Ólafur Stefánsson handboltamaður var kosinn íþróttamaður ársins í kvöld. Hann er vel að þeim titli kominn enda bæði frábær íþróttamaður og mikill leiðtogi. Valið á þeim íþróttamönnum sem íþróttafréttamenn gáfu atkvæði sitt fannst mér hins vegar endurspegla hið þrönga sjónarhorn sem íþróttafréttamenn fjölmiðlanna hafa. Það var bara eins og ósköp lítið hefði gerst í íþróttum á árinu nema það sem gerðist í fótbolta og handbolta. Sem dæmi má nefna að Helga Margrét Þorsteinsdóttir, ein fremsta sjöþrautarkona heims í sínum aldursflokki, fékk ekki eitt einasta atkvæði. Hún varð Norðurlandameistari unglinga í fyrra sem og Sveinn Elías sem varði Norðurlandameistaratitil sinn frá fyrra ári. Helga Margrét varð síðan í sjöunda sæti á HM í sjöþraut undir 19 ára þrátt fyrir að vera tveimur árum yngri en flestir keppninautar sínir. Þetta dugir greinilega ekki til að ná athygli íþróttafréttamanna. Hvað með heimsmeistara í hestaíþróttum. Eru þeir ekki til lengur eða eru þeir bara ekki með? Fleiri dæmi má tína til í áþekkum dúr.
Ég hef nefnt það áður að ábyrgð fjölmiðlamanna er mikil hvað varðar íþróttir og íþróttaumfjöllun. Manni virðist það oft vera þannig að það séu varla til íþróttamenn nema þeir sem spila í atvinnumennslu erlendis. Það er náttúrulega ekkert nema dæmi um útnesjamennsku. Eftir hverja helgi er birtur langur listi í Mogganum um hvort hinn eða þessi atvinnumaðurinn hafi spilað eða ekki spilað í leikjum helgarinnar. Það þykir íþróttafrétt ef einhver situr á tréverkinu og kemur ekkert við sögu hjá liðinu. Það er eins og það eitt skipti máli að komast í atvinnumennsku. Vitaskuld er það lofsverður árangur en það hangir fleira á spýtunni. Á sama tíma hafa þessir sömu menn takmarkaðan áhuga á að sinna innlendum viðburðum ef þeir eru fyrir utan áhugasvið viðkomandi.
Á tímum aðskilnaðarstefnunnar voru Suður Afríkumenn ekki með í íþróttasamfélagi þjóðanna frekar en á öðrum sviðum. Þeir fengu ekki að keppa í alþjóðlegum keppnum og erlendir íþróttamenn fengu ekki að keppa í landinu. Í stað þess að hanga á girðingunni og mæna á hvað væri að gerast í öðrum löndum þá fóru þarlendir fjölmiðlar að sinna innlendum íþróttaviðburðum af alefli. Það hafði í för með sér að áhugi og þátttaka almennings í íþróttum jókst gríðarlega. Þegar samskiptabanninu var aflétt þá uppgötvaði umheimurinn t.d. að í Suður Afríku var að finna lang lang fjölmennasta ultrahlaup í heimi. Það er Comerades hlaupið sem flestir ultraiðkendur í heiminum hafa heyrt talað um og marga dreymir um að taka þátt í. Það eru einhversstaðar á bilinu 10 - 15 þúsund manns sem taka þátt í hlaupinu. Í dag er það eitt af fjórum klassísku ultrahlaupum í heimi, þökk sé suðurafrísku pressunni.
