þriðjudagur, nóvember 17, 2009

Skelfing finnst mér að útvarpsstjóri Útvarps Sögu hafi skotið sig í löppina þegar hún rak Guðmund Ólafsson hagfræðing frá útvarpinu. Guðmundur hafði verið með nokkra kerskni í spjalli sínu við Sigurð G. og gott ef hann var ekki að lýsa samræðum sínum við gömlu konuna í Keflavík. Þeir fóru nokkrum orðum um hvað siðgæðisverðir í fjölmilum gætu tekið sér fyrir hendur og voru dálítið glorrandalegir við það. Útvarpsstjóri sagði að það hefði nokkrum sinnum verið kvartað út af Guðmundi og nú hefði mælirinn verið fullur. Um þetta er ýmislegt að segja. Vafalaust hefur verið kvartað undan Guðmundi því bæði er hann mjög fróður og einnig naskur á að draga fram aðalatriðin úr umræðunni. Það hefur því oft bitið undan honum að ég tali nú ekki um þegar sú gamla í Keflavík hefur verið með í spilinu. Í annan stað hefur mér nú ekki funist það vera talað það mikið guðsbarnamál yfir höfuð á Útvarpi Sögu að það hafi tekið því að taka Guðmund út fyrir sviga. Í þriðja lagi er ég ekki búinn að gleyma því þegar Útvarp Saga gekk vasklega fram í því að rýja Jónínu Benediktsdóttur ærunni. Ég gat ekki hlustað ástöðina í ein tvö ár vegna sóðaskaparins. Það var á þeim árum sem Jónína var að skrifa um öll krosseignatengslin og baktjaldasukkið í íslensku fjármálalífi. Þetta fór illa í ýmsa og Útvarp Saga var notuð dyggilega við að níða niður af henni skóinn. Síðan hefur komið í ljós að efnislega hefur allt staðist sem Jónína var að fjalla um og hún stendur sterkari eftir. Það ætti sem sagt enginn að kasta grjóti sem í glerhúsi býr.

Nú ætlar ríkisstjórin að hætta að leggja fjármagn í að halda tófustofninum í skefjum. Ég efa ekki að ýmsum þeim sem hafa gengið um Hornstrandir finnst mjög sætt að hafa tófuna að flækjast við tærnar á sér og finnst alveg fráleitt að vera að skjóta þetta fallega dýr. Þegar þrjú ráðuneyti eru farin að vinna með útigangsféð í Tálknanum, ríkisstjórnin tekur það sérstaklega fyrir á fundi og það er til umræðu á Alþingi, þá getur maður alveg búist við að tófan verði alfriðuð. Það er mikið rétt að skaði í sauðfé af völdum tófu hefur minnkað mikið eftir að sauðfé er farið að vera meira inni, það er hýst fyrr á haustin og sleppt síðar á vorin. Það er hins vegar fuglalífið sem er ber4skjaldað fyrir þeirri gríðarlegu fjölgun tófunnar sem mun verða ef hætt verður að vinna greni og halda stofninum þannig í skefjum. Það er enginn að tala um að útrýma tófunni og hefur aldrei verið gert. Það verður hins vegar að halda stofninum í skefjum eins og hjá öðrum rándýrum sem hafa afar mikla viðkomu. Fjölgun tófunnar myndi verða í veldisskala. Hvert par eignast þrjá til fjóra hvolpa. Tófan eignast afkvæmi ársgömul. Því geta menn reiknað sjálfir hvernig þróunin yrði ef henni væri ekki fækkað skipulega. Mófuglar sjást ekki lengur á Hornströndum. Tófan hefur eytt bjargfugli í þeim svæðum bjarganna sem hún getur farið um án vandræða. Þessi hluti bjarganna er jafnvel ónýtur til frambúðar því fuglinn verpir ekkki þar sem grasvöxtur er mikill. Stofninum fjölgar eftir þvi sem fæðan nægir. Þá fara dýrin að leita út af svæðinu. Tófur hafa flætt frá Hornströndum suður um alla Vestfirði þegar þær komast ekki lengur fyrir á Hornstrandasvæðinu sökum fæðuskorts. Það sér t.d. stórlega á rjúpnastofninum fyrir vestan eftir að þessi vanhugsaða ákvörðun var tekin á sínum tíma í tíð Össurar Skarphéðinssonar umhverfisráðherra. Ég held að það megi finna aðrar matarholur til að draga úr ríkisútgjöldum frekar en að friða tófuna. Alla vega myndi ég treysta mér vel til þess. Ég þekki það vel til tófunnar að ég þarf ekki að láta segja mér neitt í þessum efnum.

Ég fór í fyrsta sinn í World Class í dag í fjórtán mánuði. Tók 10 km á bretti. Fór frekar varlega því það er dálítið öðruvísi að hlaupa á bretti en úti. Eyk hraðann smám saman næstu vikur og tek einnig löng hlaup á brettinu. Það er smá verkefni í undirbúningi í samvinnu við Björn í World Class. Það kemur betur í ljós í byrjun næsta mánuðar.

Engin ummæli: