þriðjudagur, nóvember 24, 2009

Það var flott viðtalið í Kastljósinu í kvöld við Árna Helgason frá Neðri Tungu út í Örlygshöfn. Hann er orðinn 85 eða 86 ára gamall og fór afar vel og skilmerkilega yfir ýmis atriði varðandi björgunarafrekið við Látrabjarg og svo undir Hafnarmúlanum ári síðar. Það komu ýmsir kunnugir fram í myndbrotunum sem sýnd voru undir viðtalinu. Þar má nefna Þórð og Daníel á Látrum, Drésa Karls, Kitta póst og Agnar frá Hænuvík og svo Anna Hafliða, kona Árna. Það getur enginn ímyndað sér sem ekki hefur reynt hvernig aðstæður voru í bjarginu þessa daga, bæði hjá þeim sem sátu á Flaugarnefninu í allt að tvo sólarhringa og eins hjá þeim sem í fjörunni voru í hráslagaveðri í háskammdeginu. Eins og Árni sagði þá var einhver fyrir tilviljum með öxi með sér sem þeir gátu notað við að höggva spor í snarbratt nefið til að hafa sem viðspyrnu þar sem þeir sátu. Það var rétt sem Árni sagði að það var talað afar lítið um þessa atburði í sveitinni og sérstaklega þó strandið undir Hafnarmúlanum. Þvílík framsýni að hafa látið gera myndina sem hefur haldið þessu afreki á lofti síðan. Kvikmyndagerð var ekki alveg það sem menn voru vanir að fást við vestur í Rauðasandshreppi á árunum eftir seinni heimsstyrjöld. Ætli lífið hafi ekki snúist mest um að hafa í sig og á.
Það var frábær mynd frá Tsjúkotka í Rússlandi í sjónvarpinu í kvöld. Ari Trausti og Ragnar Th. fóru þangað fyrr í ár og ferðuðust um. Eins og sannir landkönnuðir þá dókumeteruðu þeir ferðina af snilld. Það var ánægjulegt að sjá að aðkoma Abramovich hefur breytt tilverunni fyrir þetta fólk. Þróuninni hefur verið snúið við á þann hátt að nú flyst fólk þangað og er það breytt frá því sem áður var þegar allir sem vetlingi gátu valdið flúðu burt. Lífið var ekki svona barskt á Kamchatka þar sem ég bjó í tæpt ár en í Ústkamchatk, norðar á skaganum, var staðan ekki ólík því sem lýst var í myndinni. Halli, formaður hópsins okkar á sínum tíma, kom þangað einu sinni. Ástandið var ekki fallegt að hans sögn. Skelfing væri gaman að komast í svona túra með góða myndavél í farangrinum. Maður getur reynt að ímynda sér hvernig það hefur verið fyrir Gúlagfangana að berjast við vegalagningu í fimbulkulda á þessum slóðum. Stór hluti þeirra sem sendur var þarna austur dó úr hryllilegri þrælkun og ömurlegum aðbúnaði. Kuldinn getur farið niður undir -50°. Maður sá það á veðurkortum frá Rússlandi á sínum tíma.
Jói og félagar hans í 2. fl. Víkings urðu Reykjavíkurmeistarar í handbolta í gærkvöldi. Það munaði litlu að þeir misstu titilinn út úr höndunum á sér þegar þeir fóru að spila eins og viðvaningar undir lok leiksins en sem betur fer tókst þeim að hanga á sigrinum. Erfiðleikarnir eru líka til að læra af þeim ef vilji er fyrir hendi.

Engin ummæli: