Hroki er alltaf heldur leiðinlegur eiginleiki. Oft brýst hann fram þegar einstaklingar vita sig standa höllum fæti en bregðast við með hroka til að freista þess að slá aðra út af laginu. Óskabarn þjóðarinnar, Eiður Smári, brást við með ótrúlegum hætti þegar blaðamaður einn vogaði sér nýlega að segja að óskabarnið væri áhugalaust, latt og hefði engan áhuga á því að fá boltann. Þetta hafa flestir séð á undanförnum árum sem hafa viljað sjá það. Vitaskuld er alltaf auðveldast að kóa með en stundum verður að segja að kóngurinn sé ekki í neinum fötum (alla vega heldur lélegum). Eiður hefði getað brugðist mannalega við þessari gagnrýni og látið verkin tala. Landsleikur framundan og með góðri framistöðu þar hefði hann slegið allar gagnrýniraddir flatar. "Tölum saman eftir Luxemborgarleikinn" hefði verið flott svar og svo hefðu verkin verið látin tala. Nei, aldeilis ekki. Eiður hreytir skæting í blaðamanninn og segir að hann sé feitur og lélegur fótboltamaður sem aldrei hafi komist í atvinnumennsku og hafi því ekki vit á fótbolta. Svo upplifa menn það að sóknin gegn Luxemborg var hrein hörmung enda þótt Eiður sjálfur væri með í leiknum. Það er oft betra að segja minna og standa við það heldur en að blása sig upp með innistæðulausum orðum. Besti tími Eiðs var með Chelsea þegar hann og Jimmy Floyd sópuðu inn mörkum.
Það eru rúmir tuttugu kappar skráðir í Ironman í Kaupmannahöfn á næsta ári. Þetta er flott. Áhugi fyrir ultragreinum fer sífellt vaxandi og gaman að sjá hvað margir vilja takast á við þessa miklu íþrótt. Skyldi sá dagur renna upp að Ironman verði talin íþrótt hérlendis á við brennibolta og strandblak? Vonandi.
fimmtudagur, nóvember 19, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Til að járnkarlinn verði talinn til íþrótta hérlendis þá þarf að halda heilan járnkall hér á landi. Ég held að það sé rétt sem þú segir að áhugi á ultragreinum sé sífellt vaxandi og ég hef trú á að það næðist fín þátttaka í íslenskan járnkall næsta sumar, ég veit um a.m.k. þrjá sem myndu mæta til leiks.
Skrifa ummæli