bönkum og skráðum félögum.

Ef menn vilja hins vegar halda fram að bankahrunið hafi verið fyrirsjáanlegt, þá verður að hafa í huga að áður en neyðarlögin voru sett, þá voru innistæðutryggingar á Íslandi einungis samkvæmt dírektívinu frá EB. Þ.e.a.s. rúmar 20 þús. evrur pr. bankareikning einstaklings. Engar fyrir stofnanir og fyrirtæki! Í ljósi þess voru peningamarkaðssjóðirnir öruggari sparnaður fyrir sveitarfélög en bankabækur fram að setningu neyðarlaganna! Við setningu þeirra var forgangi kröfuhafa breytt skuldabréfaeigendum í óhag.

En ég skil samt ekki þessa ofuráherslu sem bankarnir lögðu á að fá peninga inn í þessa peningamarkaðssjóði. Fólk var jafnvel hvatt til að færa peninga af vaxtalausum reikningum inn í þessa sjóði til mjög skamms tíma. Varla græddu bankarnir á því!?

Ég las einhvers staðar í gær að lífeyrissjóðir liggi nú með stórar upphæðir inni á bankabókum. Neyðarlögin tryggðu innistæðurnar sem voru inni á bókum þegar þau voru sett. Skyldu þessar innistæður vera tryggðar? Kannske skiptir það engu máli. Ríkið hefur ekki burði til að tryggja eitt né neitt um þessar mundir.

Bankakreppan sem rekur rætur sínar til þess að fólk og fyrirtæki geti ekki lengur greitt af lánunum sínum er ekki enn skollin á. Í október hættu bara lánardrottnar fyrirgreiðslu við stóru bankana.

Grímur

Nafnlaus sagði...

Hvers konar hagfræði er það að telja byggingarkrana?

Nafnlaus sagði...

Það er ekki svo vitlaus aðferðafræði per se. Í hverju samfélagi sem funkerar normalt þarf að eiga sér stað ákveðin endurnýjun fjárfestinga og eins er þörf á ákveðnu magni nýfjárfestinga. Þetta er í einhverju hlutfalli við þann íbúafjölda sem er á svæðinu. Byggingakranar eru ákveðin teikn um framkvæmdir og fjöldi þeirra gefur því til kynna það sem er að gerast. Ef fjöldi byggingarkrana er miklu meiri en fyrrgreindar þumalfingurreglur gefa til kynna að eigi að vera þá er ástandið ekki normalt. Þá geta menn spurt sig, hafa einhverjar grunnforsendur breyst? Hefur fundist olía eða atvinnulífið breyst á annan hátt í grundvallaratriðum? Ef ekki þá geta menn leitt líkur að því að húsnæðisbóla sé að byggjast upp og þær geta ekki annað en sprungið á endanum. Það eru gömul og ný sannindi. Ég tala nú ekki um ef aðgengi að ódýru lánsfé er allt að því ótakmarkað eins og var hér um tíma.
Gunnl.