Silfurmótið var hjá ÍR í íþróttahöllinni í Laugardalnum í dag. Þetta er fyrsta innanhússmót vetrarins og alltaf gaman að sjá hvernig krakkarnir koma inn í veturinn. María keppti í nokkrum greinum og gekk vel. Hún bætti sig í öllu nema 60 m. grind en hana vann hún engu að síður. Hún náði í fyrsta sinn yfir 10 m. í kúluvarpi en það hefur verið ein slakasta greinin hennar í sjöþrautinni. Hún varð önnur bæði í 60 m. hlaupi og 200 m. hlaupi og svo sigraði hún í þrístökki á nýju íslandsmeti í sínum aldursflokki. Hún tvíbætti reyndar gamla metið. Vinkona hennar var búin að jafna íslandsmetið áður svo þær koma á góðu skriði inn í veturinn.
Í dag náði ég að hlaupa lengra samtals á árinu en ég gerði allt árið í fyrra. Í fyrra hljóp ég rúmlega 4800 km en ef allt gengur upp þá fer ég vel yfir 5000 km í ár. Árið 2007 hljóp ég samtals rétt yfir 3000 km á árinu svo álagið hefur aukist verulega. Engu að síður er þetta miklu léttara en áður. Það þakka ég fyrst og fremst mataræðinu. Vitaskuld byggist upp ákveðin reynsla en sama er. Ég ætla að taka langt hlaup inni á brettinu á morgun. Ég þarf að byggja upp smá reynslu á brettinu fyrir smáverkefni sem stefnt er að í byrjun desember. Meira um það síðar.
Ég sé að það eru fleiri en ég dálítið hissa á þeirri gríðarlegu áherslu sem umsjónarmenn íþróttasíðu Moggans sína þeim íslendingum sem hafa komist á samning hjá misjafnlega góðum fótboltaliðum hér og þar um Evrópu. Skýrt er reglulega frá þrásetu á bekkjum. Ef einhver fer í skoðun þá er það tíundað vel og rækilega. Umboðsmenn strákanna hljóta að hafa ótakmarkaðan aðgang að blaðinu. Á sama tíma er ekki minnst á margt það sem er að gerast hérlendis. Það ætti ekki að vera meira mál að hringja símtal innanlands en út um alla Evrópu. Alla vega kostar það heldur minna.
Nú síðast var okkur skýrt frá því að vonir standa til að Hermann Hreiðarsson komist á leikskrá hjá Portsmouth á næstunni. Mogginn er búinn að standa á öndinni í allt haust út af hermanni. Greint hefur verið í smáatriðum frá hverju einasta skrefi sem hann hefur tekið. Hermann hitt og Hermann þetta. Það eina sem mér finnst áhugavert í þessu sambandi er hvort Hermann Hreiðarsson setur enskt met í vor með því að falla úr úrvaldsdeildinni með fimmta liðinu. Hann er búinn að jafna enska metið með því að falla með fjórum liðum svo nú bíða margir spenntir eftir hvað gerist næst. Þó ekki íþróttasíða Moggans, hún minnist ekki á þetta.
laugardagur, nóvember 21, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli