laugardagur, nóvember 28, 2009

Það ehfur verið mikil umræða út að fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar að lækka greiðslur í fæðingarorlofi. Það ætlar allt af göflinum að ganga hvað varðar jafnrétti kynjanna og möguleika feðra til að umgangast börn sín. Reyndar finnst mér að það séu yfirleitt konur sem haldi fram þeim sjónarmiðum. Það væri gaman að sjá í hvaða löndum feðrum er greitt álíka fæðingarorlof eins og hér hefur verið gert. Þeir sem vit hafa á hlutunum eru óþreytandi að segja að önnur lönd líti til Íslands í þessu sambandi. Hvernig líta þau til Íslands? Með aðdáun eða í forundran? Mig skal alla vega ekki undra að það hafi verið nokkur spurnarsvipur á öðrum þjóðum þegar fæðingarorlof var greitt hérlendis sem ákveðið hlutfall (80%) af brúttótekjum feðra, sama hvað háar þær voru. Það lentu á manni boðaföllin þegar gerðar voru athugasemdir við þessa stjórnvisku. Það þótti afturhaldssamt, gamaldags og sérdeilis forpokað að vera ekki sáttur við svo ágætt kerfi. Fyrir mína parta þá set ég spurnignarmerki við það að taka feður taki alfarið fæðingarorlof þegar börnin eru kornabörn. Mér finnst að þau hafi ekki síður haft þörf fyrir nærveru pabbans þegar þau voru að byrja í leikskóla eða grunnskóla. Ég hlustaði á spjall í Rúv um etta efni í gær. karlmaðurinn hélt fram þessari skoðun. Hann fékk það framan í sig að hann væri með bara útúrsnúninga og hártoganir. Það er í þessu eins og öðru að það er bara til ein rétt skoðun. Ég ætla ekki að segja hver hafi búið hana til. Síðan er fullyrt að barnsfæðingum muni fækka vegna þessa sérstaklega þar sem barnsfæðingum fækki í kreppu. Reyndar fæðast börn i ár sem aldrei fyrr en það var skýrt út með því að væntanlegir foreldrar hafi ekki áttað sig á að kreppan væri komin.

Út í búð í dag sá ég að Bubbi Mortens vill byltingu. Mig minnir að þessi sami Bubbi hafi gert samning á sínum tíma um að fá ca 10 ára greiðslur fyrir lög sín og texta greidd fyrirfram. Aurana festi hann síðan í FL Group og sá þá aldrei aftur. Það er ekki nema von að það sé kallað eftir byltingu. Spurning er hverja á að kolla? Það er alltaf gert í byltingum.

Fór út snemma í morgun í fínu veðri. Hitti Jóa og Stebba við brúna yfir Kringlumýrarbrautina og fórum Eiðistorgshringinn. 30 km lágu. Fínn dagur.

Man. Udt. vann Portsmouth örugglega í dag. Það telst svo sem ekki til tíðinda að topplið vinni botnlið nema að varnarmaður Portsmouth sagði í Mogganum í morgun að Man. Udt. væru skíthræddir við lið sitt. Hvað ætli það sé búið að tala oft við þennan ágæta mann á íþróttasíðum Moggans síðustu mánuði? Það er spenna í loftinu yfir tilefni næsta viðtals. Ætli það verði þegar hann hefur farið út með ruslið?

Engin ummæli: