sunnudagur, nóvember 29, 2009

ég lauk við að lesa Ævintýraeyjuna eftir Ármann Þorvaldsson í gærkvöldi. Ég hef reynt að lesa þær bækur sem hafa verið gefnar út um bankaþróunina og hrunið. Þær gefa hver sinn vinkil á þá þróun sem leiddi ófyrirsjáanlegan ófarnað yfir íslensku þjóðina. Mér finnst þessi bók vera sú sísta sem ég hef lesið. Hún er yfirborðsleg frásögn manns sem manni finnst alveg eins að geti hafa staðið fyrir utan allt saman og horft á sjálfan sig í einhverju framandi hlutverki sem hann bar enga ábyrgð á. Oft er látið að því liggja að vöstur Kaupþings hafi verið svo mikill vegna þess hve forystumenn bankans voru snjallir. Mér finnst miklu frekar það standa efti að hafa lesið þessa bók að hinn gríðarlegi vöxtur bankans hafi verið eins og hann var vegna þess hve forystumennirnir voru vankunnandi um bankamál eða svo fullir sjálfstrausts að hið hálfa hafi verið nóg. Kaupþing þróaðist sífellt meir og meir í þá átt að verða heildsölubanki. Það þýðir að hann lánaði til langs tíma en fjármagnaði sig til skamms tíma. Hann varð því sífellt háðari fjármögnun á alþjóðlegum lánamörkuðum. vegna þess var starfsemi hans sífellt áhættusamari. Það hafði í för með sér að skuldatryggingarálagið hækkaði og hækkaði. Þá var farið að leita á enn fjarlægari markaði til að reyna að bjarga málunum. Sama hefur vafalaust mátt segja um hina bankana tvo. Starfsemi þeirra var byggð á kviksandi. Ef minnsta hreyfing varð á undirstöðunni þá gliðnaði hún í sundur. Það eru þó nokkur atriði sem standa eftir við lestur bókarinnar. Eitt þeirra er til dæmis um hve ýmsa hafi skort lágmarks kunnáttu í mannasiðum. Nefnd eru nokkur dæmi um hvernig hinir og þessir, og þar á meðal bókarhöfundur, hafið komið fram við annað fólk og stuðað það. Þetta hefur vafalaust þótt fyndið í hópi hrokagikkjanna á þeim tíma en virkar nú sem birtingarmynd vanmetakenndarinnar. Annað er ákveðinn plebbaháttur í tónlistarsmekk. Menn sem halda miklar veislur á fínustu veitingahúsum í London hringja ekki í Duran Duran og biðja þá um að skemmta. Það væri svona svipað og hringja í Troggs eða Uriah Heep. Það er dálítið dæmigert þegar hópur fór á ballettsýningu á Ítalíu og fóru síðan að hringja heim og spyrja hvenær söngvarinn (KJ) myndi koma fram. Manni dettur síðan helst í hug að hin gríðarlega eftirspurn eftir að heyra nefndan Ármann syngja Delilah sem Tom Jones gerði vinsælt fyrir einhverjum 40 árum síðan geti allt að eins verið vegna þess að menn hafi hálfvegis verið að gera grín að honum með því biðja hann um að belja lagið við ólíklegustu tækifæri.

Ég á eftir að lesa Styrmisbókina. Hún er vafalaust með áhugaverða vinkla.

Ég fór yfir 5000 km markið í ár kl. fimm mínútur yfir 11 í morgun. Ég hljóp 30 km á bretti í World Class í morgun. Þegar ég fór fyrst á bretti fyrir fjórum árum þá var það död og pine að fara upp í 8 km samfellt á bretti. Nú líða 30 km hjá eins og ekkert sé. Þetta var síðasta langa æfingin fyrir fyrirhugað 100 km hlaup á bretti sem ég ætla að takast á við á laugardaginn kemur. Ég hef æft ágætlega í haust svo þetta á að vera í lagi. Skrokkurinn er fínn svo þetta er fyrst og fremst spurning um hausinn. Ég hafði hugsað mér að fá fimm manns héðan og þaðan til að hlaupa á bretti við hliðina á mér og hver tæki 2 x 10 km. Ég sé ekki fram á að ná því þar sem of mörgum óar við þessari vegalengd. Þá verður þetta bara eitthvað öðruvísi því það eru þegar farnir að gefa sig fram einstaklingar sem vilja hlaupa lengri eða styttri vegalengd samhliða mér. Þetta verður nokkurs konar kynningaruppákoma á bókinni sem kom út fyrir skömmu m.a. til styrktar Grensásdeildinni. Það kemur betur í ljós í vikunni hvernig uppsetningin verður en hlaupið hefst kl. 9:00 á laugardagsmorgun.

Þar til fyrir tveimur árum síðan þá hljóp ég samtals um 3000 km á ári og þótti ágætt. Í fyrra fór ég vel yfir 4800 km en nú eru komnir 5000 km á ellefu mánuðum. Það gera um 450 km á mánuði. Það var allt að því hámarksvegalengd í ströngu prógrammi fyrir 3-4 árum. Nú er það bara létt og áreynslulítið. Það sem helst vantar nú í þessu sambandi er tími. Það er bara eins og gengur.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Gunnlaugur. Samkvæmt prógrammi á ég að hlaupa 32 km á laugardaginn. Ég er til í að taka það á bretti, ef þig vantar mannskap með þér. Láttu mig bara vita. Kveðja, Elín Reed.

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir þetta báðar tvær. Góður félagsskapur verður vel þeginn.
Gunnl.

Starri Heiðmarsson sagði...

Það er ekki logið á þig kvenhyllinni Gunnlaugur! Eigðu gott hlaup, sjáumst vonandi í Þorvaldsdalnum næsta sumar
Starri