Ég hlusta ekki mjög mikið á útvarpið en vissulega gerir maður það þó alltaf af og til. Helst er það þó á morgnana áður en maður fer í vinnuna. Mikið ósköp leiðist mér þetta innihaldslausa blaður sem tröllríður of mörgum stöðvum. Það er eins og að anda að sér súrefni að hlusta á normalt talað mál. Það liggur við að það sé frískandi að hlusta á veðurfregnirnar miðað við blaðrið.
Ég heyrði hluta af morgunþættinum á rás 1 í ríkisútvarpinu í morgun. Þar var meðal annars sagt að það þyrfti að vernda minnihlutann og tryggja rétt hans í þinginu sem og annarsstaðar. það er mikið rétt. Vitaskuld hefur meirihlutinn alltaf ákveðin völd en öll fundarsköp og lýðræðislegar reglur eru til þess að tryggja rétt minnihlutans. Meirihlutinn, hver sem hann er, sér yfirleitt um sig. Í þættinum var sagt að það væri miklu ríkari hefð fyrir minnihlutastjórnum á öðrum norðurlandanna en hérlendis og mér skildist að það væri merki um að þær þjóðir væru komnar lengra á hinni pólitísku þroskabraut. Skoðum þetta nú aðeins. Í Danmörku var minnihlutastjórn við völd í áraraðir og oftast undir forystu sósíaldemókrata. Hvers vegna skyldi það nú vera? Árið 1979 náði Fremskridspartiet undir forystu Glistrups kjöri á þing og fékk mikinn fjölda þingmanna. Enginn vildi vinna með þeim og þeir líklega ekki með neinum. Þess vegna gat Anker Jörgensen mindað minnihlutastjórn því Glistrup og hans menn náðu ekki saman við aðra hægri flokka. Sama staða var í Svíþjóð. Þar ríktu kratarnir í áraraðir með stuðningi kommúnistanna. Þeir vildu ekki fara í ríkisstjórn þvi það var þægilegra að vera utan stjórnar og gagnrýna en haft engu að síður einhver áhrif á stjórnarstefnuna. Af tvennu illu töldu þeir þó betra að hafa kratana við völd heldur en hægri menn. Svipuð staða er í Noregi og í Danmörku. Stefna Framfaraflokksins hefur verið þannig að aðrir hægri flokkar vildu lengi vel ekki vinna með honum. Því gátu minnihlutastjórnir starfað. Fjöldi minnihlutastjórna er því afsprengi stöðunnar en ekki dæmi um pólitískan þroska.
Í sama þætti var einnig sagt að einstaklingarnir (almenningur) ættu ríkið og ríkiseignir (að því mig minnir). Það er rangt að mínu mati. Það er samfélagið sem á ríkið og rikiseignir. Samfélag lifir lengur en sérhver einstaklingur. Samfélagið hefur verið byggt upp af hverri kynslóð á fætur annarri. Sérhverri kynslóð ber skylda til að skila ekki síðra búi til næsta kyndilbera heldur en því sem hann tók við. Þeir einstaklingar sem mynda samfélagið hverju sinni hafa því ekkert leyfi til að líta á ríkiseignir sem sína persónulegu eign því þær eru eign samfélagsins.
Það er ekki oft sem ég er sammála feministafélaginu. Eiginlega aldrei. Þó ber svo við að nú er ég dálítið sammála þeim. Þær voru að fordæma ráp fjármálastjóra KSÍ um rauðu hverfin í Zurich sem endaði á annan hátt en ætlað var (skyldi maður vona). Ég þarf ekki að velta því mikið fyrir mér að maður hefði ósköp einfaldlega ekkert verið að hafa fyrir því að mæta í vinnuna aftur ef kort vinnuveitendans sem maður hefði borið ábyrgð á hefði verið straujað á viðlíka hátt og fréttir herma að hafi gerst í þessari reisu. Það vita allir sem vilja vita að kampavínsflöskur á strippbúllum eru vægt sagt fokdýrar. Það er því ekkert einhver skyndileg ógæfa að lenda í svona máli heldur eitthvað allt annað.
Ég er að velta fyrir mér hvers vegna er verið að banna vændi með lögum? Hverjum kemur það við ef ég myndi auglýsa klukkutímann á tuttuguþúsund kall eins og taxtinn virtist vera hjá konunni sem rætt var við í sjónvarpsfréttum í kvöld. Ég á hins vegar ekki von á því að það yrði mikill business en sama er, hvers vegna ætti að einhver að banna mér þetta. Mannsal er allt annað. Vitakuld á að tryggja það með lögum eins og fært er að einstaklingur sé ekki neyddur til að stunda vændi eða önnur störf þvert á móti vilja sínum. Það er bara allt annar hlutur. Ég sé í sænskum blöðum að það er síður en svo eining þar í landi um sænsku aðferðina sem felst í að banna vændi. Það er alveg eins hægt að banna fátækt og berja sér svo á brjóst. Það voru sænskir móralistar sem börðu þetta í gegn til að geta hreykt sér hátt á alþjóðlega vísu og sagt: "Vi er bäst í världen" Moralistarnir höfðu hins vegar engan áhuga á að aðstoða þá einstaklinga sem voru í götuvændinu í Svíþjóð segir sænsk pressa. Þetta heitir "Dubbelmoral".
Bandarísk pressa er ekki meðvituð:
"Icelandic detainee escapes in downtown Plattsburgh"
Gott hlaup í morgun. Fór út um 6:30 og tók fyrst Poweratehringinn. Hitti svo Jóa við brúna og við tókum hringinn vestur í bæ og svo til baka gegnum Laugar. Alls lágu 34 km. Fínt veður,logn og bjart þegar fór að birta.
Flott gert hjá Daníel Smára að veita smá verðlaun til þeirra sem eru að standa sig vel í almenningsíþróttunum. Steinn er verðugur kappi að taka á móti fyrstu viðurkenningunni.
laugardagur, nóvember 07, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli