sunnudagur, nóvember 08, 2009

Ég heyrði viðtal við formann fasteignasala í útvarpinu í dag. Formanninum þótti spár um þróun fasteignaverðs vera uppvænlegar og taldi einboðið að Seðlabankinn vissi eitthvað annað en almenningur hvað þessi mál varðaði. Mér finnst það nú liggja alveg í augum uppi að fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu muni lækka enn frekar á komandi mánuðum og misserum. Það liggur í fyrsta lagi fyrir að það standa auðar einhverjar þúsundir íbúða sem eru á öllum byggingarstigum. Fullbúnar eða hálfkaraðar. Halda menn virkilega að þetta hafi engin áhrif á markaðinn? Í öðru lagi er spáð 16% lækkun kaupmáttar á næsta ári? Halda menn virkilega að þetta hafi engin áhrif á fasteignamarkaðinn? Það sem er verst í þessu öllu saman er hinn gríðarlegi fjöldi tómra íbúða sem mun draga tennurnar úr byggingariðnaðinum á komandi árum. Offjárfestingin er svo svakaleg. Menn hefðu betur hugsað um þessi mál í samhengi fyrir tveim - þremur árum eða svo. Fasteignaverð getur þróast öðruvísi út á landsbyggðinni ef þar verður næga atvinnu að fá. Víða er fasteignaverð þar mjög lágt en það getur breyst ef eftirspurn eftir húsnæði eykst í samræmi við næga atvinnu.

ManU. tapaði öðrum stórleiknum í röð. Nú var það Chelsea sem lagði kappa Fergusons. Það var sama uppi á teningnum og í Liverpoolleiknum að margir dómar voru undarlegir. Rooney dæmdur ranglega rangstæður í dauðafæri. Drobga rangstæður þegar Chelsea skoraði. Tveir Chelsea menn skella saman og liggja eftir. Félagar þeirra storma í sókn en þegar ManU. hafa brotið hana á bak aftur og sækja þá er leikurinn fyrst stöðvaður. Drobga fær gult spjald á furðulegan hátt. Auðvitað geta dómarar gert mistök eins og aðrir. Það er hins vegar pirrandi þegar dómar hafa mikil áhrif á gang svona stórra leikja.

Það var flott veður í morgun þegar ég fór út um sex leytið. Logn og smá stirningur. Ég lauk 34 km en var frekar þungur. Ég stefni að því að losa 100 km á viku það sem eftir er af árinu. Þá verður maður fínn með nýju ári.

Engin ummæli: