sunnudagur, nóvember 15, 2009

Það var haldinn Þjóðfundur í gær. Þetta var svolítið sérstök samkoma. Nokkuð stór hópur fólks var kallaður saman og fékk það verkefni að móta nýja sýn til framtíðar eftir því sem manni skildist. Það hefur töluvert verið látið með þennan fund eins og hann komi til með að marka einhver tímamót í sögu þjóðarinnar. Heiðarleiki var nefndur einna oftast sem sá eiginleiki sem ætti að vera í forgrunni. Hvað gera svo fulltrúar þeirra 300 félagasamtaka sem voru kallaðir til fundarins. Koma þeir nú til síns heima eins og iðrandi syndarar og segja: "Sjá, mér hefur opnast ný sýn. Nú verðum við að vera heiðarleg og hætta að svindla." Þýðir það þá að allir (flestir) hafi verið óheiðarlegir fram til þessa. Það held ég ekki. Ég held að allur þorri fólks sé heiðarlegur í eðli sínu. Svona fundir breyta akkúrat engu hvað lífsviðhorf þessa fólks varðar. Það verður bara eins og það hefur alltaf verið. Síðan eru aðrir sem reiða heiðarleikann kannski ekki í þverbandspokum. Ég hef enga trú á að svona fundur breyti neinu fyrir þann hluta heldur. Hvert er þá markmiðið? Skapa umræðu. Gott og blessað. Gefa mönnum kost á að koma sama og ræða málin. Fínt. Maður sá í Silfri Egils að Menntamál, Atvinnulíf og Umhverfismál voru dregin sterkt fram en Jafnrétti og Lýðræði höfðu lágan prófíl. Ég hef þá trú að það sé erfitt fyrir marga að kyngja þessari áhersluröð. Hvað þýðir þetta? Á að setja jafnréttismálin í neðstu skúffuna? Hvað segir jafnréttisiðnaðurinn við slíku?

Ég átti leið fram hjá Laugardalshöllinni í gær þegar þjóðfundurinn var haldinn. Fullt af bílum var lagt snyrtilega upp á grasið til hliðar við götuna að höllinni og voru þar ekki fyrir neinum. Lögreglan var mætt og byrjuð að skrifa miður skemmtileg skilaboð. Ég spjallaði við lögregluþjóninns em var þar að verki. Hann sagði að það hefðu margir kvartað yfir bílum sem lagt væri upp á grasið. Líklega eru þar grasverndarmenn að verki. Vitaskuld sá ég einnig bíla sem lagt var mjög bjálfalega og engin ástæða til annars en að sekta. Merkilegt hvað löggan er fljót til með sektarmiðana við íþróttamannvirki. Ætli það sé vegna þess hver afköstin eru mikil? Þeir ættu t.d. að leggja leið sína af og til út á Reykjavíkurflugvöll þar sem bílum er lagt vel og vandlega við merki þar sem stendur skýrum stöfum "Bannað að leggja ökutæki".
Svo allrar sanngirni sé gætt þá skal þess getið að því sem næst öll bílastæðin fyrir framan stúkuna á Laugardalsvellinum voru tóm í gær.

Mér finnst umfjöllun fjölmiðla um störf barnaverndarnefnda að undanförnu vera ömurleg. Það er voðalega auðvelt að hafa uppi stór orð um störf aðila sem hefur enga möguleika á að segja eitt einasta orð um málið. Störf barnaverndarnefnda eru vafalaust með þeim erfiðustu í stjórnsýslunni. Fagmennska hefur vaxið verulega frá því umdæmin voru gerð stærri og aðgengi að sérfræðiþekkingu batnaði. Það þarf ekki að koma neinum á óvart að barn vilji ekki fara frá heimili sínu þrátt fyrir allavega aðstæður. Það er sú fótfesta í lífinu sem það þekkir best, jafnvel þótt hún sé ekki beysin. Meir að segja ríkissjónvarpið tekur þátt í leiknum samkvæmt dagskrárauglýsingum fyrir kvöldið. Sú var tíðin að sumir fjölmiðlar höfðu ákveðna síu á því hvað þeir tóku til umfjöllunar. Það virðist vera liðin tíð. Við hverju er svo sem að búast af fjölmiðli sem brýtur landslög ítrekað með áfengisauglýsingum en skýlir sér bak við örlitla stafi sem eru vart læsilegir en eiga að þýða "Léttöl".

Við Jói og Gauti hittumst við brúna yfir Kringlumýrarbrautina í gær úm kl. 8:00 og tókum góðan hring. Ég fór út upp úr 6:30 og fór Poweratehringinn áður. Við hlupum svo út á Eiðistorg, inn í Laugar og svo heim. Logn og besta veður. Í morgun var hins vegar orðið hvasst og kallt. Ég fór út kl. 7:00 og hljóp vestur á Eiðistorg, inn í Laugar og síðan aftur til baka. Til að ná yfir 100 km í vikunni fór ég hring í Elliðaárdalshólmanum. Þetta er allt eins og á að vera.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sammála þér með umfjöllun um störf barnaverndar nefndar. Börnin eiga alltaf að njóta vafans. Skemmst er að segja frá máli Peter Connellys þar sem að sjónarhorn barnaverndarnefndar Bretlands gekk út á rétt foreldris til barns en ekki rétt barnsins til þess að lifa án ofbeldis af hálfu foreldra.

Kv. Karl