Við getum borðið þetta saman við umfjöllunina um Laugaveginn sem er það ég best veit næst fjölmennasta ultrahlaup á Norðurlöndunum. Ég fann eitt fjölmennara hlaup í Svíþjóð. Það er Lidingö loppet sem er 50 km langt og hlaupið á flatri braut. Í fyrra luku 277 hlauparar því en um 250 manns luku Laugaveginum. Hérlendis sjá fjölmiðlar enga ástæðu til að sinna Laugaveginum af neinu viti utan að birta fréttatilkynningu um hlaupið og síðan einföld úrslit. Hugsa sér hvað mætti gera ef pressan sinnti þessu af einhverju viti og áhuga. Ég tek undir áhyggjur formanns félags íþróttafréttamanna um niðurskurð á íþróttadeildum fjölmiðla. Þessi sami formaður verður þó að líta í eigin barm og spyrja sig og félagsmenn sína hvort ábyrgðin á þróun mála liggi að einhverju leyti hjá þeim sjálfum. Eru þeir kannski of sjálfhverfir og einsleitir?
Ég verð að segja að ég verð æ meir hugsi yfir því hvað ég er að styrkja þegar ég kaupi flugelda af björgunarsveitunum. Að mínu mati er starfsemi björgunarsveitanna komin á varhugaverða braut. Vitaskuld gegna björgunarsveitirnar oft gríðarlega mikilvægu hlutverki og vinna ómetanlegt starf, iðulega við hinar erfiðustu aðstæður. Ég er hins vegar ekki sáttur við að starf þeirra sé í vaxandi mæli farið að snúast um að aðstoða vitleysinga og letingja án endurgjalds. Slys geta alltaf átt sér stað og óhöpp sem enginn getur séð fyrir. Þá er nauðsynlegt að eiga björgunarsveitir að. En þegar þær eru á fullu við að bjarga vitleysingjum sem sinna ekki viðvörunarskiltum og æða upp á heiðar sem eru auglýstar lokaðar vegna ófærðar og veðurs og svo er bara hringt í björgunarsveitina þegar allt er orðið fast, þá er málið farið að snúast um allt aðra hluti. Það kostar nefnilega gríðarlega fjármuni að kalla út eina björgunarsveit.
Sl. vetur heyrði maður í fréttum að björgunarsveitir hefðu trekk í trekk farið á sömu byggingarsvæðin til að binda niður drasl sem var að fjúka í hvassviðri vegna þess að verktakinn sinnti í engu að ganga frá því byggingarefni sem gat fokið. Hví skyldi hann svo sem leggja í kostnað og fyrirhöfn við að gera það þegar björgunarsveitin gerði þetta ókeypis ef ástæða var til.
Það er hringt úr einhverju húsi á höfuðborgarsvæðinu í björgunarsveitina þegar rok er í bænum. Hún mætir. Þegar knúð er dyra kemur húsbóndinn fram á náttsloppnum og segir að grillið sé að fjúka á pallinum og það þurfi að festa það. Björgunarsveitin gengur í málið og húsbóndinn getur hallað sér aftur án þess að þurfa að fara út í illviðrið og festa grillið.
Angurgapar fara einbíla inn á hálendið án þess að hafa neinn fjarskiptabúnað með sér nema símsvara!! Þegar þeir koma ekki fram er björgunarsveitin send af stað, nema hvað, og finnur þá pikkfasta í skafli. Símsvarinn er fullur af skilaboðum.
Hvað á að gera við rjúpnaskyttur sem villast án þess að hafa svo mikið sem áttavita í vasanum? Hann kostaði innan við 1000 kall síðast þegar ég vissi.
Í sjónvarpinu skömmu fyrir jól var skýrt frá því fréttum að hópur manna hefði farið upp að Hvanneyri og keypt flugelda af björgunarsveitinni þar sem þakklætisvott fyrir að bjarga þeim ofan af Langjökli í fyrra í stjörnubrjáluðu veðri. Þar lögðu björgunarsveitarmenn sig í lífshættu við að bjarga bjánahóp ofan af jöklinum sem lagði í ferð yfir Langjökul og ætluðu inn á Hveravelli í dauðabrjáluðu veðurútliti. Þeim datt ekki einu sinni í hug að líta á veðurfréttirnar og voru þó að fara yfir jökul inni á hálendinu um hávetur.
Hvað er hægt að gera við svona fólk? Jú það er hægt að gera einn hlut. Láta það borga fyrir greiðann. Flóknara er það ekki. Ef að það væri gert myndi svona útköllum fækka á stundinni. Ólíklegasta fólk skilur nefnilega hvað það þýðir að borga peninga.
Mér er sagt að ef gestir á sólarströndu vilja leigja sér seglbretti séu þeir spurðir að því hvort þeir séu tryggðir. Ef ekki þá er þeim sagt að það sé fylgst með þeim á sjónum. Ef þeir fari svo langt til hafs að þeir sjáist ekki frá ströndinni þá sé þyrla send af stað til að finna þá og þeir þurfi að borga reikninginn. Allir ótryggðir strandgestir hætta yfirleitt við svona ferðir.
Í Ölpunum eru skíðamenn látnir borga reikninginn ef þarf að aðstoða þá utan skipulagðra skíðasvæða. Ef þeir fara útfyrir skilgreind svæði þá er það á ábyrgð viðkomandi. Því fara skíðamenn í Ölpunum yfirleitt ekki útfyrir afmörkuð og merkt svæði.
Hérlendis má ekki taka þessa umræðu upp einu sinni. Björgunarsveitirnar berja hana alltaf niður. Ég held aftur á móti að þessi umræða sé óhjákvæmileg í versnandi árferði. Það er ekki gefið að fólk kaupi nægilegt magn flugelda með mörg þúsund prósent álagningu til að björgunarsveitir geti sinnt endalausum útköllum án endurgjalds vegna vitleysinga og letingja ofan á útköll vegna alvöru ástands.
föstudagur, janúar 02, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
Tek undir athugasemdir þínar er varðar fjölmiðlana. Ótrúlegustu fréttir rata á síður blaðanna um miðlungs knattspyrnumenn sem verma bekkinn á meðan að íslenskir íþróttamenn sem ekki eru að keppa í vinsælum íþróttagreinum fá enga umfjöllun. Það er dapurleg staðreynd að íslenskir íþróttafréttamenn sinna einungis því sem þeir hafa áhuga á. Umfjöllun t.d. um kvennaknattspyrnu fór t.d. ekki að aukast fyrr en íslenska kvennalandsliðið átti möguleika á að komast í lokakeppni EM í Finnlandi. Samt var kvennalandsliðið búið að vera miklu hærra á öllum stigalistum FIFA undanfarin ár og það dugði ekki til að fá sambærilega umfjöllun og karlalandsliðið í knattspyrnu sem er ekki nema miðlungs á alþjóðlegan mælikvarða.
Sæll Gunnlaugur!
Auðvitað er allt afstætt en ég myndi tæplega lýsa leið "Lidingöloppets" sem flatri! Hef talið mig sæmilega brattgengan hingað til en játa fúslega að í seinni hluta hlaupsins, sem ég þreytti árið 2000, fannst mér orðið nóg um brekkurnar sem vissulega voru stuttar en allbrattar.
Takk fyrir Starri. Ég hef ekki hlaupið Lidingö loppet og tala því af nokkurri vanþekkingu. Ég var fyrst og fremst að gera samanburð á því og Laugaveginum og mat Lidingöloppet mun auðveldara hlaup en Laugaveginn. Það væri fróðlegt að fá nánari lýsingu á því hjá þér og hvort þetta mat er rétt.
Mbk
Gunnl.
Sæll aftur!
Hef ekki komist Laugaveginn enn þannig að samanburður er erfiður. Lengri gerðin af Lidingöloppet er líka nýtilkomin en ég hljóp á sínum tíma það hefðbundna sem er 30 km og dæmi það hiklaust jafnerfitt og maraþon þar sem hlaupið er eftir skógarstígum sem á köflum liggja yfir lága en þó bratta ása.
Skrifa ummæli