sunnudagur, nóvember 01, 2009

Það var skemmtilegt kvöld yfir á Broadway í gærkvöldi. Hljómsveitin Kokteill frá Raufarhöfn hélt upp á 20 ára starfsafmæli með tónleikum og síðan var ball á eftir. Við Sigrún fórum yfir því maður sér vini og kunningja frá Raufarhöfn alltof sjaldan. Við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Um 200 manns mættu og skemmtu sér vel. Þetta var bara eins og á góðu balli í Hnitbjörgum. Milli laga hjá hljómsveitinni var rúllað í gegn þremur upptökum frá gömlum uppákomum fyrir norðan. Flesta þekkti maður á þeim en margir höfðu breyst töluvert eins og gefur að skila á fimmtán til tuttugu árum. Aðrir voru alveg eins. Það var gaman að sjá þegar börn strákanna í hljómsveitinni komu upp á sviðið og renndu sér í gegnum Mustang Sally eins og ekkert væri. Þau eru á aldrinum 11-20 ára. Toppurinn var síðan þegar ellefu ára stúlka flutti frumsamið lag við eigin texta með slíkum tilþrifum að manni var orða vant.

Tónlistin er mjög sterkur þáttur í tilveru fólksins á Raufarhöfn. Þar er rík hefð fyrir hljóðfæraleik og þar er margur látúnsbarkinn. Sveinungarnir standa þar öðrum framar. Sveinn og Jói fengu þar góða undirstöðu í tónlistinni sem hefur dugað vel til þessa. Ég man enn eftir gæsahúðinni sem maður fékk þegar Sveinn sem þá var 13 ára, Diddi 10 ára og Jói 9 ára spiluðu lag með Utangarðsmönnum uppi á sviði á tónleikum hjá tónlistarskólanum eins og enginn væri morgundagurinn.

Maður sér á svona samkomum hvað tíminn líður. Smábörnin sem voru þegar við fluttum að norðan eru orðnir vel stálpaðir unglingar og unglingarnir orðnir fullorðið fólk. Það er gaman að sjá hvað margir hafa spjarað sig vel og unnið vel úr sínum pundum.

Það er alveg á hreinu að það var góð ákvörðun þegar við fluttum norður á sínum tíma. Ég hefði ekki viljað missa af þeim tíma sem við dvöldum þar. Ef það hefði ekki gerst hefði maður hvorki kynnst þessum hluta landsins eins og við gerðum við dvölina þar né heldur kynnst öllu því ágæta fólki sem bjó þarna fyrir norðan á þessum árum. Margt af því er flutt suður en það heldur vel hópinn eins og sést á svona kvöldum. Það kemur alltaf í mann dálítil "heim" tilfinning að hugsa norður.

Ég er langt kominn með Svartbók Kommúnismans. Það er ekki fögur lesning. Maður er því kannski næmari fyrir umræðu um kommúnismann en ella eftir að hafa verið að berjast í gegnum þessa miklu bók. Sú ógnarstjórn sem réði ríkjum í kommúnistaríkjum birtist kannski fyrst og fremst í morðóðum stjórnvöldum. En síðan sér maður hvað ógnarstjórnir Kommúnistaríkjanna hélt öllum almenningi í stöðugum ótta við valdið þó svo að morðæðið væri að einhverju leyti runnið af þeim. Ég hlustaði á Krossgötur með Hjálmari Sveinssyni á laugardaginná Rás 1. Þar var verið að segja frá lífinu í Austur Þýskalandi. Einn af þeim sem hafði verið settur í fangelsi fyrir engar sakir sagði t.d. að hann hefði hitt aldraðan mann sem hafði verið dæmdur í nokkurra ára fangelsi. Sök hans var sú að hann hafði hvorki klagað dótturson sinn eða andmælt honum þegar strákurinn hafði í einhverri fjölskylduveislu sagst vilja yfirgefa landið. Einhver úr fjölskyldunni hafði orðið vitni að samtalinu og klagað þá báða. Afleiðingin var fleiri ára fangelsi fyrir að þegja. Það er náttúrulega ekki hægt að ímynda sér hvernig er að lifa í svona samfélagi. "SovétÍsland óskalandið, hvenær kemur þú?" var ort hér áður fyrr á árunum.

Ég skárði mig í Comrades hlaupið í Suður Afríku í dag. Þann 1. nóv. var opnað fyrir þá sem ekki hafa hlaupið það áður. Það eru 5.000 sæti laus í þann pakka. Áður höfðu 15.000 fyrrum þátttakendur skráð sig til leiks. Comrades er 89 km langt og er eitt af hinum fjórum klassísku ultrahlaupum í heiminum. Það er það fjölmennasta. Hin eru Western States, elsta 100 mílna hlaupið og það virtasta, Spartathlon, lengsta og erfiðasta ultra hlaupið og síðan London Brighton sem er elsta ultra hlaup í heiminum. Ég er búinn með þrjú þeirra og á einungis Comrades eftir. Félagin Neil er einnig búinn með þrjú en hann á WS eftir. Hann hljóp Comrades fram og til baka í haust er leið og náði þestum tíma þeirra sem það hafa gert. Ágúst Kvaran, Eiður Aðalgeirsson og Erla Bolladóttir eru þeir þrír Íslendingar sem hafa hlaupið Comrades.

Stóra Tálknamálið vindur upp á sig. Nú eru þrjú ráðuneyti komin í málið. Ríkisstjórnin búin að taka málið fyrir á fundi sínum. Gott að stjórnmálamenn og embættismenn geri eitthvað gagnlegt í fásinninu.

Engin ummæli: