miðvikudagur, nóvember 11, 2009

Ég fór upp í Odda eftir vinnu í dag. Ég var svolítið stressaður enda tilefnið erindið ekki alveg það sem maður gerir á hverjum degi. Ég var að sækja fyrstu eintökin af dálítilli bók sem ég gekk frá í sumar og haust og var að koma úr prentun. Í henni rek ég þróunina frá því við Jói litli tókum alveg óvænt þátt í skemmtiskokkinu forðum daga yfir í það þegar ég lýk Spartathlonhlaupinu í fyrrahaust og snerti styttu Leonidasar í Spörtu með fullum sóma. Á milli þessara tveggja atburða eru ansi mörg skref en hvert og eitt þeirra var þess virði að taka það. Bókin heitir "Að sigra sjálfan sig". Mér finnst titillinn lýsa nokkuð vel því sem hefur gerst á liðnum árum. Ég hef verið svo fyrirhyggjusamur gegnum tíðina að hafa myndavél með mér á mörgum góðum stundum í gegnum árin. Myndir gera manni auðveldara með að rifja upp stundir sem eru þess virði að halda til haga. Það var því til nóg af myndum sem bæði ég og aðrir hafa tekið á góðum augnablikum sem lífga vel upp á textann. Ég vildi ná verðinu niður eins og hægt væri og því er bókin í kiljuformi og myndirnar svarthvítar. Mér finnst nokkuð um vert að hafa svona samantekt á viðráðanlegu verði. Þá eru meiri líkur til að einhver glæpist á að kaupa hana en ef mikið er lagt í umbúðirnar sem bæta í raun afskaplega litlu við innihaldið en þýða aukinn kostnað. Bókin er gefin út af Vestfirska forlaginu sem Hallgrímur Sveinsson, fyrrum staðarhaldari á Hrafnseyri í Arnarfirði, rekur af miklum myndarskap vestur á Þingeyri. Það kom aldrei annað til greina en að hafa fyrst samband við hann þegar ég kannaði hvort eitthvað vit væri í þessari hugmynd sem hafði verið að gerjast með mér um tíma. Hallgrímur hefur gefið út bækur sem tengjast Vestfjörðum á einn eða annan hátt sl. 14 ár. Hann stakk síðan upp á því að láta 300 krónur af hverju seldu eintaki renna til Grensásssöfnunarinnar. Þetta var frábær hugmynd sem var vitaskuld samþykkt um leið. Við Hallgrímur ætlum að hitta Eddu Heiðrúnu uppi á Grensásdeild á föstudaginn kl. 13:00 og afhendum henni þar fyrsta eintakið sem fer formlega í umferð.

"Að sigra sjálfan sig" verður svo náttúrulega til sölu í öllum betri bókaverslunum landsins!!!!

Birgir Sævarsson stórhlaupari hringdi í mig fyrir skömmu. Hann flutti þau tíðindi að Asics umboðið væri að safna saman hópi hlaupara sem er boðið að mynda svokallaðan Asics hóp. Umboðið mun leggja okkur til skó, hlaupaföt, boli og húfur og þar á móti verðum við til taks til kynningar á vörum fyrirtækisins. Ég sagði Birgi að þetta gæti ég gert með góðri samvisku því Asics skórnir hafa reynst mér best af öllum skóm sem ég hef notað í löngum hlaupum. Skór henta fótum misvel. Hlutverk skónna er að vernda fæturna svo það skiptir ekki litlu máli að vera sáttur við þá þegar langar leiðir eru lagðar undir sóla. Ég er með Asics fætur.

7 ummæli:

Stefán Gísla sagði...

Til hamingju með bókina! Hlakka til að kaupa hana og lesa! Vissi ekki einu sinni að þetta stæði til, en svona bók á virkilega erindi við stóran hóp fólks! Sá þig annars út undan mér í dag, en missti svo af þér. Var reyndar bara að slæpast og tefja fyrir fólki....

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með bókina Gunnlaugur gaman að þessu og titillinn skemmtilegur. Hlakka til að kaupa hana og lesa. Gangi þér vel kveðja Erla Gunnars.

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með bókina, félagi :) Hlakka til að lesa um leiðina þína og styrkja frábært málefni í leiðinni. Gott mál.

Kv. Eva

Björn Friðgeir sagði...

Til hamingju með bókina og ég hlakka til að lesa hana.
Það væri þá sniðugt fyrst myndirnar eru í s/h og ef ég þekki þig rétt flestar á flickr, að setja þær sem eru í bókinni saman í 'albúm' á Flickr og plögga það :)

Nafnlaus sagði...

Til lukku með bókina. Ég mun 100% kaupa eintak og bíð spenntur eftir að hefja lesturinn.
kv. Steinn J.

Nafnlaus sagði...

Kæri Gulli,

Hjartanlegar hamingjuóskir með þetta afkvæmi þitt.
Hlakka til að kíkja í bókina.

Bestu kveðjur með ósk um góða sölu.
Sólveig frænka.

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir góðar kveðjur. Góð hugmynd hjá þér Björn með myndirnar. Þetta er mjög einfalt og meir en líklegt að ég komi því í verk.
Mbk
Gunnl.